Nýjasta nýtt - 17.04.2012

Norræn ofurtölva hjá Advania Thor Data Center

Advania Thor Data Center er gagnaver í Hafnarfirði með framsækinni Tier3-högun.

Stofnanir sem hafa yfirumsjón með háhraðatölvum til vísindarannsókna í Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Íslandi hafa í sameiningu fjárfest og gangsett nýstárlega háhraðatölvu á Íslandi, sem hýst er í gagnaverinu Advania Thor Data Center í Hafnarfirði. Nýnæmið við þessa ofurtölvu felst í hugmyndinni, staðsetningunni og rekstri tölvunnar, frekar en í tækninni. Umræddur tölvubúnaður er frá HP og Opnum kerfum.

Það var Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, sem vígði ofurtölvuna með formlegum hætti við athöfn í Advania Thor Data Center mánudaginn 16. apríl.


FORSENDUR RANNSÓKNA OG NÝSKÖPUNAR

Háhraðatölvur gera vísindamönnum kleift að framkvæma öflugar hermanir og smíða líkön, sem eru í auknum mæli forsendur rannsókna og nýsköpunar, sem er undirstaða þekkingardrifins hagkerfis. Háhraðatölvan í Advania Thor Data Center er hluti af tilraunaverkefninu NHPC sem hefur það að markmiði að prófa hýsingu, þannig að tölvan sé nálægt orkulindunum en ekki öfugt, eins og venjan er, og ná þannig fram umtalsverðum sparnaði. Önnur markmið verkefnisins eru að kanna pólitískar, skipulagslegar og tæknilegar hliðar á sameiginlegu eignarhaldi, umsjón og rekstri svo dýrs og mikilvægs rannsóknainnviðar. 

KJÖRIN STAÐSETNING FYRIR OFURTÖLVUR

Rekstrarkostnaður ofurtölva er í vaxandi mæli aukin byrði fyrir vísindamenn og háskóla vegna þess hversu orkufrekar þær eru. Ísland er kjörin staðsetning fyrir slíkar tölvur vegna náttúrulegra orkulinda sem geta veitt aðgang að umhverfisvænni orku á lágu verði og hagkvæmri kælingu. Norðurlöndin eyða milljónum evra hvert ár í ofurtölvur og orkunotkun þeirra og því var talið nauðsynlegt að skoða hagkvæmar lausnir hvað snertir hýsingu og rekstur.

VIÐAMIKIÐ SAMSTARFSVERKEFNI

Verkefnið er afrakstur samvinnu Danish Center for Scientific Computing (DCSC), Swedish National Infrastructure for Computing (SNIC), UNINETT Sigma og Háskóla Íslands. Ef tilraunaverkefnið verður árangursríkt er talið líklegt að framhaldsverkefni verð skilgreind á komandi árum, til dæmis fyrir sameiginleg innkaup stærri ofurtölva eða sérhæfð kerfi, sem eitt land hefur ekki eitt efni á. Norrænn innviður getur einnig orðið sameiginlegt framlag til evrópsks innviðar, eins og Partnership for Advanced Computing in Europe, PRACE.

Advania Thor Data Center
Advania Thor Data Center er gagnaver í Hafnarfirði með framsækinni Tier3-högun. Gagnaverið er í eigu Advania, sem er 1.100 manna upplýsingatæknifyrirtæki með 20 skrifstofur í 4 löndum: Íslandi, Lettlandi, Noregi og Svíþjóð. Með því að nýta hið einstaka loftslag og náttúrulegu auðlindir hér á landi, er hið 2.600 m2 gagnaver Advania álitlegur kostur fyrir alþjóðleg fyrirtæki, sem eru að leita að „grænu gagnaveri“ með hagkvæma og áreiðanlega þjónustu.

Opin kerfi
Það eru Opin kerfi sem selja búnaðinn, sem er klasi af 288 HP ProLiant BL280c G6 þjónum með 3456 kjörnum. Við mestu afköst nær hann 35 TeraFLOPS. Tölvan hefur 72 terabæta HP IBRIX X9320 Storage gagnageymslu. Verkefnisstjórnun, uppsetning og prófanir búnaðarins voru á ábyrgð sérfræðinga frá Opnum kerfum. Lausnin uppfyllti allar kröfur sem voru gerðar innan ramma verkefnisins.

Danish Center for Scientific Computing
Danish Center for Scientific Computing (DCSC) heyrir undir ráðuneyti vísinda, nýsköpunar og háskóla. Hann veitir dönskum vísindamönnum sem  vinna að hermunum og við gerð líkana, aðgang að háhraðatölvum og dreifðum tölvum.

Swedish National Infrastructure for Computing
The Swedish National Infrastructure for Computing (SNIC) er miðstöð tölvumiðstöðva fyrir háhraðatölvur og heyrir undir sænska rannsóknaráðið. SNIC er ábyrgt fyrir hagkvæmu kerfi stærri tölvumiðstöðva og gagnageymslna fyrir sænskar rannsóknir. SNIC tekur einnig þátt í alþjóðlegum verkefnum um ýmis málefni tölva og gagnageymslu.

UNINETT Sigma
UNINETT Sigma samhæfir innkaup og rekstur vélbúnaðar fyrir reiknifræði fyrir norska rannsóknaráðið, í samstarfi við fjóra háskóla í Osló, Bergen, Tromsö og Þrándheimi. UNINETT Sigma ber ábyrgð á að tryggja langtíma þróun innviðanna, meðal annars geymslu rannsóknagagna. Til viðbótar samhæfir félagið norska samvinnu í grid innviðum og er fulltrúi Noregs í alþjóðlegum innviðum og markáætlunum.

Háskóli Íslands
Háskóli Íslands er fulltrúi Íslands í NHPC verkefninu varðandi tengsl við íslensk stjórnvöld og hýsingaraðilann á Íslandi. Þetta er gert í náinni samvinnu við DCSC, SNIC og UNINETT Sigma. Reiknistofnun Háskóla Íslands ber ábyrgð á kerfisstjórn fyrir Íslands hönd.

Mennta- og menningamálaráðuneytið
Mennta- og menningamálaráðuneytið hefur áhuga á verkefninu vegna stefnu þess en það hefur stutt verkefnið með samhæfingu og fjármagni.

 

Fleiri fréttir

Blogg
17.11.2025
Í gegnum árin hefur samstarf Advania og Yealink byggst á trausti, nýsköpun og sameiginlegri sýn um að veita viðskiptavinum bestu mögulegu lausnir í fundar- og samskiptatækni. Langur listi ánægðra viðskiptavina er vitnisburður um gæði lausnanna og þjónustunnar sem fylgir.
Blogg
13.11.2025
Dell hefur kynnt nýjar fartölvulínur sem eru hannaðar til að mæta ólíkum þörfum á vinnustöðum. Til að einfalda valið eru þrír meginflokkar: Dell Pro, Dell Pro Premium og Dell Pro Max. Hver lína er sérsniðin að mismunandi hlutverkum innan fyrirtækja, og hjálpar starfsfólkinu að vera Pro í sinni vinnu.
Fréttir
12.11.2025
Í kvöld var tilkynnt að Microsoft hefur valið Advania sem samstarfsaðila ársins á Íslandi árið 2025 (e. Partner of the Year). Þessi viðurkenning undirstrikar einstaka þekkingu og færni Microsoft sérfræðinga Advania.
Viltu vita meira?

Tölum saman

Viltu vita meira? Sendu okkur fyrirspurn.