Gott 9 mánaða uppgjör hjá Skýrr
10% tekjuvöxtur milli ára og 9% EBITDA-vöxtur
„Við erum mjög ánægð með þann rekstrarárangur sem liggur núna fyrir og niðurstaðan er í meginatriðum í samræmi við áætlun. Við erum að auka EBITDA-framlegð um rétt tæplega 9% milli ára. EBITDA af reglubundnum rekstri var 839 milljónir króna á fyrstu níu mánuðum ársins 2011, samanborið við 770 milljónir á sama tímabili í fyrra,“ segir Gestur G. Gestsson, forstjóri Skýrr.
Heildarhagnaður Skýrr
Heildarhagnaður Skýrr á fyrstu níu mánuðum ársins 2011 var 57 milljónir króna. Þessi afkoma er lítillega undir áætlun og stafar það einkum af sveiflum í gengi íslensku krónunnar á árinu og tilfallandi kostnaði við yfirstandandi endurskipulagningu hjá dótturfyrirtæki Skýrr í Noregi. Þess má geta að á þriðja árshluta var EBITDA-framlegð 337 milljónir króna, en velta tímabilsins nam 5,3 milljörðum. EBITDA-hlutfall Skýrr á þriðja árshluta 2011 var því 6,3%. Eigið fé Skýrr í lok september 2011 nam 3.398 milljónum króna.
Norrænt upplýsingafyrirtæki
„Fyrirtækið hefur tekið miklum breytingum undanfarin misseri. Skýrr er þannig í dag norrænt upplýsingatæknifyrirtæki með 1.100 starfsmenn í fjórum löndum. Við vinnum hörðum höndum að samþættingu samstæðunnar í eina heild og það verkefni gengur framar vonum. Erum meðal annars að styrkja grunnviði og skipulag samstæðunnar, létta samhliða á yfirbyggingu og efla nokkur lykilverkefni miðlægt – meðal annars á sviði viðskiptahugbúnaðar. Jákvæð afkoma okkar í níu mánaða uppgjöri, þrátt fyrir nokkuð erfitt árferði, sýnir að við erum á réttri leið,“ bætir Gestur við.
Stjórn Skýrr
Stjórn Skýrr skipa þau Anna Rún Ingvarsdóttir, Einar Páll Tamimi, Erna Eiríksdóttir, Finnbogi Jónsson, Gísli Hjálmtýsson, Þorsteinn G. Gunnarsson (formaður) og Þór Hauksson. Aðaleigandi Skýrr er Framtakssjóður Íslands, auk rúmlega 40 annarra hluthafa.