Afkoma Advania 2013
Jákvæð þróun í rekstri Advania
Afkoma Advania 2013: Jákvæð þróun í rekstri
Helstu atriði:
- Afkoma Advania samstæðunnar batnaði árið 2013.
- Rekstarhagnaður fyrir afskriftir jókst á milli ára.
- Aukin velta á Íslandi og áfram unnið að endurskiplagningu í Noregi.
- Hlutfall erlendra tekna á Íslandi hækkar talsvert á milli ára.
Rekstrarhagnaður Advania samstæðunnar fyrir afskriftir (EBITDA) árið 2013 nam 1.315 m.kr. samanborið við 341 m.kr. á árinu áður. Heildartekjur jukust um 2,5% á milli ára, voru 26.478 m.kr. samanborið við 25.829 m.kr. árið á undan. Heildarafkoma samstæðunnar var neikvæð um 360 m.kr. samanborið við 1.692 m.kr. árið 2012.
Jafnvægi í rekstri
Hjá Advania starfa samtals um 1.000 starfsmenn á 20 starfsstöðvum á Íslandi, í Svíþjóð og í Noregi. Um 46% af veltu samstæðunnar árið 2013 var á Íslandi, 42% í Svíþjóð og 12% í Noregi.Reksturinn á Íslandi og í Svíþjóð er í góðu jafnvægi. Veltan á Íslandi jókst um 11,9% á milli ára en rekstrarhagnaður fyrir afskriftir jókst um 2,7% á milli ára og varð 656 m.kr. Í Svíþjóð dróst veltan saman um 2,8% en rekstrarhagnaður fyrir afskriftir jókst um 3,8% milli ára og varð 434 m.kr.
Eftir afleita afkomu Advania í Noregi á árinu 2012 tókst að skila hagnaði á árinu 2013. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir nam 398 m.kr. á árinu samanborið við 718 m.kr. tap árið áður. Árangurinn má meðal annars rekja til sölu á hugbúnaðarréttindum fyrir 506 m.kr. auk skipulagsbreytinga og hagræðingar.Fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum
Advania hlaut á dögunum viðurkenningu fyrir að vera fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum. Viðskiptaráð Íslands, Samtök atvinnulífsins, Nasdaq OMX Iceland og Rannsóknarmiðstöð um stjórnarhætti við Háskóla Íslands standa að viðurkenningunni í þeim tilgangi að stuðla að umræðum og aðgerðum sem efla góða stjórnarhætti. Viðurkenningin er veitt að undangengnu formlegu mati Rannsóknarmiðstöðvarinnar á starfsháttum stjórnar og stjórnenda er markmið matsferlisins að auka trúverðugleika og gagnsæi stjórnarhátta fyrirtækja gagnvart hluthöfum og öðrum hagsmunaaðilum.Batnandi afkoma
Gestur G. Gestsson, forstjóri Advania, segist vera sáttur við afkomu Advania samstæðunnar árið 2013, hún sýni jákvæða þróun, en að starfsemin í Noregi hafi áfram meiri áhrif á niðurstöður samstæðunnar en umfang hennar gefur tilefni til.„Ársreikningurinn 2013 staðfestir jákvæða þróun í rekstri samstæðunnar. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir jókst umtalsvert á milli ára og heildarafkoman batnaði verulega þó að hún hafi áfram verið neikvæð. Með markvissum aðgerðum hefur rekstri í Noregi verið snúið til betri vegar og sú þróun mun halda áfram. Þá hefur hlutfall erlendra tekna af veltu á Íslandi aukist talsvert á milli ára sem eykur breidd í tekjumyndun Advania á Íslandi. Í því felast tækifæri til vaxtar á þröngum heimamarkaði en rekstrarumhverfi í greininni hefur af ýmsum ástæðum verið erfitt á síðustu árum.“
Aðalfundur Advania
Aðalfundur Advania verður haldinn fimmtudaginn 27. mars kl. 09:00 í fundarsal Advania að Suðurlandsbraut 18, Reykjavík.