Helga Björk Árnadóttir, deildarstjóri kerfisþjónustu og þróunar
01.08.2024Kynnumst kerfisstjórum: Helga Björk Árnadóttir
Mikil eftirspurn er eftir menntuðum kerfisstjórum í atvinnulífinu, en hingað til hefur vantað upp á að fleiri konur sæki sér þá menntun sem þarf til að sinna starfinu.
Advania hefur nú farið aftur af stað með átak í samstarfi við NTV og Promennt til að auka áhuga kvenna á kerfisstjórnun, kynna fagið og tryggja að fjölbreyttur hópur sæki sér menntun til að gegna þessu mikilvæga starfi. Tvær konur munu hljóta styrk sem nemur helmingi skólagjalda skólanna fyrir námið. Að þessu tilefni ætlum við að kynna betur nokkra kerfisstjóra hjá Advania.
Hver er bakgrunnur þinn og af hverju fórst þú í kerfisstjórnunarnám?
Áhugi minn á tölvum vaknaði mjög snemma. Fyrsta minningin mín tengd þeim var þegar pabbi minn keypti tölvu á heimilið þegar ég var fjögurra ára og leyfði mér að spila tölvuleiki á henni. Ég sýndi tölvum alltaf mikinn áhuga og var send á mitt fyrsta tölvunámskeið þegar ég var 12 ára.
Ég byrjaði að vinna við tækni og tölvur í tæknilegri aðstoð Símans þegar ég var 19 ára gömul og vann þar samhliða skóla í fjögur ár. Eftir það fluttist ég yfir í fyrirtækjaþjónustu Símans og byrjaði að kynnast kerfisstjórnun. Mér fannst þetta rosalega skemmtilegt viðfangsefni og fékk styrk frá vinnuveitanda til að sækja kerfisstjórnunarnám í Promennt stuttu seinna.
Hvernig er að starfa sem kerfisstjóri?
Kerfisstjórnun er mjög víðfeðmt fag og endalaust af mismunandi verkefnum í boði. Í grunninn snýst vinnan um að sinna tölvukerfum þannig að umhverfi haldist starfhæf og í lagi, sjá um að uppfæra og betrumbæta kerfin og að lagfæra þau vandamál sem koma upp. Starfið felur í sér samskipti við fólk og mikinn lærdóm, enda er tæknin sífellt að þróast. Engir tveir dagar eru eins og maður lærir eitthvað nýtt á hverjum einasta degi.
Hvaða vandamál eru þið að leysa fyrir viðskiptavini?
Vandamálin eru margþætt og misflókin. Rekstur netþjóna og tölvukerfa felur í sér mörg mismunandi umhverfi og forrit og getur samspilið þeirra á milli því stundum valdið vandræðum.
Vinnan snýst þó auðvitað ekki eingöngu um að leysa vandamál, heldur líka að aðstoða viðskiptavini með þjónustubeiðnir og að leysa ýmis verkefni, bæði stór og smá.
Hverjir eru kostirnir við þetta starf?
Fyrir þau sem elska fjölbreytileika í starfi og vilja læra eitthvað nýtt er þetta frábært starf. Það eru margar mismunandi brautir í boði í kerfisstjórastarfinu og mörg tækifæri til að læra það sem mestur áhugi er fyrir. Starfsþróunarmöguleikar eru margir og tæknin tekur sífelldum breytingum, sem gerir starfið spennandi og krefjandi.
Hvað leiddi þig til Advania?
Ég tók mér frí frá vinnunni haustið 2016 til að fara í bakpokaferðalag í Mið- og Suður-Ameríku. Eftir níu mánaða ferðalag fannst mér kominn tími til að breyta til. Ég hitti nokkra starfsmenn Advania eftir að ég kom heim og fann strax að vinnustaðurinn myndi höfða til mín. Ég sótti um og byrjaði svo hjá Advania í desember 2017.
Hvernig er stemningin í deildinni?
Við leggjum mikið upp úr því að hafa gaman í vinnunni og hópurinn okkar er mjög þéttur. Það skiptir miklu máli að geta slegið á létta strengi á milli þess sem við leysum flóknari vandamál og verkefni með viðskiptavinum okkar. Advania er góður vinnustaður með fjölbreytta aðstöðu, gott mötuneyti og virkt félagsstarf, þar sem allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi.