Guðni Matthíasson

Hugbúnaðarsérfræðingur Dynamics 365
Eftir fyrsta samtalið var ég sannfærður um að þetta væri vinnustaður fyrir mig

Hæ Guðni! Hvernig hefur dagurinn þinn verið?

Dagurinn í dag fer alfarið í það að kynna mér nýjustu tæknina í Microsoft 365 flórunni og funda um notagildi hennar fyrir þarfir viðskiptavinar sem við erum að undirbúa verkefni með. Þetta er ekki dæmigerður dagur frekar en margir aðrir, , en ég hef gaman að því að finna leiðir til að leysa raunveruleg vandamál með hjálp tækninnar.

Hvenær byrjaðir þú hjá Advania?

Ég hóf störf sumarið 2018. Þegar ég flutti til Danmerkur í nám í byrjun 2019 var mér boðið að halda áfram í lækkuðu starfshlutfalli samhliða því. Ég vann því hlutastarf með skóla í fjarvinnu frá Danmörku þangað til ég útskrifaðist í febrúar 2021 og sneri aftur í fullt starf.

Nú ert þú hugbúnaðarsérfræðingur - hvað felst í starfinu þínu ?

Í upphafi var ég ráðinn til að koma inn í stóra og flókna innleiðingu á Microsoft Dynamics AX 2012 sem forritari og tæknimaður. Þá hafði ég 4 ára reynslu af vöruþróun og tæknilegri þjónustu í því umhverfi. Síðan þá hef ég borið marga hatta í fjölbreyttum verkefnum. Ég hef unnið að uppsetningu, hönnun og forritun lausna og undirliggjandi kerfa fyrir viðskiptavini, auk yfirferðar og uppfærslu á ferlum og verklagi innanhúss. Hugbúnaðarsérfræðingur er því réttnefni í víðasta skilningi. Mitt starf er að þróa með mér sérfræðiþekkingu á hugbúnaði og beita henni í þágu Advania og viðskiptavina okkar.

Nú starfar þú innan Dynamics 365. Hvað gerið þið?

Dynamics 365 er samansafn af tengdum rekstrarkerfum frá Microsoft. Við bjóðum upp á alls kyns viðbótarlausnir, séraðlaganir, samþættingu og innleiðingarþjónustu fyrir þessi kerfi. Við sjáum um að ráðleggja viðskiptavinum okkar og koma þeim af stað í uppsetningu og notkun þessara kerfa og veitum þeim tæknilega þjónustu í framhaldi af því.

Hvað leiddi til þig Advania á sínum tíma?

Ég var í leit að nýrri vinnu og lenti á spjalli við fyrrum samstarfsfélaga sem var þá kominn til Advania. Hann hafði ekkert nema jákvæða hluti um fyrirtækið og starfsumhverfið að segja og því óskaði ég eftir viðtali. Eftir fyrsta samtalið var ég sannfærður um að þetta væri vinnustaður fyrir mig 🙂

Hvernig myndir þú lýsa vinnustaðnum Advania?

Advania er stærsta fyrirtækið sem ég hef unnið fyrir, en þrátt fyrir það er liðsheildin sterk, bæði innan minnar deildar og yfir fyrirtækið í heild. Hér er tekið mark á mér og mínum hugmyndum og fyrirtækið kemur til móts við mig þegar eitthvað vantar. Sú virðing sem ég finn fyrir hvetur mig til að verða betri í mínu starfi. Ofan á það allt saman erum við líklega með besta mötuneyti sem þekkist í íslensku atvinnulífi.

Hvað finnst þér um félagslífið hjá Advania?

Starfsmannafélag Advania er mjög virkt og býður upp á alls kyns klúbba eftir áhugasviðum. Ég er til dæmis mikill bjórunnandi og er því í bjórklúbbnum, sem skipuleggur alls konar smakk-viðburði með tilheyrandi gleði. Því miður gat ég lítið sinnt félagslífinu í vinnunni á meðan ég bjó erlendis, en þarna er klárlega eitthvað fyrir alla og nóg gaman að gera. Þegar samkomutakmarkanir voru settar á vegna COVID-19 byrjaði Advania að bjóða reglulega upp á svokallaða 'klukk' fundi sem voru skemmtileg innslög með ráðum og fræðslu varðandi fjarvinnu. Þetta hjálpaði mér mikið að takast á við einangrunina sem fylgdi því að stunda bæði nám og vinnu að heiman.

Eigum við samleið?

Sjáðu laus störf hjá Advania

Sjá störf