Fréttir - 10.10.2024

Advania í hóp stærstu upplýsingafyrirtækja Bretlands

Advania hefur náð samkomulagi um kaup á 100% hlutafjár í breska félaginu CCS Media. Gert er ráð fyrir að viðskiptunum ljúki á fjórða ársfjórðungi ársins 2024, með fyrirvara um samþykki eftirlitsaðila.

CCS Media er stórt og öflugt félag í vélbúnaðarsölu og þjónustu. Með eignarhaldi á CCS Media og nýlegum kaupum á Servium í Bretlandi mun Advania stækka núverandi starfsemi sína og styrkja enn frekar tækifæri sitt til að veita viðskiptavinum um allt Bretland alhliða upplýsingatækniþjónustu.

Lykiláfangi

CCS Media var stofnað árið 1983 og er ört vaxandi fyrirtæki sem býður upp á upplýsingatæknivörur, lausnir og þjónustu til viðskiptavina um allt Bretland. Félagið  er með veltu upp á 50 milljarða íslenskra króna og eftir samrunann munu  alls um 1500 manns starfa hjá Advania í Bretlandi.

Kaupin eru lykiláfangi í stefnu Advania um að auka enn frekar hlutdeild sína á breskum markaði. Sjóður í eigu Goldman Sachs keypti meirihluta í Advania árið 2021 og fyrirtækið hefur vaxið á miklum hraða síðan.  Advania er nú eitt stærsta óskráða félagið í upplýsingatækni  í Norður-Evrópu. Eftir viðskiptin mun heildarvelta Advania verða um 250 milljarðar og verður starfsmannafjöldinn í Norður-Evrópu yfir 5.000.

„Þessi kaup eru mikilvægt skref á vegferð okkar í því að verða leiðandi félag í upplýsingatækni í Norður-Evrópu. Við erum því viss um að þessi fjárfesting muni flýta enn frekar fyrir vexti okkar og styrkja stöðu okkar á breska markaðnum. Stefna okkar og áherslur hér á landi er óbreyttar, en staða okkar gagnvart lykilbirgjum styrkist til muna við þessi kaup sem skilar sér í betri verðum og breiðara vöruframboði inn á íslenska markaðinn,“ segir Ægir Þór Másson, forstjóri Advania á Íslandi.

„Leiðtogateymi CCS Media er gríðarlega spennt yfir því að sameina krafta sína með Advania og auka þannig enn dýpri sérfræðiþekkingu og þjónustu til tryggra viðskiptavina okkar um allt Bretland. CCS Media var nú þegar á þeirri vegferð að þróa heildstæðara lausnaframboð fyrir viðskiptavini okkar og munu þessi viðskipti flýta gríðarlega fyrir þeirri þróun. Þetta mun einnig gagnast starfsfólki okkar og bjóða upp á víðtækari tækifæri til vaxtar og þróunar á spennandi tímum í greininni. Eins og hjá Advania er fólk kjarninn í viðskiptum okkar. Áþekk menning fyrirtækjanna og viðskiptavinamiðuð nálgun var lykildrifkraftur fyrir þennan samning. Enn víðtækari geta okkar eftir samrunann, þá sérstaklega vegna framúrskarandi samstarfs Advania í Bretlandi við Microsoft, mun efla okkur í að mæta fjölbreyttari þörfum viðskiptavina, allt frá tækjum og innviðum, til stefnumótunar, skýjabreytinga, gervigreindar og úthýsingar upplýsingakerfa,“ segir Terry Betts, forstjóri  CCS Media.

„Við og samfjárfestingaraðilar okkar bjóðum CCS Media velkomin í ört vaxandi Advania fjölskyldu sem mun styrkja enn frekar rekstur og framboð félaganna. Kaupin á CCS Media munu skapa aðgreinandi og mjög spennandi heildarlausnir fyrir breska markaðinn,“ segir Michael Bruun, Global Co-Head of Private Equity hjá Goldman Sachs Alternatives.

„Ég er mjög spennt yfir því að fá CCS Media til liðs við Advania. CCS hefur náð virkilega góðum árangri þegar kemur að vexti, viðskiptasamböndum og afhendingu háþróaðra upplýsingatæknilausna á breskum markaði,“ segir Hege Støre, forstjóri Advania samstæðunnar.

Fleiri fréttir

Viltu vita meira?

Tölum saman

Viltu vita meira? Sendu okkur fyrirspurn.