Nýjasta nýtt - 03.07.2014

Hluthafafundur Advania samþykkir hlutafjáraukningu

Hluthafafundur Advania sem haldinn var í dag, samþykkti tillögu stjórnar um heimild til að auka hlutafé félagsins um 2.000 milljónir króna að markaðsvirði eða 500 milljónir að nafnverði.

Helstu atriði:

  • Samþykkt að auka hlutafé um allt að tvo milljarða króna
  • Eiginfjárhlutfall félagsins eykst í 22,5%
  • AdvInvest verður aðaleigandi félagsins að lokinni hlutafjáraukningu

Tillaga stjórnar um heimild til að auka hlutafé var samþykkt

Hluthafafundur Advania sem haldinn var í dag, samþykkti tillögu stjórnar um heimild til að auka hlutafé félagsins um 2.000 milljónir króna að markaðsvirði eða 500 milljónir að nafnverði. Hlutafjáraukningin verður nýtt til þess að greiða niður skuldir félagsins við lánastofnanir og þar með auka eiginfjárhlutfall þess úr tæpum 10% í 22,5%. Heimildina getur stjórn nýtt til 31. desember 2014 og eiga hluthafar forkaupssrétt að nýju hlutafé í samræmi við hlut sinn í félaginu. Frestur til að skrá sig fyrir nýju hlutafé verður til 23. júlí næstkomandi og til greiðslu nýs hlutafjár til 27. júlí. 

Framtakssjóður hefur ákveðið að framselja forkaupsrétt sinn

Framtakssjóður Íslands, sem er eigandi 71,26% hlutar í félaginu, hefur ákveðið að framselja forkaupsrétt sinn að nýju hlutafé til sænska félagsins AdvInvest AB. Auk þess hefur FSÍ skuldbundið sig til að selja AdvInvest hluta af núverandi eign sinni til að tryggja félaginu 51% eignarhlut. AdvInvest býður öðrum hluthöfum félagsins að ganga inn í viðskiptin á sömu kjörum og FSÍ. Hversu mikið FSÍ selur mun ráðast af því hvort eða hversu mikið aðrir hluthafar falla frá kaupum í hlutafjáraukningunni. 

AdvInvest er í eigu sænskra fjárfesta

AdvInvest er í eigu sænskra fjárfesta sem hafa langa og farsæla reynslu í upplýsingatækni og er leitt af Thomas Ivarson sem hefur áratugareynslu af rekstri tæknifyrirtækja í Norður Evrópu. Markmið fjárfestanna er að efla félagið enn frekar, nýta sterkan þekkingargrunn félagsins á Íslandi og  tengsl og þekkingu fjárfestanna til frekari vaxtar á Norðurlöndunum. 

Nýtt hlutafé mun styrkja rekstur félagsins til langframa

Um nokkurt skeið hefur legið fyrir að auka þyrfti hlutafé Advania og hækka eigið fé félagsins. Nýtt hlutafé mun styrkja rekstur félagsins til langframa og veita því styrk til að sækja fram erlendis, einkum á Norðurlöndunum. Erlend sókn félagsins byggir m.a. á þekkingu og reynslu innlends starfsfólks félagsins. Með innkomu fjárfesta með langa reynslu af rekstri upplýsingatæknifyrirtækja á Norðurlöndum styrkir Advania enn frekar möguleika sína til verða eitt af leiðandi fyrirtækjum í upplýsingatækni á Norðurlöndunum. Sameiginlegt markmið stærstu eigenda félagsins er að skrá félagið á markað bæði í Kauphöll Íslands og í Svíþjóð.

 

Fleiri fréttir

Viltu vita meira?

Tölum saman

Viltu vita meira? Sendu okkur fyrirspurn.