Nýjasta nýtt - 17.09.2012

Microsoft verðlaunar Advania

Advania tók við verðlaunum á alþjóðaráðstefnu Microsoft sem samstarfsaðili ársins 2012 á Íslandi.

Advania tók fyrir skemmstu við verðlaunum á alþjóðaráðstefnu Microsoft sem samstarfsaðili ársins 2012 á Íslandi. Ráðstefnan er haldin undir yfirskriftinni Worldwide Partner Conference, en þar koma saman þúsundir samstarfsaðila Microsoft frá yfir 150 löndum. Verðlaunin hafa mikla þýðingu fyrir Advania og viðskiptavini fyrirtækisins. Advania er einn stærsti samstarfsaðili Microsoft í Norður-Evrópu.

Hundruðir sérfræðinga

"Microsoft og Advania hafa um langa hríð átt í nánu samstarfi. Advania hefur um 1.100 starfsmenn í fjórum löndum og þar af eru hátt í 500 Microsoft-sérfræðingar. Bara hér á Íslandi eru um 200 Microsoft-sérfræðingar og fyrirtækið eyðir tugmilljónum árlega í að viðhalda og bæta við þekkingu þeirra á Microsoft-lausnum. Verðlaunin tryggja okkur meðal annars stóraukið aðgengi að sérfræðingum og þróunarfólki Microsoft og margvíslegan ávinning fyrir viðskiptavini okkar," segir Gestur G. Gestsson, forstjóri Advania.

Verðlaun með mikla þýðingu

"Það er eitt helsta keppikefli samstarfsaðila Microsoft að hljóta þessi verðlaun fyrirtækisins á alþjóðaráðstefnunni, enda eru þau veitt fyrir framúrskarandi árangur og samkeppnin er mikil. Jákvæð áhrif innleiðingar Microsoft-lausna á starfsemi viðskiptavina vega þyngst í þessari viðurkenningu, en einnig breidd í vöruúrvali og hagkvæm nýting lausna auk hugmyndaauðgi við þróun sérlausna," segir Magnús Ingi Stefánsson hjá viðskiptalausnum Advania.

Ánægðir viðskiptavinir

"Microsoft kannar við þetta tækifæri hug viðskiptavina til samstarfsaðila sinna og leggur einnig mikið up úr jákvæðu samstarfi við svæðisskrifstofur fyrirtækisins í hverju landi. Við höfum árum saman unnið mikið og gott starf með Microsoft á Íslandi og þessi viðurkenning er afdráttarlaus vísbending um velgengni þess farsæla samstarfs. Advania nýtir í dag gjörvallt vöruúrval Microsoft til þess að hjálpa viðskiptavinum að nýta upplýsingatækni sem best og á sem ódýrastan máta," segir Jóhann Áki Björnsson hjá rekstrarlausnum Advania.

Markið sett hátt

"Við erum afskaplega ánægð með að heiðra Advania á þennan hátt. Fyrirtækið hefur sett markið hátt þegar kemur að því að innleiða hjá viðskiptavinum fjölbreyttar Microsoft-lausnir, sem mæta þörfum viðskiptavina. Metnaður Advania til þess að skara fram úr og gæta hagsmuna viðskiptavina í hvívetna við innleiðingar á Microsoft-lausnum tryggir sameiginlegan ávinning okkar allra," segir Jon Roskill, framkvæmdastjóri Microsoft Worldwide Partner Group.

Fleiri fréttir

Viltu vita meira?

Tölum saman

Viltu vita meira? Sendu okkur fyrirspurn.