Þriggja ára prentþjónustu-samningur undirritaður við Orkuveitu Reykjavíkur
Orkuveita Reykjavíkur hefur undirritað víðtækan þjónustusamning um prentþjónustu við Advania að undangengnu útboði.
Þjónustusamningur um prentþjónustu
Orkuveita Reykjavíkur hefur undirritað víðtækan þjónustusamning um prentþjónustu við Advania að undangengnu útboði. Samningurinn er til þriggja ára og nær til fjölbreyttrar prentunar og reikningaprentunar, umslögunar, nafnspjalda, límmiða og fleiri tengdra verkefna. Samningurinn nær sömuleiðis til sambærilegra verkefna fyrir dótturfélög verkkaupa.
Hagkvæmni og hátt þjónustustig
„Orkuveita Reykjavíkur leggur mikið upp úr því að vanda til vals á samstarfsaðilum og birgjum í því skyni að tryggja hagkvæmni og hátt þjónustustig. Við gengum til samstarfs við Advania þar sem tilboð þeirra mætti þessu markmiðum okkar og náði til óvenju margra þátta. Við væntum mikils af samstarfinu og teljum okkur í öruggum höndum,“ segir Skúli Skúlason, framkvæmdastjóri þjónustusviðs Orkuveitunnar.
Umhverfisvænar prentlausnir
"Við fáum varla kröfuharðari viðskiptavin heldur en Orkuveitu Reykjavíkur þegar kemur að umhverfisvænum prentlausnum. Það er afskaplega spennandi viðfangsefni að veita þessu öfluga fyrirtæki þjónustu í þessum efnum. Advania hefur á undanförnum árum byggt upp viðamikið og gæðavottað lausnamengi á sviði prentþjónustu og þar er hagræðing fyrir viðskiptavini algjört lykilatriði," segir Snorri Páll Jónsson, viðskiptastjóri hjá Advania.