27.04.2022

Hversu græn er tölvan þín?

Það skiptir máli hvaða tölvubúnaður er valinn og því ætti val á búnaði að vera liður í sjálfbærnivegferð fyrirtækja. Hér eru nokkrar leiðir til að meta hve umhverfisvæn tölvan þín er.

Sigfús Jónasson, vörustjóri notendabúnaðar Advania, skrifar:

Aukin umræða og krafa um sjálfbærni hefur haft áhrif á tölvuframleiðendur víðsvegar um heim og hafa mörg skref verið tekin í átt að nýjum leiðum við vöruhönnun. Þar má nefna aukna áherslu á endurunnin og umhverfisvænni byggingarefni í vörum og pakkningum, orkusparnað og ýmsar aðrar lausnir eins og tækni sem dregur úr magni blágeisla í skjáum. Neytendur eiga þó erfitt með að sannreyna þau loforð sem framleiðendur setja fram um vörur, draga ályktanir um umhverfisáhrif og sjá hvernig sjálfbærni er hluti af framleiðsluferlinu. 

Á undanförnum árum hafa umhverfismerki rutt sér til rúms sem skoða vörur út frá mismunandi forsendum og gefa einkunn eða vottun um að ákveðnum skilyrðum sé mætt. Þar geta ólíkir eiginleikar verið til skoðunar þar sem sum umhverfismerki horfa afmarkað á meðan önnur horfa á fjölbreytta þætti sem snúa að samfélagi og umhverfi – eins og umhverfisleg áhrif frá framleiðslu, orkuþörf og aðbúnað starfsfólks. 

Í einhverjum tilvikum setja framleiðendur fram hvaða umhverfismerki varan ber og þá er oft auðvelt að sjá hvaða niðurstaða eða einkunn liggur til grundvallar. Gott er að hafa í huga að til eru mörg merki og getur verið munur á áreiðanleika en með því að kynna sér þessi mál geta neytendur tekið upplýstari ákvarðanir út frá betri gögnum.  

Til að nefna nokkur þekkt merki sem meta tölvubúnað út frá skilgreindum mælikvörðum má nefna Energy Star, Electronic Product Environmental Assessment Tool (EPEAT) og TCO Certified. Allir þessir aðilar bjóða upp á gagnabanka á sínum heimasíðum þar sem hægt er að skoða niðurstöður og á hverju viðkomandi mæling byggir.

Energy Star mælir orkunotkun og upplýsir til um orkusparnað. Til að öðlast merkið þarf vara að uppfylla kröfur sem snúa að sparneytni á rafmagn. 

EPEAT er alþjóðlegt einkunnakerfi fyrir raftæki þar sem vörur geta hlotið eftirfarandi einkunnir: Gull, silfur eða brons. Ef Dell Latitude fartölva er skoðuð má sjá að hún er meðal annars mæld út frá notkun á efnum eins og bróm og klór, þjónustustuðningi, efnisvali á umbúðum, uppfærslumöguleikum og kolefnisfótspori. 

TCO Certified er sjálfbærnivottun sem horfir á samfélagslega og umhverfislega ábyrgð í gegnum líftíma vara. Hugað er meðal annars að ábyrgð í framleiðsluferlinu, notendaöryggi og vinnuvistfræði. Á meðal þátta sem eru mældir má nefna samfélagslega ábyrga framleiðslu, heilsu og öryggi notenda, fækkun hættulegra efna og líftímalengingu vara.  

Umhverfismerki spila hlutverk í að auka gagnsæi, ýta undir upplýsta afstöðu í vörukaupum og gera ferlið í kringum tölvubúnað ábyrgara. Um þetta fjallar hugtakið Green computing; að framleiðendur hanni vörur með umhverfið í huga, neytendur taki upplýsta ákvörðun og að vörur séu endurunnar á ábyrgan hátt, þar sem dregið er úr sóun. Það skiptir máli hvaða búnaður er valinn og því ætti val á tölvubúnaði að vera liður í sjálfbærnivegferð fyrirtækja.

Í vefverslun okkar má sjá hvaða umhverfismerki tölvur og skjáir bera sem eru í sölu hjá Advania, þær upplýsingar eru að finna undir hverri vöru fyrir sig og ef spurningar vakna um þessi mál er um að gera að senda okkur skilaboð á sala@advania.is.

Sigfús Jónsson
vörustjóri notendabúnaðar Advania

Efnisveita

Advania hefur undirritað viljayfirlýsingu Microsoft um að styðja við sjálfbæra þróun í tækni.
Um tuttugu fyrirtæki í upplýsingatækni hyggjast ráðast í átak til að auka þátttöku kvenna í geiranum.
Truflanir sem urðu á neti hjá hluta viðskiptavina Advania, föstudaginn 24.júní, stöfuðu af hugbúnaðarvillu sem hafði veruleg áhrif á stýringu umhverfisins.
Að þjálfa starfsfólk í heilbrigðu viðskiptasiðferði og koma notuðum tölvubúnaði viðskiptavina í endurnýtingu, voru meðal áhersluatriða Advania á Íslandi í sjálfbærni árið 2021, eins og fram kemur í nýútkominni sjálfbærniskýrslu félagsins.
Advania hlaut viðurkenningu sem LS Retail Platínum partner 2022 fyrir framúrskarandi árangur sem samstarfsaðili LS Retail nú á dögunum. Verðlaunin voru afhent á árlegri ráðstefnu LS Retail, sem að þessu sinni var haldin hér heima í Hörpu.
Advania hlýtur tilnefningu til Oracle Change Agent verðlaunanna. Þau eru veitt fyrirtækjum sem náð hafa framúrskarandi árangri við að stuðla að nýsköpun, sjálfbærni og stafrænni umbreytingu hjá viðskiptavinum sínum.