Nýjasta nýtt - 28.06.2011

Arion banki innleiðir nýtt skjalakerfi frá Skýrr

Arion banki innleiðir EMC Documentum-skjalakerfi og gagnageymslu frá EMC

Arion banki hefur undirritað samstarfssamning við Skýrr um umfangsmikla innleiðingu á EMC Documentum-skjalakerfi og gagnageymslu frá alþjóðlega upplýsingatæknifyrirtækinu EMC. Samningurinn felur í sér viðamiklar breytingar og framþróun á skjalavistun og gagnameðhöndlun Arion banka.

EMC Documentum gerir til dæmis kleift að auka sjálfvirkni í ferlum og auka hraða og nákvæmni við flokkun þeirra, hýsingu og umsýslu. Í samningnum er meðal annars kveðið á um nýjar kerfiseiningar fyrir skjöl, ferla, sniðmát, trúnaðargögn og tengdar öryggislausnir, ásamt skönnunarkerfi. Skýrr er sölu- og þjónustuaðili EMC á Íslandi.

Kröfuharður viðskiptavinur

"Skýrr hefur undanfarin misseri unnið markvisst að því að efla teymi fyrirtækisins á sviði upplýsingatækni fyrir banka og fjármálastofnanir. Við höfum lengi verið í fremstu röð hér á landi á þessu sviði og ætlum að byggja ofan á það forskot. Höfum í því skyni bæði eflt hópinn og stækkað, ásamt því sem við höfum bætt við okkur hugbúnaðarlausnum og þjónustuþáttum. Við teljum að þessi mikilvægi samningur við Arion banka sé ávöxtur þeirrar viðleitni okkar," segir Gestur G. Gestsson, forstjóri Skýrr.

„Arion banki er metnaðarfullur og kröfuharður viðskiptavinur, sem hefur ávallt verið í fremstu röð hér á landi í nýtingu upplýsingatækni. Bankinn leggur mikið upp úr gæðum og hagkvæmni í rekstri og ætlast til fyrsta flokks þjónustu af sínum birgjum. Fjármálastofnun af þessari stærðargráðu innleiðir ekki nýtt skjalakerfi nema að mjög vel athuguðu máli. Við erum því vitaskuld afskaplega stolt af þessum samningi og hlökkum mikið til samstarfsins við Arion banka,“ bætir Gestur við.

Documentum á EMC-gagnastæðu

EMC Documentum-skjalakerfið verður hýst á öflugri EMC-gagnastæðu, sem þýðir hnökralausa samþættingu Documentum-skjalakerfisins við hýsingarumhverfið, enda framleidd af sama fyrirtæki.

EMC Documentum er heildarlausn á sviði skjalavistunar og nær yfir allar tegundir gagna og ferla; hvers konar viðskiptaskjöl, myndir, vídeó, tölvupóst, vefsíður og hugbúnaðarkóða. Kjarni kerfisins er skjalageymsla þar sem gögn eru hýst á öruggan hátt eftir sérstökum ferlum og reglum, sem tryggja réttleika gagna.

Helstu notendur EMC-lausna hér á landi eru Alþingi, Eimskip, Háskólinn í Reykjavík, Hjartavernd, Lífeyrissjóður verslunarmanna , Mannvit, Mjólkursamsalan, Reykjavíkurborg og Vífilfell.

Fyrirtækin í hnotskurn

Arion banki er alhliða banki sem veitir viðskiptavinum þjónustu á sviði sparnaðar, lánveitinga, eignastýringar, fyrirtækjaráðgjafar og markaðsviðskipta. Starfsfólk Arion banka og dótturfélaga er um 1.300 talsins. Skýrr er stærsta upplýsingatæknifyrirtæki landsins með tæplega 1.100 starfsmenn í fjórum löndum. Skýrr veitir atvinnulífinu alhliða heildarlausnir í hugbúnaði, vélbúnaði og rekstrarþjónustu.


  

Fleiri fréttir

Blogg
17.11.2025
Í gegnum árin hefur samstarf Advania og Yealink byggst á trausti, nýsköpun og sameiginlegri sýn um að veita viðskiptavinum bestu mögulegu lausnir í fundar- og samskiptatækni. Langur listi ánægðra viðskiptavina er vitnisburður um gæði lausnanna og þjónustunnar sem fylgir.
Blogg
13.11.2025
Dell hefur kynnt nýjar fartölvulínur sem eru hannaðar til að mæta ólíkum þörfum á vinnustöðum. Til að einfalda valið eru þrír meginflokkar: Dell Pro, Dell Pro Premium og Dell Pro Max. Hver lína er sérsniðin að mismunandi hlutverkum innan fyrirtækja, og hjálpar starfsfólkinu að vera Pro í sinni vinnu.
Fréttir
12.11.2025
Í kvöld var tilkynnt að Microsoft hefur valið Advania sem samstarfsaðila ársins á Íslandi árið 2025 (e. Partner of the Year). Þessi viðurkenning undirstrikar einstaka þekkingu og færni Microsoft sérfræðinga Advania.
Viltu vita meira?

Tölum saman

Viltu vita meira? Sendu okkur fyrirspurn.