Nýjasta nýtt - 05.09.2012
Risasamningur Advania í Svíþjóð
Advania hefur undirritað stóran samning við sænsku tryggingastofnunina.
Advania hefur undirritað stóran samning við sænsku tryggingastofnunina um innleiðingu á nýju upplýsingakerfi. Samningurinn er til þriggja ára og heildarverðmæti hans er áætlað um 2,3 milljarðar íslenskra króna.
HEILDARLAUSN FYRIR SAMSKIPTI
Lausnin verður innleidd af Advania í Svíþjóð og nýtt af rúmlega 1.000 starfsmönnum þjónustuvers sænsku tryggingastofnunarinnar, en um er að ræða heildarlausn fyrir öll samskipti þjónustuvers við viðskiptavini stofnunarinnar, hvort heldur gegnum síma, tölvupóst, netspjall eða samfélagsmiðla.
ADVANIA LEYSIR TELIA AF HÓLMI
Lausnin mun leysa af hólmi eldri þjónustuverslausn frá sænska fjarskiptarisanum Telia. Samningurinn vannst að undangengnu útboði þar sem Advania atti meðal annars kappi við alþjóðlegu upplýsingatæknifyrirtækin CSC og Softronic.
SÉRÞEKKING Á SÍMALAUSNUM
"Samningurinn felur í sér mikla viðurkenningu á sérþekkingu Advania á sviði stafrænna símalausna sem samþættar eru öðrum upplýsingakerfum. Okkar lausn er með IP-högun og kemur frá samstarfsaðilanum Interactive Intelligence, sem er leiðandi á heimsvísu í samþættum samskiptalausnum. Önnur nýbreytni í þessum samningi er að þjónustan verður veitt sem áskriftarþjónusta með föstum mánaðargreiðslum,“ segir Gestur G. Gestsson, forstjóri Advania.