Fjársýsla ríkisins hefur notað fræðslukerfið í Orra til að halda utan um fræðslu fyrir starfsfólk ríkisstofnana. Landspítali og Mennta- og starfsþróunarsetur lögreglunnar hafa einnig notað kerfið til að halda utan um innanhússfræðslu fyrir starfsfólk hjá sér. Smíðaður var nýr framendi ofan á staðlaða lausn Oracle, út frá þörfum stofnana, þannig að verklagið inni í kerfinu er nú orðið notendavænna.
Landspítali hefur notað fræðslukerfið frá árinu 2012 með þeim hætti að fræðslan er auglýst á innri vef og starfsfólk smellir þar á til að fá nánari upplýsingar og skrá sig. Kerfið heldur síðan utan um fræðslusöguna. Ferlið er þannig að stofnanirnar setja upp kennsluáætlun og stilla fræðslunni upp í kerfinu, auglýsa innanhúss og starfsfólk fer inn í sjálfsafgreiðsluna í Orra og skráir sig á fræðsluna og getur þá valið að setja hana í dagbókina sína í Outlook í leiðinni.
Kerfið heldur utan um skráningar og fólk hefur möguleika á að afskrá sig ef það getur ekki mætt, allt er þetta sýnilegt í kerfinu. Hægt er að sækja þátttökulista, senda þátttakendum tölvupóst í gegnum kerfið o.fl. Þetta á við um fræðslu sem haldin er í sal, í gegnum Teams eða vefnámskeið. Þetta sparar fræðsluaðilum heilmikinn tíma og nauðsynlegt fyrir þá að hafa alltaf aðgang að réttum upplýsingum og geta upplýst og átt í samskiptum við þátttakendur hverju sinni. Að námskeiði loknu merkir umsjónaraðili fræðslunnar við þá sem mættu og setur stöðuna “Mætti ekki” á þá sem ekki mættu, þetta sést inni í kerfinu og einnig er hægt að taka þessar upplýsingar út í Excel. Þegar merkt er við að fólk hafi mætt, færast upplýsingar um tiltekið námskeið inn í sjálfsafgreiðslu starfsmanna og hefur starfsfólk því alltaf aðgengi að sögunni um þá fræðslu sem það hefur lokið.
Fræðsluaðilar geta séð tölfræði og tekið út upplýsingar um stöðu fræðslumála hjá sér t.d. hversu mörg námskeið hafa verið haldin, hversu margir mættu, hvaða hópar eru að mæta, skoðað eftir starfsheitum og deildum, borið saman þátttöku milli ára o.fl. Stjórnendur hafa líka aðgang að hvert af þeirra starfsfólki fer á hvaða fræðslu, bæði í gegnum sjálfsafgreiðslu og fyrir hópinn í gegnum skýrslu. Það eru mikil verðmæti fólgin í því að kerfið haldi utan um fræðslusöguna, til upplýsinga fyrir námsstjóra, stjórnendur og starfsfólkið sjálft. Mennta- og starfsþróunarsetrið hefur nefnt það, að nota kerfið einfaldi lífið fyrir námsstjóra og gerir það þægilegra fyrir starfsfólkið líka, bara “smella og gera”. Þau benda einnig á að góð þjónusta við notendur í upphafi til að koma öllum inn í notkunina sé lykilatriði. Einnig er hægt að setja leiðbeiningar inn í kerfið og vísa fólki þangað til að lesa skjöl eða spila myndbönd. Kerfið sparar því heilmikinn tíma, eykur skilvirkni og einfaldar utanumhald bæði starfsfólks og fræðsluaðila.
Spjöllum saman