Nýjasta nýtt - 30.04.2013
Afkoma Advania 2012
Rekstrarhagnaður Advania samstæðunnar árið 2012 fyrir vexti, skatta og afskriftir (EBITDA) nam 341 milljón íslenskra króna borið saman við 1.068 milljónir árið áður.
Góður vöxtur á Íslandi og í Svíþjóð, afleit afkoma í Noregi
Rekstrarhagnaður Advania samstæðunnar árið 2012 fyrir vexti, skatta og afskriftir (EBITDA) nam 341 milljón íslenskra króna borið saman við 1.068 milljónir árið áður. Reksturinn gekk vel á Íslandi og í Svíþjóð en afkoman í Noregi var mjög slæm og skýrir það að stærstum hluta lækkun á EBITDA samstæðunnar á milli ára. Samanlögð EBITDA fyrir Svíþjóð og Ísland nam 1.057 milljónum króna en EBITDA í Noregi var neikvæð um 718 milljónir króna. Velta samstæðunnar jókst um 5,2% á milli ára og nam 25,8 milljörðum króna á árinu 2012 borið saman við 24,5 milljarða árið áður.Heildartap samstæðunnar eftir skatta nemur 1.692 milljónum króna og skýrist af tveimur meginástæðum. Í fyrsta lagi vegna 858 milljóna króna rekstrartaps í Noregi og í öðru lagi 696 milljóna króna afskriftar á viðskiptavild móðurfélagsins vegna dótturfélagsins í Noregi. Auk þess er skuldbinding vegna ónotaðs húsnæðis samstæðunnar endurmetin og gerð varúðarfærsla vegna eldri skattaskuldbindingar vegna óvissu í kjölfar s.k. „Toyotadóms“ Hæstaréttar, sem úrskurðaði að vaxtagjöld sem falla til vegna sameiningar fyrirtækja séu ekki frádráttarbær frá skattskyldum tekjum. Samtals nema tveir síðastnefndu liðirnir 572 milljónum króna. Eigið fé samstæðunnar nam 1.819 milljónum króna í árslok 2012.
Góður rekstrarárangur í Svíþjóð og á Íslandi
Velta Advania í Svíþjóð nam 11,4 milljörðum króna í fyrra sem er ríflega 11% vöxtur frá fyrra ári. Rekstrarhagnaður Advania í Svíþjóð fyrir vexti, skatta og afskriftir (EBITDA) nam 418 milljónum króna.Velta Advania á Íslandi jókst um 5,4% frá árinu áður, nam í fyrra 10,4 milljörðum króna borið saman við 9,9 milljarða árið áður. Rekstrarhagnaður Advania á Íslandi fyrir vexti, skatta og afskriftir (EBITDA) nam 639 milljónum króna.
Slæmt rekstrarár í Noregi
Afkoma Advania í Noregi var afleit árið 2012. Velta félagsins dróst saman um 9,6% á milli ára, var 3,9 milljarðar króna árið 2012 miðað við 4,4 milljarða árið áður. Rekstrartap í Noregi eftir skatta nam samtals 858 m.kr og eru þrjár meginskýringar á tapinu; mikið tap á einu stóru verkefni sem samið var um 2009 er fór í rekstur 2012 og mun ljúka að fullu á þessu ári, breytingar á lífeyrisskuldbindingu starfsmanna og í þriðja lagi kostnaðarsöm endurskipulagning sem ráðist var í til að mæta erfiðum rekstri.„Afkoma Advania í Noregi var afleit í fyrra og þrátt fyrir að gripið hafi verið til róttækra aðgerða er ljóst að óvissa er um stöðu og horfur á yfirstandandi ári. Í því ljósi hefur nær öll viðskiptavild vegna Noregs verið afskrifuð í bókum félagins sem hefur mikil áhrif á heildarniðurstöðu samstæðunnar árið 2012. Veltan í Noregi er aðeins um 15% af heildarveltu samstæðunnar og því eru þau miklu áhrif sem þessi hluti starfseminnar hefur á heildarrekstrarniðurstöðu samstæðunnar algerlega óásættanleg ,“ segir Gestur G. Gestsson, forstjóri.
Sameining skilar árangri
Gestur segir uppgjör ársins 2012 marka ákveðinn endapunkt í flókinni fjárhags- og stjórnunarlegri endurskipulagningu félagsins. Advania hf. varð til árið 2012 í kjölfar sameiningarferlis sem hófst árið 2009 og fól í sér sameiningu átta fyrirtækja í þremur löndum. Stefna félagsins hefur verið endurskilgreind og markvisst unnið að sókn á erlenda markaði undir nýju vörumerki.„Markmið Advania er að auka veltu og framlegð, m.a. með meiri erlendum umsvifum. Stór alþjóðleg verkefni sem fyrirtækið hefur tekist á við sýna glöggt að sameiningin skilar árangri. Þar má nefna innleiðingu á lausnum fyrir sænsku tryggingastofnunina og breska herinn, ásamt rekstrar- og hýsingarsamningum við alþjóðleg vörumerki á borð við norræna Svaninn og hugbúnaðarfyrirtækið Opera. Þessir stóru samningar hefðu ekki náðst nema vegna faglegs styrks sem hið sameinaða fyrirtæki býr yfir í dag. Stórum verkefnum fyrir erlenda aðila fjölgar stöðugt. Árið 2013 fer því vel af stað“ segir Gestur.
Um Advania
Advania er upplýsingatæknifyrirtæki sem býður samþættar heildarlausnir fyrir atvinnulífið og neytendur bæði hvað varðar hugbúnað og vélbúnað auk þess að bjóða fjölbreytta hýsingu, starfrækslu gagnavers og víðtæka rekstrarþjónustu. Starfsfólk Advania er um 1.100 talsins í 17 starfsstöðvum í þremur löndum. Advania er samstarfsaðili fjölmargra alþjóðlegra fyrirtækja í upplýsingatækni. Þar má nefna Dell, Cisco, EMC, IBM, Microsoft, NCR, Oracle, SAP, Symantec, HP og Xerox.