Jafnlaunavottun - Hvað þýðir það fyrir þitt fyrirtæki?
Á næstu fjórum árum verður jafnlaunavottun innleidd í skrefum á íslenskum vinnumarkaði. Hvað er jafnlaunavottun? Hvað þurfa rekstraraðilar fyrirtækja að gera til að mæta kröfunni um að standast jafnlaunavottun? Og hvenær taka lög um jafnlaunavottun raunverulega gildi? Hér er farið yfir helstu atriði sem varða jafnlaunavottun eins og málin horfa við fyrirtækjunum sem eiga að standa að innleiðingu.
Í aðdraganda gildistöku laga um jafnlaunavottun er að ýmsum málum að huga. Vert er að skoða lögin sjálf, staðalinn sem þau byggja á og hvernig hægt er að mæta þeim kröfum sem stillt er upp.
Lög um jafnlaunavottun
Um mitt árið 2017 voru lög samþykkt á Alþingi sem stuðla að jöfnum rétti karla og kvenna á vinnumarkaði og vinna gegn kyndbundnum launamun. Í raun og veru má þó segja að lögin hafi töluvert breiðari skírskotun, en þau stuðla fyrst og fremst að jöfnum rétti einstaklinga óháð kyni, þjóðerni eða öðrum þáttum.
Saman dregið má segja að megininntak laganna sé eftirfarandi:
- Lögin eiga við um fyrirtæki eða stofnanir með 25 starfsmenn eða fleiri.
- Jafnlaunavottun skal endurnýja á þriggja ára fresti.
- Skila þarf skýrslum um niðurstöður til Jafnréttisstofu.
Staðallinn
Samkvæmt lögunum skal jafnlaunavottun byggjast á staðlinum ÍST 85/2012 og er sá staðall aðgengilegur öllum á netinu en fyrir þá sem vilja er einnig hægt að kaupa hann á pappír.
Tilgangur staðalsins er að styðja atvinnurekendur í því að koma á og viðhalda launajafnrétti innan vinnustaðar.
Með innleiðingu á staðlinum er atvinnurekandi í raun að koma sér upp stjórnkerfi til að tryggja að ákvörðun launa sé málefnaleg og að rökstuðningur fylgi ákvörðunum.
Stjórnkerfið
Þegar talað er um stjórnkerfi í þessu samhengi er í raun átt við eftirfarandi:
- Verklag sé skýrt við ákvörðun launa
- Störf og einstaklingar séu metnir eftir viðeigandi þáttum
- Skipulega sé fylgst með og haldið utan um laun starfsmanna, tryggja að brugðist sé við launamisræmi
- Tekið sé á móti ábendingum
- Úrbætur séu framkvæmdar með meðvituðum og rekjanlegum hætti
Það er ekki gefið að það sé auðvelt fyrir starfsfólk að byrja á þessu verkefni og auðveldlega geta vaknað spurningar um hvar rétt sé að byrja eða hvernig best sé að standa að málum. Hvernig er til dæmis best að halda utan um ábendingar? Hvar er eðlilegt að vista launagreininguna eða framkvæma starfaflokkun o.s.frv.
Til að varpa ljósi á hvað þetta felur allt saman í sér þá þarf t.d. að meta einstaklinga út frá hæfni og persónubundnum þáttum, það þarf að meta mikilvægi starfa, álag, vinnuaðstæður og margt margt fleira. Ólík störf geta einnig verið jafn mikilvæg og ber að greiða sömu laun fyrir þau þó svo þau séu óskyld, eins getur stéttarfélag starfsmanns haft áhrif á ákvörðun launa.
Reglulega þarf að vinna þessar greiningar og framkvæma úttektir til þess að öðlast „Jafnlaunavottun“ og viðhalda henni. Til þess þarf að vera hægt að sýna fram á hvernig þessi mál eru rekin og til þess þarf gott skipulag.
Augljóslega má gera ráð fyrir að utanumhald með þessum málum sé umfangsmeira hjá fjölmennari fyrirtækjum, en óháð stærð fyrirtækja eða starfsemi mætti segja að það sé hollt fyrir alla starfsemi að fara í gegnum þennan feril og innleiða stjórnkerfi sem tryggir jöfn laun starfsmanna.
Með reglulegu millibili þarf atvinnurekandi að fá óháðan vottunaraðila til þess að taka út stjórnkerfið veita eða endurnýja jafnlaunavottunina. En vottunaraðili má ekki vera sá hinn sami og framkvæmir úttektir.
Lausnir
Advania hefur í samstarfi við Avanti Ráðgjöf þróað lausn sem styður við innleiðingu og rekstur á „Jafnlaunastjórnkerfi“ sú lausn heitir easyEQUALPAY og inniheldur meðal annars tilbúin stefnuskjöl, verklagsreglur, sniðmát o.fl. sem fyrirtæki þurfa að eiga til hjá sér og vinna eftir. Einnig veitir lausnin skipulag og virkni til að framkvæma og fylgja eftir þeirri vinnu sem þarf að fara í s.s.
- Vöktun
- Innri og ytri úttektir
- Rýni stjórnenda
- Móttaka ábendinga
- Frávikaskráning
- Úrbótaverkefni
- o.fl.
Með slíkri lausn verður mun einfaldara að fylgja regluverkinu auk þess að hafa góða yfirsýn og skýran ramma um þau verkefni sem þarf að vinna.
Nánari upplýsingar um easyEQUALPAY má finna á vöruvef Advania.
Mikilvægar tímasetningar
- Fyrirtæki með 250 eða fleiri starfsmenn - Skulu öðlast vottun eigi síðar en 31.des 2019
- Fyrirtæki með 150-249 starfsmenn - Skulu öðlast vottun eigi síðar en 31.des 2020
- Fyrirtæki með 90-149 starfsmenn - Skulu öðlast vottun eigi síðar en 31.des 2021
- Fyrirtæki með 25-89 starfsmenn - Skulu öðlast vottun eigi síðar en 31.des 2022
Rétt er að benda á að innleiðing á jafnlaunavottun sem stjórnkerfi getur tekið allt frá nokkrum vikum og upp í nokkra mánuði, að sjálfsögðu háð starfsemi og þeim stjórnarháttum sem fyrir eru eins og vinnuframlagi í verkefnið. Fyrir flest stærri fyrirtæki sem skulu öðlast vottun fyrir 31.des 2019 þýðir það að rétt er að hafa nokkuð hraðar hendur og stefna að því að koma þessu í framkvæmd fljótlega. Ekki er nóg að innleiða stjórnkerfið heldur þarf einnig að klára vottunina sjálfa.
Gagnlegir hlekkir
- Um easyEQUALPAY lausnina
- Senda inn fyrirspurn um EasyEQUALPAY
- Staðlaráð
- Aðgangur að ÍST 85
- Umfjöllun um Jafnlaunavottun á vef Stjórnarráðsins
- Um lögin á vef Alþingis
Endilega hafið samband við sérfræðinga okkar og við aðstoðum þig við að finna bestu leiðina að jafnlaunavottun.
Höfundur:
Gunnar Örn Haraldsson, vörustjóri - Viðskiptalausnir