Ágústa Lillý Sigurðardóttir nemi í viðskipta- og hagfræði í HR.
08.10.2024Miklir möguleikar og stærra tengslanet eftir starfsnámið
Advania tekur á hverju ári inn starfsnema á ýmis svið vinnustaðarins. Sem dæmi eru nú tveir starfsnemar á markaðssviði. Við fengum Ágústu Lillý Sigurðardóttur til þess að segja frá sinni upplifun af starfsnáminu í Advania sem hún lauk í sumar.
Af hverju sóttir þú um starfsnám hjá Advania?
Systir mín vann hjá Advania fyrir nokkrum árum og deildi hún sinni reynslu af fyrirtækinu og benti mér á að kynna mér fyrirtækið þar sem það væri bæði lifandi og fjölbreytt. Ég gerði það og leist mjög vel á og ákvað að sækja um starfsnámið mitt hjá þeim.
Hvernig var að vera í starfsnámi hjá Advania?
Ég var í starfsnámi hjá markaðsdeildinni í Advania og það var krefjandi á köflum en í senn mjög skemmtilegt. Allir á sviðinu voru virkilega hjálplegir og tilbúnir til þess að aðstoða þegar ég leitaði til þeirra.
Hvað fólst í starfinu?
Ég sá um samfélagsmiðlayfirferð á Facebook og Linkedin. Þar átti ég að fylgjast með færslum sem gengu vel og illa,og koma með mínar tillögur um hvað betur mætti fara. Ég sá einnig um yfirferð vefpósta og kom með tillögur varðandi breytingar og bætingar tengdum þeim. Ég sinnti fullt af minni verkefnum, til dæmis bjó ég til auglýsingaherferðir og atvinnuauglýsingar sem birtar voru á samfélagsmiðlum. Einnig hjálpaði ég til við að skipuleggja Framadaga og vísindaferð sem Advania hélt fyrir háskólanema.
Hvernig myndir þú lýsa vinnustaðnum?
Vinnuumhverfið er bjart og litríkt og vinnuaðstaðan til fyrirmyndar. Einnig er starfsandinn góður og allir mjög hjálplegir. Mötuneytið er frábært og býður upp á fjölbreytt úrval af hollum og góðum mat. Fyrirtækið ber þess merki að stjórnendur séu metnaðarfullir í að tryggja gott vinnuumhverfi svo starfsfólkinu líði vel í vinnunni.
Hvernig er stemningin í markaðsdeildinni?
Stemningin í markaðsdeildinni er mjög góð þar sem deildin samanstendur af metnaðarfullu og skemmtilegu fólki sem öll vinna faglega í sameiningu að því að ná góðum árangri. Teymisvinnan og andrúmsloftið er mjög gott og afslappað. Mér gekk vel að aðlagast samstarfsfélögum mínum og náði góðum tengslum við fólkið þar.
Hverjir eru kostir starfsnáms?
Starfsnám býður upp á mikla möguleika fyrir nemendur til þess að læra og kynnast vinnuumhverfi þar sem áhugasvið þeirra liggur. Þannig öðlast nemendur ákveðna reynslu sem nýtist þeim þegar þeir taka síðan fyrstu skrefin út í atvinnulífið að námi loknu. Starfsnám getur einnig leitt til aukins tengslanets í atvinnulífinu sem getur opnað fleiri möguleika fyrir framtíðarstarf. Starfsnámið gaf mér innsýn inn í fyrirtækjamenningu Advania og hvernig starfseminni þar er háttað, sem hjálpaði mér að undirbúa mig betur fyrir atvinnulífið og framtíðarstarf.