5.6.2019 | Fréttir

Hamborgaraveisla hjá forstjóra eftir 14 hringi umhverfis Ísland

advania colors line

Advania bar sigur úr býtum í vinnustaðakeppni Hjólað í vinnuna í flokki fyrirtækja með 400-799 starfsmenn. Þetta er í áttunda sinn sem Advania sigrar umrædda keppni. Merkur árangur, ekki síst vegna þess að Advania hefur sigrað þennan flokk allt frá stofnun fyrirtækisins árið 2012.

Liðlega 150 starfsmenn Advania tóku þátt eða nærri því fjórðungur allra starfsmanna. Starfsfólk hjólaði alls 18.682 kílómetra sem samsvarar 14 hringjum umhverfis Ísland. Um er að ræða nærri því tvöföldun frá fyrra ári þegar starfsfólk hjólaði 9.877 kílómetra. 

Á síðasta degi keppninnar stóð hjólaklúbbur starfsmannafélags Advania fyrir hópferð heim til Ægis Más Þórissonar, forstjóra Advania á Íslandi. Þar var glæstum árangri fagnað með heljarinnar hamborgaraveislu í sólinni. 

„Það er ekki annað hægt en að vera stoltur af þessum árangri“ segir Ægir Már. „Starfsfólk Advania á mikið hrós skilið fyrir að hafa lagt sitt af mörkum. Svona keppni hefur ekki bara jákvæð áhrif á umhverfið, heldur líka á heilsu fólks og jafnvel lífstíl. Það er við hæfi að fagna þessum frábæra árangri í þessu blíðskaparveðri.“

 
TIL BAKA Í EFNISVEITU