Ægir Már Þórisson forstjóri Advania

20.08.2024

Gervigreind, öryggismál og sjálfbærni á þrítugustu Haustráðstefnu Advania

Haustráðstefna Advania fer fram í þrítugasta skipti dagana 4.-5. september. Fjöldi sérfróðra innlendra og erlendra fyrirlesara stíga á svið í ár og verða gervigreind, öryggismál og sjálfbærni (ESG) í brennidepli.

Sylvía Rut Sigfúsdóttir
samskipta- og kynningarstjóri Advania

Líkt og á síðasta ári verður ráðstefnan tvískipt. Miðvikudaginn 4. september bjóðum við upp á vefdagskrá sem kynnt verður nánar síðar og fimmtudaginn 5. september fer fram aðaldagskráin í Silfurbergi í Hörpu.

„Það sem byrjaði sem lítil tækniráðstefna um Oracle lausnir er nú orðinn alþjóðlegur viðburður. Við erum einstaklega stolt af fjölbreyttri dagskrá þrítugustu ráðstefnunnar og þeim fyrirlesurum sem munu þar stíga á svið,“ segir Ægir Már Þórisson forstjóri Advania á Íslandi.

Aðalfyrirlesari Haustráðstefnunnar í Hörpu er Nina Schick, ein af fremstu sérfræðingum heims í málefnum gervigreindar. Nina er brautryðjandi þegar kemur að gervigreind og vakti mikla athygli með metsölubókinni Deepfakes árið 2020. Hún stofnaði Tamang Ventures og er einnig ráðgjafi fyrir Synthesia, fyrstu hreyfimyndaspunagreindina. Nina hefur síðustu ár verið ráðgjafi fyrir fjölda leiðtoga og var valin á lista LinkedIn yfir „Top Voices in AI“ á síðasta ári.

Í Hörpu koma líka fram Ægir Már Þórisson forstjóri Advania, Renen Hallak stofnandi og forstjóri Vast Data og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Olof Gränström ræðir um gervigreind, sjálfbærni og bjartari framtíð og Microsoft sérfræðingurinn Kit Ingwersen ræðir um notkun gervigreindar á vinnustöðum.

Arnar Ágústsson heldur erindi um netöryggi og Marco Eggerling mun fjalla um þróun netglæpa. Adeline Tracz segir frá spennandi og krefjandi áskorunum Landspítalans og Margrét Ormslev ræðir um áhugaverða nýtingu á sólarorku.

Í Hörpu fara líka fram tvær áhugaverðar pallborðsumræður og fjöldi hliðarviðburða. Nina Schick og Josh Klein ræða saman um gervigreind á stóra sviðinu fyrir hádegishlé. Eftir hádegi eru á dagskrá sérstakar pallborðsumræður um gervigreind og íslenska tungu. Óttar Kolbeinsson Proppé sérfræðingur í máltækni hjá menningar- og viðskiptaráðuneytinu stýrir umræðum en í pallborðinu verða þau Eydís Huld Magnúsdóttir framkvæmdastjóri og meðeigandi Tiro ehf, Vilhjálmur Þorsteinsson stofnandi og stjórnarformaður Miðeindar, Lilja Dögg Jónsdóttir nýr framkvæmdastjóri Almannaróms og Jón Gunnar Þórðarson framkvæmdastjóri Bara tala.

Aðaldagskrá Haustráðstefnunnar má finna á vef Advania. Uppselt er á viðburðinn á hverju ári en enn er hægt að nálgast miða.

Fleiri fréttir

Viltu vita meira?

Tölum saman

Viltu vita meira? Sendu okkur fyrirspurn.