8.10.2014 | Blogg

Forritum framtíðina

advania colors line
Evrópska forritunarvikan (EU CodeWeek) verður haldin dagana 11. – 17. október. Þetta er annað árið í röð sem sérstök forritunarvika er haldin í Evrópu. Verkefnið er hluti af framkvæmdaáætlun framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um að efla stafræna færni (e-skills).

Skema leiðir verkefnið á Íslandi

Okkur hjá Skema var falið  að keyra verkefnið áfram hér á Íslandi og höfum við fengið mikilvægan stuðning frá Evrópustofu og Sendinefnd Evrópusambandsins á Íslandi við framkvæmdina. Undanfarnar vikur höfum við skipst á hugmyndum í gegnum netspjall og á fundi með fulltrúum allra þátttökuþjóða í Brussel. Í fyrra voru haldnir ríflega 300 viðburðir tengdir tækni og forritun sem yfir 10.000 einstaklingar í 26 löndum tóku þátt í. Í ár taka 38 þjóðir þátt og verða rúmlega 1.300 viðburðir haldnir í tilefni vikunnar um alla Evrópu. Á Íslandi eru viðburðirnir þegar orðnir 38 talsins og eru þeir meðal annars haldnir af 

Skema, Evrópustofu, Microsoft, Epli, Kelduskóla, Brekkuskóla á Akureyri, /sys/trum, Háskólanum í Reykjavík, Ský og Fab Lab smiðju Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. Við vonumst þó til að viðburðirnir verði enn fleiri og að fleiri fyrirtæki eigi eftir að taka vel við sér nú á lokasprettinum.

Gerum forritun og tæknimenntun sýnilegri

Markmið evrópsku forritunarvikunnar er að gera forritun sýnilegri í samfélaginu, stefna áhugasömum saman í lærdóm helguðum tækninni og hvetja ungt fólk til að leggja stund á tækninám gagngert til að loka því stóra gapi sem er að myndast á milli framboðs og eftirspurnar á störfum innan upplýsingatæknigeirans. Dæmi um verkefni sem urðu til eftir forritunarvikuna í fyrra eru CoderDojo og Rails Girls. Fyrirtæki eins og Rovio, Microsoft, Telefonica, Liberty Global, Google og Facebook hafa tekið vel við sér og eru nú virk í að kynna tækni og forritun fyrir milljónum barna um allan heim. Við hjá Skema höfum samhliða fundið fyrir auknum áhuga fyrirtækja hér á landi sem vilja starfa með okkur og stuðla m.a. að vitundarvakningu á mikilvægi upplýsingatækni og forritunar til framtíðar á sem flestum skólastigum.

  

Af hverju forritun og tæknimenntun?

Forritun og tæknilæsi eru mikilvægir þættir í nútíma samfélagi. Tæknin mótar líf okkar í vaxandi mæli en staðreyndin er að fámennur hópur ræður því hvernig við nýtum okkur hana.  Flest erum við aðeins neytendur að tækni sem aðrir hafa búið til fyrir okkur. Það er grundvallarmunur á því að nota tæknina á skapandi hátt og að vera óvirkir neytendur. Þessu viljum við hjá Skema breyta. Frá því að fyrirtækið var stofnað árið 2011 hafa rúmlega 3.000 krakkar á aldrinum 6-16 ára komið á námskeið í grunnforritun, Minecraft, Unity 3D, vefsmíði tækjaforritun og svokallaðan tölvutæting. Um 400 kennarar hafa setið námskeið í forritun og fengið sérsniðna kennslu á spjaldtölvur og hvernig nota á þær í skólastarfi.  

Forritun er lykillinn að störfum framtíðarinnar

Grunnþekking í forritun er lágmarks krafa í mörgum af bestu störfum nútímans og framtíðarinnar enda eru tölvunarfræðingar og forritarar lykilfólk í flestum atvinnugreinum. Eftirspurn eftir tæknimenntuðu fólki eykst stöðugt en framboð fagmenntaðra forritara heldur ekki í við eftirspurn. Ef ekki er brugðist markvisst við þessu mun vanta um 900.000 tæknimenntaða einstaklinga í Evrópu árið 2020. 

Enn hallar á konur í upplýsingatækni

Hlutfall kvenna í upplýsingatæknigeiranum er einnig skuggalega lágt. Forritun er einföld og góð leið til að laða stúlkur að sviðinu og kveikja áhugann hjá þeim sem síðan eykur líkurnar á menntun og starfsvali á sviði upplýsingatækninnar. Reynslan sýnir að eftir því sem við náum fyrr til stúlkna og kynnum þær fyrir forritun og möguleikum tækninnar, því líklegra er að þær velji forritun og upplýsingatækni í framtíðinni.   

Gerum forritun að skyldufagi

Eftir því sem við best vitum er Bretland eina landið sem hefur ákveðið að gera forritun að skyldufagi í námskrá. Það stefnir sömuleiðis í að forritun verði skyldufag fyrir alla aldurshópa í Finnlandi. Í Eistlandi og í Katalóníu er forritun valfag í grunnskólum og framhaldsskólum. Rætt hefur verið um að gera forritun að skyldufagi eða valfagi í grunn- og/eða framhaldsskólum hér á landi þannig að vilji er fyrir því að gera forritun og upplýsingatækni hærra undir höfði í íslenska menntakerfinu þó svo að nákvæm útfærsla liggi ekki enn fyrir. Við hjá Skemu sjáum mikinn áhuga hjá foreldrum og grunnskólum í að uppfæra menntun í takt við tækniþróun og breyttar þarfir samfélagsins. Foreldrar, skólastjórnendur og kennarar deila vilja okkar að auka tæknilæsi og tæknivitund hér á landi. Þátttakan í Evrópsku forritunarvikunni er mikilvægur liður í þessari viðleitni. 

Fyrirkomulag verkefnisins

Í hverju þátttökulandi er að minnsta kosti einn fulltrúi sem er tengiliður vikunnar. Hann sér um upplýsingamiðlun og hvetur viðeigandi aðila til þátttöku í vikunni.  Viðburðirnir eru birtir á heimasíðu vikunnar. Framkvæmdin þarf ekki að vera flókin, til dæmis má setja upp léttan fund, námskeið eða tækniskemmtun sem snýr að einhverju leyti að forritun og þeirri sköpun og skemmtun sem henni getur fylgt. Ef þú ert með hugmynd að viðburði þá hvet ég þig til að hafa samband

Áhugaverðir tenglar

TIL BAKA Í EFNISVEITU