Nýjasta nýtt - 3.2.2016 01:11:00

Áhersla á forritunarkennslu fyrir stelpur

Advania og SKEMA undirrita samstarfssamning til þriggja ára

Uppbygging á tækniakademíu fyrir stelpur er eitt af meginmarkmiðum samstarfssamnings milli Advania og menntunar- og tölvuþróunarfyrirtækisins SKEMA sem undirritaður var á dögunum. Tilgangur akademíunnar er að vekja áhuga stúlkna á forritun og hvetja þær til frekara náms í tölvunarfræðum.

Blandaðir vinnustaðir eru skemmtilegri og skilvirkari  

Ægir Már Þórisson, forstjóri Advania, telur mikilvægt að fjölga konum í hópi forritara. Það styrki atvinnugreinina og geri vinnustaði bæði skemmtilegri og skilvirkari. „Notendur upplýsingtæknilausna eru af öllum gerðum og því mikilvægt að fjölbreyttur hópur vinni að lausnum, viðmóti og hugbúnaði í iðnaðnum“ segir Ægir. „Ef fyrirtæki vilja ná til þessa breiða markhóps er ekki bara skynsamlegt að fjölga konum í hópi forritara, heldur er það beinlínis bráðnauðsynlegt.“

Nauðsynlegt að styðja við tölvumenntun barna

Rakel Sölvadóttir, framkvæmdastjóri og stofnandi SKEMA, segir það skipta miklu máli að vekja áhuga stúlkna á tölvum og forritun. „Hagkerfi framtíðarinnar byggir á tækni, þekkingu og tæknilæsi og það er alveg ljóst að börn nútímans munu í framtíðinni vinna störf sem eru ekki til í dag“ segir Rakel. „Það er því ekki seinna að vænna en að byrja strax að styðja við tölvumenntun barna með markvissum hætti.” 

Vekja þarf áhuga á greininni

Drengir eru í meirihluta þeirra sem sækja námskeið hjá SKEMA og endurspeglar þetta hlutfall það ójafnvægi sem ríkir í atvinnugreininni. Ein leið til að fjölga konum í hópi forritara er að vekja áhuga þeirra á unga aldri og er áframhaldandi þróun á tæknistelpuakademíunni liður í þeirri vinnu, auk þess sem SKEMA mun áfram vinna markvisst að innleiðingu forritunar í námsskrá grunnskólanna.

Mikið starfsöryggi á góðum starfsvettvangi

Hjá Advania starfar fjöldi forritara og hugbúnaðarverkfræðinga.  Konur eru 30% af þeim hópi. Ægir Már segir þetta ójafnvægi vera með öllu óþarft og að upplýsingatækni sé góður starfsvettvangur fyrir bæði kynin. Vinnuaðstaða og laun séu góð og starfsöryggi tölvunarfræðinga mikið. 

Foreldrar og börn forriti saman tölvuleiki

Samstarf Advania og SKEMA nær til fleiri þátta og er því m.a. ætlað að flýta fyrir uppbyggingu á nýju tæknisetri SKEMA við Síðumúla í Reykjavík. Advania mun veita SKEMA tæknilega aðstoð og útvega búnað til afnota í setrinu. Þá býðst starfsfólki Advania að taka þátt í sérstöku námskeiði SKEMA þar sem foreldrar og börn fá tækifæri til að læra í sameiningu að forrita, búa til sína eigin leiki og efla tæknivitund almennt. 

Báðir aðilar vænta mikils af samstarfinu, sem varir a.m.k. næstu þrjú árin.

Þeir sem hafa áhuga á að kynna sér starfsemi SKEMA nánar eru hvattir til að mæta á UT messuna sem fer fram þann 6. febrúar í Hörpu. Þar munu börn og unglingar fá tækifæri til að aðstoða við byggingu á Advania byggingunni og nágrenni í Minecraft umhverfinu auk þess fulltrúar fyrirtækisins verða á staðnum  til að kynna forritun og tækni á skapandi og skemmtilegan máta.

Fleiri fréttir

Blogg
13.11.2025
Dell hefur kynnt nýjar fartölvulínur sem eru hannaðar til að mæta ólíkum þörfum á vinnustöðum. Til að einfalda valið eru þrír meginflokkar: Dell Pro, Dell Pro Premium og Dell Pro Max. Hver lína er sérsniðin að mismunandi hlutverkum innan fyrirtækja, og hjálpar starfsfólkinu að vera Pro í sinni vinnu.
Fréttir
12.11.2025
Í kvöld var tilkynnt að Microsoft hefur valið Advania sem samstarfsaðila ársins á Íslandi árið 2025 (e. Partner of the Year). Þessi viðurkenning undirstrikar einstaka þekkingu og færni Microsoft sérfræðinga Advania.
Fréttir
01.11.2025
Það var gleðistund þegar Advania afhenti Vísindagörðum fyrstu NVIDIA DGX Spark ofurtölvuna. Mikil eftirvænting hefur ríkt hér á landi enda er um að ræða nýjustu og minnstu ofurtölvu tæknirisans NVIDIA, sannkallaða byltingu í gervigreindarvinnslu.
Viltu vita meira?

Tölum saman

Viltu vita meira? Sendu okkur fyrirspurn.