23.04.2025

Sveigjanleikinn hefur kosti og ókosti 

Sveigjanleiki gerir okkur ekki aðeins kleift að styðja starfsfólk okkar heldur skilar sér í aukinni framleiðni, lægri starfsmannaveltu og sterkari tengslum á vinnustaðnum. Þetta er stefna sem sýnir að við leggjum áherslu á fólk, en um leið er hún mikilvæg fjárfesting í framtíð fyrirtækisins. Þegar starfsfólk upplifir raunverulegan stuðning og skilning, verður það ekki aðeins ánægðara heldur leggur sitt af mörkum með meiri ástríðu og skuldbindingu.

Ingunn Guðmundsdóttir
mannauðssérfræðingur hjá Advania

Sveigjanleiki á vinnustað vísar til stefnu og starfshátta sem veita starfsfólki meira frelsi til að ákveða hvenær, hvar og hvernig þau vinna. Þetta snýst ekki eingöngu um fjarvinnu — heldur felur það líka í sér sveigjanlegan vinnutíma og sjálfræði til að nálgast verkefnin á ólíkan máta.

Aukin framleiðni með sveigjanleika

Margir sem eru gagnrýnir á sveigjanleika halda því fram að hann dragi úr framleiðni, en rannsóknir sýna ítrekað hið gagnstæða. Sveigjanlegt vinnufyrirkomulag geta aukið bæði afköst starfsfólks og árangur fyrirtækja.

Til dæmis sýndi tveggja ára rannsókn Stanford-háskóla með 16.000 starfsmönnum að fjarvinna jók framleiðni um 13% miðað við vinnu á skrifstofu. Þessi aukning stafaði af færri truflunum, minni tíma sem fór í að ferðast á milli vinnu og heimilis og möguleikanum á að vinna á þeim tímum dags sem starfsmaðurinn var í sem bestu vinnuformi. Að auki greindu starfsmenn frá meiri starfsánægju, sem dró einnig úr starfsmannaveltu.

Sveigjanleiki gerir starfsfólki kleift að vinna á sínum bestu tímum í stað þess að fylgja staðlaðri dagskrá. Þetta einstaklingsmiðaða viðhorf gagnast bæði starfsfólki og vinnustaðnum: starfsfólk fær meira frelsi til að skipuleggja sig, og árangur fyrirtækisins verður meiri.

Ekki án vankanta

Sveigjanleikinn er ekki án sinna vankanta. Þegar starfsfólk getur stýrt tíma og staðsetningu vinnu sinnar þá minnka oft samskipti þeirra við annað samstarfsfólk. Starfsfólk vinnur á mismunandi tímum og ólíkri staðsetningu sem leiðir til minni samskipta og samheldni í teymum. Þetta getur haft neikvæð áhrif á félagslega tengingu, samvinnu og afköst en allt eru það atriði sem hafa áhrif á líðan fólks.

Þó sveigjanleikinn geti aukið starfsánægju fyrir sumt fólk þá getur hann haft neikvæð áhrif á aðra. Fólki finnst mis auðvelt að vinna við mikinn sveigjanleika og eiga jafnvel erfiðara með að stjórna tíma sínum sjálft eða leysa verkefni án skýrra leiðbeininga og eftirlits. Jafnvel getur reynst sumum erfitt að taka sér hvíld eða draga skýr mörk milli vinnu og einkalífs. Það er því afar mikilvægt að fólk geti átt opið samtal um sveigjanleikann, áhrif hans á ekki bara afköst heldur einnig á líðan viðkomandi.

Áskorun fyrir stjórnendur

Það getur verið áskorun fyrir stjórnendur að stýra teymum með ríkan sveigjanleika. Stjórnandi sem stýrir hópi fólks sem vinnur á ólíkum tímum, mismunandi staðsetningu og nálgast verkefnin á ólíkan máta þarf að hafa mikla aðlögunarfærni. Það getur reynst áskorun að bóka teymisfundi, samræma verklag eða einfaldlega að byggja upp stemmingu.

Til að hámarka ávinning sveigjanleika á vinnustað þá þarf að vera til staðar traust milli starfsfólks og stjórnenda til að tryggja að verkefnin séu leyst á skilvirkan máta. Með réttri útfærslu og jafnvægi þá getur sveigjanleikinn orðið mikilvægur þáttur í að stuðla að árangri í nútíma vinnuumhverfi.

Með því að innleiða sveigjanleika, hvort sem það er með fjarvinnu, sveigjanlegum vinnutíma eða öðrum úrræðum, sendum við skýr skilaboð: Við mætum starfsfólki þar sem það er statt í lífinu og veitum því svigrúm til að ná jafnvægi. Þetta er stefna sem við trúum á—og við höldum áfram að þróa hana til að mæta þörfum okkar starfsfólks. Því við erum Advania: Tæknifyrirtækið sem setur fólk í fyrsta sæti.

Fleiri fréttir

Viltu vita meira?

Tölum saman

Viltu vita meira? Sendu okkur fyrirspurn.