Ný stjórn Advania hf.
Finnbogi Jónsson stjórnarformaður og Katarina Burton ný í stjórn
Ný stjórn Advania hf. var kjörin á aðalfundi félagsins hinn 23. maí 2013. Aðalmenn eru Anna Rún Ingvarsdóttir, Finnbogi Jónsson, Katarina Burton, Kristinn Pálmason og Þór Hauksson. Varastjórn skipa Erna Eiríksdóttir og Hafliði Helgason. Finnbogi Jónsson var endurkjörinn sem stjórnarformaður.
NÝLIÐAR Í STJÓRN
Katarina Burton kemur ný inn í stjórn félagsins. Hún er margreyndur stjórnandi frá Svíþjóð og hefur meðal annars gegnt stjórnunarstöðum hjá bandaríska tæknifyrirtækinu Honeywell og sænska fjarskiptafyrirtækinu Ericsson. Katarina hefur undanfarið ár setið í stjórn Advania í Svíþjóð. Ásamt Katarinu taka tveir nýjir aðilar sæti í stjórn, Kristinn Pálmason og Hafliði Helgason, sem báðir eru starfsmenn Framtakssjóðs Íslands. Nánari upplýsingar um stjórnarmenn Advania.
KYNJAHLUTFALL Í STJÓRN
Stjórn og varastjórn Advania uppfylla ákvæði laga um kynjahlutföll í stjórnum hlutafélaga. Konur eru 40% stjórnarmanna í aðalstjórn og 50% í varastjórn. Konur eru í dag tæplega þriðjungur starfsfólks og stjórnenda hjá Advania. Það er nokkuð hátt hlutfall, en hefðbundið hlutfall kvenna í upplýsingatæknifyrirtækjum er 10-15% samkvæmt upplýsingum frá Félagi kvenna í upplýsingatækni. Advania hefur virka jafnréttisstefnu og konum hefur fjölgað hjá fyrirtækinu um 4% undanfarin tvö ár.GÓÐAR HORFUR 2013
Velta samstæðu Advania á fyrsta ársfjórðungi 2013 nam 6,5 milljörðum króna. Hagnaður samstæðunnar fyrir vexti, skatta og afskriftir (EBITDA) nam 216,8 milljónum króna og jókst um 28,8% frá sama tímabili síðasta árs. „Fyrsti ársfjórðungur er í samræmi við áætlanir og ánægjulegt er að á tímabilinu hófst vinna við nokkur ný erlend verkefni. Hlutfall erlendra tekna samstæðunnar á tímabilinu var um 62%, sem er aukning frá fyrra ári. Í dag starfa um 1.100 manns hjá samstæðunni í nítján starfstöðvum í þremur löndum: Íslandi, Noregi og Svíþjóð,“ segir Finnbogi Jónsson, stjórnarformaður Advania.