Nýjasta nýtt - 15.06.2011

Afkoma Skýrr 2010

Uppsveifla milli ára, jákvæður árangur í rekstri og gott útlit - nú í þrívídd

Afkoma

Velta fyrirtækjanna sem mynda samstæðu Skýrr ehf. var liðlega 22 milljarðar króna á árinu 2010. EBITDA framlegð af reglubundnum rekstri þessara félaga var 790 milljónir króna og afkoma eftir skatta var um 390 milljónir króna. Eigið fé í árslok 2010 nam 3.343 milljónum króna. Áætlun fyrir árið 2011 gerir ráð fyrir veltu upp á 23–24 milljarða króna og að EBITDA framlegð verði um 1,4 milljarður króna.

Í samanburði áranna 2009 og 2010 er um að ræða rekstur Skýrr, EJS, Kögunar, Eskils, Landsteina-Strengs, HugarAx, Kerfi AB og Hands AS – og móðurfélagsins, Teymis. Þessi félög voru sameinuð undir nafni Skýrr á árunum 2009–2011.

„Talsverð uppsveifla var í afkomu Skýrr-samstæðunnar milli áranna 2009 og 2010. Tekjur ársins 2010 voru 22.129 milljónir króna, en voru 21.477 milljónir 2009. EBITDA framlegð fyrir árið 2010 var 790 milljónir króna, en var 181 milljón árið 2009. Afkoma samstæðunnar var jákvæð um 389 milljónir króna árið 2010, en var hins vegar neikvæð um 362 milljónir árið 2009. Þetta er ágætur viðsnúningur, við erum stolt af þessum rekstrarárangri og útlitið fyrir 2011 er gott,“ segir Þorsteinn G. Gunnarsson, stjórnarformaður Skýrr.

Ný stjórn

Ný stjórn Skýrr ehf. var kjörin á aðalfundi félagsins hinn 15. júní 2011. Aðalmenn eru Anna Rún Ingvarsdóttir, Einar Páll Tamimi, Gísli Hjálmtýsson, Þorsteinn G. Gunnarsson og Þór Hauksson. Varamenn eru Erna Eiríksdóttir og Finnbogi Jónsson. Þorsteinn er formaður stjórnar.

Eignarhald

Framtakssjóður Íslands er aðaleigandi Skýrr í dag, auk rúmlega 40 annarra hluthafa. Sjóðurinn er í eigu sextán lífeyrissjóða. Framtakssjóður Íslands er meðal annars kjölfestufjárfestir í Icelandair, Icelandic Group, Vodafone, Húsasmiðjunni og Plastprent. Samanlögð velta fyrirtækja í eignasafni sjóðsins er um 300 milljarðar króna og hjá þeim starfa um 8 þúsund manns, þar af um 3.600 á Íslandi.

Starfsemin í hnotskurn

Skýrr býður atvinnulífinu heildarlausnir á sviði upplýsingatækni, hvort heldur á sviði hugbúnaðar, vélbúnaðar eða rekstrarþjónustu af fjölbreyttu tagi. Skýrr er nú stærsta fyrirtæki Íslands á sviði upplýsingatækni. Skýrr hefur jafnframt trausta stöðu á norrænum mörkuðum gegnum dótturfyrirtæki sín erlendis. Skýrr-samstæðan hefur um 1.100 starfsmenn. 500 starfa hjá Skýrr og hartnær 600 til viðbótar starfa hjá dótturfyrirtækjunum HugAx (100), Hands í Noregi (200) og Kerfi í Svíþjóð (300).

Viðskiptavinir

Viðskiptavinir Skýrr á íslenskum fyrirtækjamarkaði eru nú um 10 þúsund af öllum stærðum og gerðum og markaðshlutdeild í sölu á tölvubúnaði er um þrjátíu prósent. Fyrirtækið hélt jafnframt um 30 opna fræðsluviðburði á árinu 2010, sem löðuðu til sín liðlega 10 þúsund gesti.

Samstarf við Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna

Skýrr hefur samfélagsábyrgð að leiðarljósi í allri starfsemi og fyrirtækið tekur virkan þátt í fjölmörgum samfélagstengdum verkefnum. Á aðalfundi félagsins 15. júní var tilkynnt um endurnýjað samstarf Skýrr og Styrktarfélags krabbameinssjúkra barna. Helstu atriði þess samnings eru að öll börn undir 16 ára aldri sem hafa fengið krabbameinsgreiningu fá afhenta fullkomna Dell-fartölvu frá Skýrr til að fylgjast vel með í skólanum og halda góðum samskiptum við fjölskyldu og vini.

Nýtt húsnæði

Skýrr í Reykjavík er nú staðsett á tíu hæðum í þremur byggingum í borginni. Nú er fyrirliggjandi ákvörðun um að starfsemi fyrirtækisins verði sameinuð undir eitt þak að Sætúni 10 á árunum 2011 til 2012, annars vegar í uppgerðu húsnæði andspænis Höfða og hins vegar í nýbyggingu við hlið þess, sem horfir út á sundin blá.

Ársskýrsla í þrívídd

Skýrr framleiðir í ár fyrstu ársskýrsluna um nokkurt skeið eða frá því að félagið var skráð á markað upp úr síðustu aldamótum. Af því tilefni var ákveðið að brydda upp á þeirri nýjung að vinna töflur og myndir í ársskýrslur með léttu nördaþema í þrívídd, en með nútímatækni er það lítið mál og fljótlegt.

Ársskýrslu Skýrr má nálgast í höfðustöðvum Skýrr, Ármúla 2, ásamt þrívíddargleraugum.
Skýrsluna má einnig finna í hluthafaupplýsingum hér á vefsetrinu.



 

Fleiri fréttir

Viltu vita meira?

Tölum saman

Viltu vita meira? Sendu okkur fyrirspurn.