Nýjasta nýtt - 21.8.2015 14:18:00

Advania kaupir Tölvumiðlun

Með fyrirvara um samþykki frá Samkeppniseftirlitinu

Eitt elsta hugbúnaðarfyrirtæki landsins

Advania hefur fest kaup á Tölvumiðlun og bíður nú eftir að Samkeppniseftirlitið leggi blessun sína yfir kaupin. Tölvumiðlun er með elstu hugbúnaðarfyrirtækjum landsins, en fyrirtækið á 30 farsæl ár að baki. Félagið mun smellpassa inn í skipulag Advania og tilheyra að mestu launa- og mannauðslausnum eftir sameiningu.  

Í þessari sameiningu felst mikill styrkur þar sem Tölvumiðlun hefur á að skipa framúrskarandi sérfræðingum sem slást nú í okkar hóp. Við sjáum líka fyrir okkur að við getum aukið og bætt þjónustuna við viðskiptavini með  krosssölu og samþættingu á tímaskráningalausnum auk þess sem þróun verður markvissari á mannauðslausnum. Þá má gera má ráð fyrir því að möguleg tækifæri opnist erlendis“, segir Gestur G. Gestsson, forstjóri Advania.

Fjölbreyttar lausnir auka forskot viðskiptavina

Helstu vörur Tölvumiðlunar eru H3 launa- og mannauðskerfi, SFS fjárhagskerfi og ýmsar sérlausnir. Lykilvara Tölvumiðlunar er H3, heildarlausn í mannauðsmálum (laun, mannauður, ráðningar, áætlanir og fræðsla) en sú vara er útbreitt og vinsælt kerfi sem mun styrkja vöru-og þjónustuframboð Advania.

Okkar áhersla hefur alltaf verið gæði, metnaður og þjónusta og á því verður engin breyting. Við höfum lagt mikla áherslu á vöruþróun og þá sérstaklega á H3 launa- og mannauðskerfinu okkar.  Sameiningin gerir okkur mögulegt að nýta styrk sérfræðinga Advania til áframhaldandi þróunar hugbúnaðarlausna með hagsmuni viðskiptavina okkar að leiðarljósi. 
Við lítum framtíðina með Advania björtum augum og sjáum fram á spennandi tíma framundan með krefjandi verkefnum, fjölbreyttara lausnaúrvali og framúrskarandi þjónustu
“, segja Daði og Brynjar framkvæmdastjórar hjá Tölvumiðlun.

Traust fyrirtæki á styrkum grunni

Tölvumiðlun var stofnað árið 1985 og er því eitt elsta hugbúnaðarfyrirtæki landsins. Fyrirtækið hefur vaxið jafnt og þétt en hjá því starfa 30 starfsmenn, auk fimm manna þróunarteymis í Úkraínu. Tölvumiðlun byggir farsælan árangur fyrirtækisins á hæfileikaríku og reynslumiklu starfsfólki og traustu sambandi við stóran hóp viðskiptavina til fjölda ára. Fyrirtækið hefur alla tíð starfað á innanlandsmarkaði, þróað og þjónustað eigin viðskiptahugbúnað sem hannaður hefur verið með hagsmuni og þarfir íslenskra fyrirtækja að leiðarljósi. 

Um Advania

Advania er upplýsingatæknifyrirtæki sem býður samþættar heildarlausnir fyrir atvinnulífið og neytendur bæði hvað varðar hugbúnað og vélbúnað auk þess að bjóða fjölbreytta hýsingu, starfrækslu gagnavers og víðtæka rekstrarþjónustu. Starfsfólk Advania er um 1.000 talsins í 17 starfsstöðvum í þremur löndum. Advania er samstarfsaðili fjölmargra alþjóðlegra fyrirtækja í upplýsingatækni. Þar má nefna Dell, Cisco, EMC, IBM, Microsoft, NCR, Oracle, SAP, Symantec, HP og Xerox.
Ráðgjafi seljanda var KPMG og ráðgjafi kaupanda var Beringer finance.

Fleiri fréttir

Viltu vita meira?

Tölum saman

Viltu vita meira? Sendu okkur fyrirspurn.