Júlía Pálma Sighvats og Guðrún Þórey Sigurbjörnsdóttir eru nýir stjórnendur hjá Advania. Mynd: Jón Snær/ Advania
06.03.2023Júlía og Guðrún Þórey nýir stjórnendur hjá Advania
Tvær öflugar konur hafa tekið við stjórnunarstöðum hjá Advania. Júlía Pálmadóttir Sighvats er nýráðin til fyrirtækisins sem forstöðumaður hjá viðskiptalausnum. Guðrún Þórey Sigurbjörnsdóttir er orðin deildarstjóri eftir sex ára starf sem forritari hjá viðskiptalausnum Advania.
Júlía Pálmadóttir Sighvats mun leiða þjónustu, ráðgjöf og innleiðingar lykilviðskiptavina í fjárhagskerfunum Dynamics 365 Finance og Business Central. Hún hefur víðtæka stjórnunarreynslu úr upplýsingatæknigeiranum, meðal annars sem tæknistjóri og ráðgjafi. Hún starfaði áður sem hópstjóri hjá Sensa, meðal annars við að hagnýta Microsoft 365 lausnir, sem forstöðumaður hjá á Byko og sem stjórnandi hjá Menntasjóði námsmanna.
Júlía er með BS-gráðu í tölvunarfræði frá háskólanum í Skövde, meistaragráðu í verkefnastjórnun og diplómu í jákvæðri sálfræði frá Háskóla Íslands. Auk þess hefur hún lokið PMD-námi frá Háskólanum í Reykjavík og miniMBA náminu „leiðtoginn og stafræn umbreyting“ hjá Akademias. Júlía lauk grunnnámi í markþjálfun hjá Profectus og lýkur námi í exective coaching hjá Opna háskólanum í maí.
„Ég er þakklát fyrir þetta hlutverk hjá Advania og mér finnst ótrúlega spennandi að stíga aftur inn í heim viðskiptalausna. Ég hlakka til að takast á við áskoranir með Dynamics-teyminu sem er skipað öflugu og lausnamiðuðu fólki á öllum aldri. Það felast mikil tækifæri til þróunar, sjálfvirknivæðingar og nýtingu gagna, í viðskiptakerfum Advania,“ segir Júlía.
Guðrún Þórey Sigurbjörnsdóttir er nýr deildarstjóri Business Central SaaS og Snjallra. Hún mun leiða þjónustu og innleiðingar á Business Central skýjalausnum hjá viðskiptavinum Advania.
Guðrún Þórey hefur unnið sem forritari í viðskiptakerfum Advania undanfarin sex ár og þar á undan hjá LS Retail. Hún hefur yfirgripsmikla þekkingu og reynslu af Business Central og hefur tekið þátt í skýjavæðingu fjölmargra viðskiptavina. Guðrún Þórey hefur einnig reynslu af kennslu úr Ölduselsskóla en hún er með BS-gráðu í tölvunarfræði og B.Ed í grunnskólakennarafræðum frá Háskóla Íslands.
„Ég gríðarlega spennt fyrir nýju hlutverki og stolt að fá að leiða öflugan hóp til góðra verka. Við höfum verið í fararbroddi í skýjavæðingu viðskiptakerfa og okkar áherslur eru að halda vel utan um viðskiptavini okkar og veita framúrskarandi þjónustu,” segir Guðrún Þórey.
Framkvæmdastjóri viðskiptalausna Advania fagnar liðsaukanum; „Við erum virkilega ánægð að hafa fengið þessa öflugu stjórnendur til að leiða teymin okkar. Þær hafa báðar mikla reynslu af viðskiptakerfum, skýjavæðingu og verkefnastjórnun. Sú reynsla mun án efa skila sér í betri þjónustu við viðskiptavini okkar,” segir Sigríður Sía Þórðardóttir, framkvæmdastjóri viðskiptalausna Advania.