Nýjasta nýtt - 30.04.2014
Advania fékk klárar tæknistelpur í heimsókn
Advania fékk í dag góða gesti í heimsókn en hér var um að ræða um 30 stelpur úr 8. bekk Hörðuvallaskóla.
Advania fékk í dag góða gesti í heimsókn en hér var um að ræða um 30 stelpur úr 8. bekk Hörðuvallaskóla. Markmiðið með heimsókninni var að kynna upplýsingatækni fyrir stúlkunum og er hún liður í verkefninu stelpur og tækni sem Háskólinn í Reykjavík, Ský, Samtök iðnaðarins, GreenQloud, Skema og /sys/tur standa að. Fyrirmynd að deginum er Girls in ICT Day sem er alþjóðlegur viðburður. Verkefnið miðar að því að stúlkur hitti kvenfyrirmyndir í upplýsingatækni, spreyta sig á verkefnum og kynni sér starfsemi fyrirtækja sem starfa í greinininni.
Í heimsókninni til Advania hittu stúlkurnar þrjár kjarnakonur hjá Advania sem hver um sig gegnir lykilhlutverki hjá fyrirtækinu. Þær eru Elísabet Sveinsdóttir markaðsstjóri, Sigrún Eva Ármannsdóttur forstöðumaður og Harpa Guðjónsdóttir hugbúnaðarsérfræðingur.
Markmið Advania er að ná jafnvægi í fjölda karla og kvenna en nú eru konur eru tæplega þriðjungur starfsfólks og stjórnenda hjá fyrirtækinu. Það er nokkuð hátt hlutfall, en hefðbundið hlutfall kvenna í upplýsinga-tæknifyrirtækjum er 10-15% samkvæmt upplýsingum frá Félagi kvenna í upplýsingatækni. Konum hefur fjölgað hjá fyrirtækinu um 4% undanfarin tvö ár.
Hér segja þær Telma Líf, Elísabet Mist og Rut frá því hvernig þeim fannst heimsóknin.