Kristjana Sunna Erludóttir deildarstjóri þjónustu og ráðgjafar og Ingibjörg Edda Snorradóttir, deildarstjóri hugbúnaðarþróunar ásamt Brynju Baldursdóttur, framkvæmdastjóri InfoMentor á Íslandi og Johan Krantz, forstjóra InfoMentor.

03.09.2024

InfoMentor kaupir INNU og Völu af Advania

Advania og InfoMentor hafa gengið frá kaupsamningi um kaup InfoMentor á framhaldsskólalausninni INNU og leikskóla- og frístundalausninni Völu. Með kaupunum tekur InfoMentor yfir allar skuldbindingar Advania gagnvart viðskiptavinum þessara lausna og því starfsfólki sem þróar og þjónustar þessar lausnir. Alls munu 12 sérfræðingar Advania færast með lausnunum yfir til InfoMentor en það eru stjórnendur, vörustjórar, og aðrir sérfræðingar í þróunar- og þjónustuteymi.

„Hjá Advania metum við vöru- og þjónustuframboð okkar reglulega til að skerpa á fókus út frá nýjustu tækni og þróun markaðarins. Undanfarin misseri höfum við rýnt stöðu og framtíðarsýn þeirra lausna sem Advania hefur þróað undanfarin ár fyrir nemenda- og skólaumsýslu. Í kjölfar þess tókum við ákvörðun um að stíga út úr því að þróa og viðhalda sértækum lausnum á þessu sviði. Það kom svo í ljós að áhugi væri hjá fjárfestum að kaupa þessar lausnir út úr félaginu og eftir viðræður við aðila á markaðnum var gengið til samninga við InfoMentor. Við sjáum á eftir frábærum vinnufélögum og viðskiptavinum en vitum af þeim í góðum höndum hjá öflugu fyrirtæki,“ segir Ægir Már Þórisson forstjóri Advania á Íslandi.

„Eftir að viðræður hófust á milli InfoMentor og Advania var strax ljóst að þessar lausnir ættu góða samleið við þá vegferð sem InfoMentor er á og tækifæri væru þar til að gera enn betur með því að taka saman höndum. Hjá InfoMentor starfar hópur sérfræðinga sem lifir og hrærist í skólalausnum og hefur víðtæka sérfræðiþekkingu á íslenskum og sænskum markaði. Með þessa þekkingu og þekkingu sérfræðinga skólalausna Advania gefst tækifæri til að halda áfram að þróa öflugar hugbúnaðarlausnir fyrir þessa markaði með hagsmuni nemenda og skólasamfélagsins að leiðarljósi,“ segir Johan Krantz, forstjóri InfoMentor.

Inna er upplýsingakerfi fyrir framhaldsskóla og inniheldur m.a. kennslukerfi og nemendabókhald. Vala er lausn fyrir sveitarfélög sem nær yfir umsýslu leikskóla, skólamat, frístundastarf og vinnuskóla. Hugbúnaðarfyrirtækið InfoMentor var stofnað á Íslandi árið 1990 og er með yfir þriggja áratuga reynslu af rekstri og þróun hugbúnaðar og tæknilausna fyrir leik- og grunnskóla. Fyrirtækið og kerfið hefur þróast mikið á þessum tíma og hefur í dag hátt í milljón daglega notendur á Íslandi og í Svíþjóð. InfoMentor mun halda áfram þróun lausnanna tveggja og vinna náið með viðskiptavinum í að þróa áfram gæða kerfi í takt við þróun og þarfir markaðarins.

Fleiri fréttir

Fréttir
09.01.2025
NVIDIA kynnti nýlega Project DIGITS. Gervigreindar-ofurtölvu sem veitir rannsakendum, gagnavísindamönnum og nemendum um allan heim aðgang að gervigreindarlausninni NVIDIA Grace Blackwell. Þetta er í fyrsta sinn sem slíkt afl er beislað í boxi sem passar á ósköp venjulegt skrifborð.
Blogg
07.01.2025
Sem netöryggisráðgjafi rekst ég oft á fyrirtæki sem treysta á Linux netþjóna til að keyra mikilvæg kerfi og forrit, en á sama tíma eru þau ekki fullviss um öryggi og stöðugleika þeirra. Hver kannast ekki við Linux þjóna sem hafa verið keyrandi í mörg hundruð daga án þess að vera endurræstur? Það má ekki endurræsa því þetta einfaldlega virkar og þekkingin til að bilanagreina ef eitthvað bilar er ekki til staðar. Þá er gott að spyrja sig, hver er raunveruleg staða öryggis, uppfærslna og viðhalds á þínum Linux netþjónum?
Fréttir
06.01.2025
Advania á Íslandi er nú í hæsta mögulega flokki samstarfsaðila NVIDA. Þetta markar tímamót í samstarfi fyrirtækjanna og opnar á frekari möguleika.
Viltu vita meira?

Tölum saman

Viltu vita meira? Sendu okkur fyrirspurn.