Helena Jónsdóttir, stofnandi og sérfræðingur hjá Mental ráðgjöf

Blogg - 25.08.2025

Nýr stjórnendataktur – þegar mannleg tenging verður að daglegum venjum

Á vinnumarkaði þar sem kröfur um sveigjanleika, mannlega leiðtoga og sálfræðilegt öryggi aukast stöðugt, skiptir ekki lengur máli bara hvernig við tengjumst starfsfólki heldur einnig hversu reglulega.

Breyttar væntingar og nýjar kynslóðir kalla á meðvitaða og mannlega forystu þar sem traust, vellíðan og raunveruleg tenging er í forgrunni. Helena Jónsdóttir hjá Mental er einn af fyrirlesurum Haustráðstefnu Advania í ár. Við ræddum við hana um hvað hefur reynst vel í góðum stjórnendatakti þar sem stjórnendur eiga reglulegt samtal við sitt starfsfólk.

Hvað er stjórnendataktur?

Við hjá Mental köllum það Stjórnendatakt þegar það eru regluleg og samræmd samskipti milli stjórnenda og starfsfólk þeirra. Í Stjórnendatakti felast bæði samtöl í hópum og við einstaklinga, allt frá árlegum starfsmannasamtölum og teymisfundum til nýliðasamtala, viðverusamtala og ekki síst reglulegra innlita.

Hvernig er stjórnendataktur gagnlegur fyrir stjórnendur í þeirra hlutverki?

Við höfum séð að stjórnendur sem tileinka sér taktinn ná betri árangri í stjórnunarhlutverkinu. Þeir vita betur hvar þeirra fólk stendur, veita markvissari stuðning og hafa sjálfir meira sjálfstraust og fókus í daglegum samskiptum. Þetta er ekki bara góð stjórnun heldur er þetta einnig skynsamleg nýting á tíma og athygli stjórnandans.

Hvað er mikilvægasti þátturinn í góðum stjórnendatakti?

Í stjórnendatakti Mental gegna innlitin lykilhlutverki. Þau eru stutt, regluleg samtöl þar sem stjórnandi fylgist með líðan, álagi og samskiptum, byggir upp traust og fær innsýn áður en áskoranir magnast. Það er ekki lengd samtalsins sem skiptir mestu, heldur einfaldleikinn og reglufestan.

Þegar stjórnendur tileinka sér regluleg innlit verður til öflugt mótvægi við kulnun, vanlíðan og samskiptaleysi. Samtalið verður að forvörn og er oftar en ekki fyrsta skrefið að lausn áður en áskorun verður að krísu. Það þarf ekki byltingu til að breyta menningu, bara takt.

Hvernig geta fyrirtæki og stofnanir tileinkað sér stjórnendatakt?

Við hjá Mental styðjum stjórnendur og vinnustaði við aðlaga ferla, móta samtalsform og þjálfa stjórnendur til að ná tökum á nýjum takti – með einfaldleika og öryggi að leiðarljósi. Þar sem stjórnendataktur hefur verið innleiddur með reglulegum innlitum og samræmdum samskiptum, höfum við hjá Mental séð mælanlegan árangur. Starfsánægja hefur aukist, traust til stjórnenda eflst og fjöldi veikindadaga minnkað – einfaldlega vegna þess að stjórnendur hafa verið sýnilegri, nær og markvissari í stuðningi sínum.

Þættir sem stjórnendur ættu að tileinka sér:

  • Hlúa að starfsfólki og tryggja starfsánægju og góðan líðan
  • Vera til staðar, hlusta og styðja
  • Veita endurgjöf og skýrleika um væntingar
  • Taka samtöl þegar ástand kallar á þátttöku

Sniðmát í Samtali

Til að styðja við stjórnendur í því að taka fyrstu skrefin þegar kemur að samtölum við starfsfólk er hægt að nýta sniðmát í mannauðslauninni Samtal. Þar eru sniðmát að reglulegu innliti og viðverusamtali sem unnin voru í samstarfi við Mental. Við vitum að form, stuðningur og einfaldleiki eru lykilatriði þegar á að breyta venjum og styðjum við stjórnendur í átt að árangursríkari samtölum.

Veffundur í haust

Helena Jónsdóttir mun mæta til okkar sem gestur á veffund í september. Þar fáum við dýpri innsýn í mikilvægi reglulegra innlita ásamt því að Helena segir okkur betur frá Stjórnendatakti Mental. Þetta er einstakt tækifæri til að læra af reynslu Helenu og ræða hvernig við getum nýtt innlitin sem verkfæri til að efla tengsl, stuðning og gagnkvæmt traust innan teymisins.

Skráning verður auglýst þegar nær dregur.

Fleiri fréttir

Viltu vita meira?

Tölum saman

Viltu vita meira? Sendu okkur fyrirspurn.