Erla Harðardóttir og Þóra Rut Jónsdóttir
20.02.2023Verið velkomin, án þess að mæta á staðinn
Það er talið að stafrænar lausnir geti dregið úr þörf á ferðalögum vegna viðskipta um 50%.
Erla Harðardóttir
Vörustjóri
Þóra Rut Jónsdóttir
Forstöðumaður sjálfbærni
Fólk og fyrirtæki eru almennt að verða meðvitaðri um umhverfisáhrif sín og hvernig ákvarðanir þeirra spila stórt hlutverk í að draga úr þeim. Við þurfum að gera það auðveldara að taka meðvitaðar og umhverfisvænar ákvarðanir. Eitt af því sem hægt er að nýta til þess er tæknin. Við hjá Advania höfum verið að leita leiða hvernig tæknin getur verið hluti af lausninni í þeim mörgu áskorunum sem blasa við viðskiptavinum okkar undir málaflokknum sjálfbærni.
Það sem við gerðum á árinu 2022 var að fara í gegnum vöruframboðið og skoða hvort og hvernig vörurnar okkar tengjast heimsmarkmiðum sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Þannig skoðuðum við sjálfbærni í víðum skilningi og horfðum á hvernig tæknin hefur áhrif á umhverfið en einnig t.d. félagslega þætti líkt og jafnrétti kynjanna. Eftir að rýna í niðurstöður þessarar vinnu gátum við séð ákveðið mynstur hvernig vörurnar okkar eru að tengjast þessum heimsmarkmiðum.
Eitt af því sem kom upp reglulega var að vörurnar okkar hjálpa við að nýta tæknina til að draga úr ferðalögum, pappírsnotkun og spara fólki tíma. Þar má nefna fjarfundarbúnað, rafrænar undirskriftir, rafrænir reikningar og Velkomin viðburðarlausn.
Er hægt að gera þetta stafrænt?
Velkomin viðburðarlausn er vara sem við hjá Advania þróuðum í miðjum heimsfaraldri til þess að geta haldið okkar árlegu Haustráðstefnu. Velkomin gerir viðskiptavinum kleift að streyma viðburði í stafrænum heimi sem er sérhannaður fyrir hvern viðburð fyrir sig. Samkvæmt Stockholm Resiliance Center getur nýting á tækni dregið beint úr 30% af þeirri losun sem þarf fyrir árið 2030. Tæknin er einnig talin hafa óbein áhrif á restina með því að breyta notendahegðun, skala upp deilihagkerfið og styðja við viðskiptaþróun í hringrásarhagkerfið.
Við sjáum nú þegar að með því að nota tæknina er ekki jafn nauðsynlegt að mæta á staðinn, heldur getum tengst hvaðan sem er. Það er talið að stafrænar lausnir geti dregið úr þörf á ferðalögum vegna viðskipta um 50% eða meira og það er eitthvað sem við sjáum að hefur mikil áhrif á t.d. losun vegna viðburðahalds. Þannig er breytt notendahegðun og tæknin að ýta undir að umhverfisáhrif minnki.
Við vildum sýna fram á það hvernig Velkomin getur hjálpað að draga úr losun og þróuðum því ásamt KPMG og Jökulá reiknivél til þess að finna kolefnisspor viðburða. Með reiknivélinni er mögulegt að bera saman losun á viðburði sem er eingöngu haldinn á staðnum, er haldinn í blönduðu formi og svo eingöngu á netinu. Hún sýnir einnig hvaða þættir það eru sem hafa mest áhrif og auðveldar því fólki að taka upplýstar ákvarðanir til þess að draga úr umhverfisáhrifum.
Niðurstaðan var sú að það er unnt að draga úr yfir 90% af losun vegna viðburðahalds með því að færa viðburðinn eingöngu á netið. Það er að sjálfsögðu margt annað sem kemur að skipulagningu og uppbyggingu viðburða sem þarf að taka tillit til, svo sem mikilvægi þess að hittast augliti til auglitis, tengslamyndun og fleira sem staðbundnir viðburðir gera mögulegt. Því gæti verið ráð að halda viðburðinn í blönduðu formi til að draga úr óþarfa ferðalögum. Blandað form eykur einnig aðgengi að viðburðinum og gerir efnið aðgengilegt eftir á ef því er að skipta.
Við héldum áhugaverðan veffund þar sem ferlið við að reikna út kolefnissporið í reiknivélinni var sýnt og settum losunina í samhengi. Þú getur nálgast veffundinn hér.
Við hvetjum þig til að leika þér í reiknivélinni, prófa þig áfram og athuga hvort þú getir fundið leiðir til þess að gera þinn viðburð umhverfisvænni.