Frækinn árangur í WOW Cyclothon
Strákarnir okkar eru komnir í mark og urðu í 17. sæti í B flokki í WOW Cyclothon
Eftir skemmtilega, harða og spennandi keppni eru keppendur í WOW Cyclothon nú byrjaðir að streyma í mark. Okkar menn kláruðu dæmið rétt fyrir kl. 14 í dag og stóðu sig með mikilli prýði.
Þeir urðu í 17. sæti í B flokki eftir að hafa lagt að baki 1.358 kílómetra á 42 klukkustundum og 44 mínútum, einungis 39 sekúndum á eftir liði Landsbankans.
WOW Cyclothon er ekki bara keppni, heldur líka vettvangur til að styrkja gott málefni. Í ár hjóla keppendur til styrktar Geðsviði Landspítalans á Kleppi en safnað er fyrir uppbyggingu á batamiðstöð sem mun gera vistfólki á Kleppi kleift að stunda hreyfingu undir handleiðslu íþróttafræðings.
Þegar þetta er skrifað hafa liðsmenn Team Advania safnað alls 127 þúsund krónum í áheitum, og enn er hægt að leggja málefninu lið á áheitasíðu Team Advania.
Við erum ótrúlega stolt af köppunum okkar og óskum þeim innilega til hamingju með þetta frækilega afrek. Þeir voru þreyttir, en vitanlega gríðarlega hamingjusamir þegar í mark var komið.