Nýjasta nýtt - 29.6.2017 14:47:00

Advania opinberar dagskrá Haustráðstefnu Advania 2017

Gögn sem áhrifavaldar, staða sýndargjaldmiðla og tæknileg menntakerfi. Allt þetta og meira á Haustráðstefnunni, elstu tækniráðstefnu í Evrópu.

„Tækifæri í nýjum tækniheimi“ er yfirskrift Haustráðstefnu Advania sem haldin verður þann 8. september næstkomandi í Hörpu. Þar munu 34 fyrirlesarar stíga á svið og miðla reynslu sinni, sýn og þekkingu.

„Við erum afskaplega ánægð með dagskrána og gæði fyrirlesaranna sem munu flytja erindi á Haustráðstefnunni í ár“ segir Ægir Már Þórisson, forstjóri Adania á Íslandi. „Framtíðin er vinsælt umræðuefni á ráðstefnum sem þessari en við viljum skoða nánar tækifærin sem nýr tækniheimur hefur nú þegar fært okkur.“

Á ráðstefnunni verða erindi frá fyrirtækjum og stofnunum á borð við Google, Dell, Cambridge Analytica, HPE, RSA, Trend Micro, BitFury, Íslandsbanka, Arion banka, Össur og fleirum.

Boðið verður upp á fjölbreytt erindi sem skipt er niður á fjórar þemalínur: Tækni og öryggi, Nýsköpun, Stjórnun og Breakout. Á ráðstefnunni verða fimm lykilfyrirlesarar sem munu flytja erindi í hinum mikilfenglega Eldborgarsal en þeirra á meðal er Alexander Nix, forstjóri Cambridge Analytica, fyrirtækis sem spilaði lykilhlutverk í síðustu forsetakosningum í Bandaríkjunum sem og kosningunum um Brexit í Bretlandi. 

„Cambridge Analytica hefur þróað aðferðafræði og tækni sem gerir þeim kleift að kortleggja hegðun, skoðanir og langanir neytenda“ segir Ægir. „Þessar upplýsingar notar fyrirtækið svo til að hafa áhrif á hegðun neytenda, en meðal skjólstæðinga fyrirtækisins er sjálfur Donald Trump, sem notaði sér þessa þjónustu í kosningabaráttu sinni.“

Alls hafa um 17 þúsund gestir sótt ráðstefnuna frá upphafi og nú undanfarin ár hafa ráðstefnugestir verið um og yfir eitt þúsund talsins á hverju ári. Alls hafa um 900 fyrirlestrar verið haldnir á þessum ráðstefnum en um er að ræða einn stærsta viðburð ársins í upplýsingatækni hér á landi og jafnframt eina elstu árlegu tækniráðstefnu í Evrópu.

Á ráðstefnunni verður glæsilegt sýningarsvæði þar sem leiðandi fyrirtæki í upplýsingatækni veita gestum tækifæri til að prófa eigin lausnir. Ráðstefnugestir hafa mikil tækifæri til tengslamyndunar á sýningarsvæðinu og í glæsilegu kokteilpartíi sem haldið verður í boði Dell eftir ráðstefnuna.

Haustráðstefna Advania fer fram í Hörpu þann 8. september 2017 en þetta er í 23. sinn sem Advania stendur fyrir ráðstefnunni. Núna er hægt að kaupa miða á forkaupsverði og sérstök kjör eru í boði fyrir þá sem kaupa fimm miða eða fleiri.

Smelltu hér til að skoða dagskrá Haustráðstefnu Advania 2017.

Fleiri fréttir

Viltu vita meira?

Tölum saman

Viltu vita meira? Sendu okkur fyrirspurn.