Nýjasta nýtt - 19.02.2014

Advania fyrirmyndarfyrirtæki fyrst upplýsingatæknifyrirtækja

Advania er fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum að mati Rannsóknarmiðstöðvar um stjórnarhætti við Háskóla Íslands.

Advania fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum

Advania er Fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum að mati Rannsóknarmiðstöðvar um stjórnarhætti við Háskóla Íslands og fyrst upplýsingatæknifyrirtækja á Íslandi til að hreppa nafnbótina. Frá upphafi hafa aðeins sjö fyrirtæki fengið viðurkenninguna.

Ítarleg úttekt á stjórnunarháttum

Viðurkenningin er veitt í kjölfar ítarlegrar úttektar á stjórnarháttum félagsins sem unnin var af KPMG ehf. Í umsögn Rannsóknarmiðstöðvarinnar segir að úttekt KPMG gefi skýra mynd af stjórnarháttum Advania og bendir til þess að fyrirtækið geti að mörgu leyti verið öðrum fyrirtækjum til fyrirmyndar þegar kemur að góðum stjórnarháttum. Þá segir einnig að hlutverk stjórnar sé vel skilgreint í starfsreglum og að hún leggi áherslu á stefnumótunarhlutverk og að gæta hagsmuna hluthafa og viðskiptavina.

Markmið að efla stjórnunarhætti íslenskra fyrirtækja

Úttekin er unnin á vegum Viðskiptaráðs Íslands, Samtaka atvinnulífsins, Nasdaq OMX Iceland hf. og Rannsóknarmiðstöðvar um stjórnarhætti við Háskóla Íslands sem hafa tekið höndum saman um að efla stjórnarhætti íslenskra fyrirtækja. Í þeim tilgangi geta fyrirtæki gengist undir formlegt mat á starfsháttum stjórnar og stjórnenda. Rannsóknarmiðstöð um stjórnarhætti hefur það mat með höndum. Söfnun gagna fer fram hjá ráðgjöfum eða öðrum þeim sem Rannsóknarmiðstöðin telur hæfa til verksins, í þessu tilviki KPMG ehf.

Rannsóknarmiðstöðin byggir mat sitt í meginatriðum á því hvort gögnin gefi til kynna að viðkomandi fyrirtæki fylgi leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja sem Viðskiptaráð Íslands, Samtök atvinnulífsins og NASDAQ OMX Iceland hf. gefa út. Þau fyrirtæki sem standast matið á framangreindum forsendum er veitt nafnbótin Fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum.


 

Fleiri fréttir

Viltu vita meira?

Tölum saman

Viltu vita meira? Sendu okkur fyrirspurn.