Guðrún Þórey Sigurbjörnsdóttir
Ég hlakka til að mæta í vinnuna hvern einasta dag, enda einstaklega góður starfsandi hérna sem skapast af öllu því góða fólki sem vinnur hér
Hæ Guðrún Þórey! Hvernig hefur dagurinn þinn verið?
Dagurinn hefur verið mjög góður, nóg af verkefnum sem ég sinnti heiman frá í dag vegna appelsínugulra veður viðvarana.
Hvenær byrjaðir þú hjá Advania?
Ég byrjaði að vinna sem forritari hjá Advania árið 2017 en starfa í dag sem deildarstjóri í Business Central SaaS
Hvað felst í starfinu þínu?
Að vinna með og leiða frábæran hóp sérfræðinga í Business Central sem kappkosta við að veita viðskiptavinum okkar góða ráðgjöf og þjónustu.
Hvaða vandamál eru þið að leysa fyrir viðskiptavini?
Við hjálpum viðskiptavinum að leysa ýmis verkefni sem við koma daglegum rekstri og notkun á þeirra á NAV og BC.
Hvernig er stemningin í deildinni?
Stemningin er frábær, enda hefur það sýnt sig og sannað í síðustu tveimur starfsánægju könnunum þar sem við höfum verið í 1. sæti yfir allt fyrirtækið.
Hvað leiddi til þig Advania?
Ég var með reynslu af forritun í NAV eftir að hafa starfað við það hjá fyrirtæki í Kuala Lumpur í Malasíu þegar ég bjó þar. Þegar ég flutti heim kom svo að því að finna mér nýtt starf og vildi ég geta nýtt þekkingu mína. Ég hafði heyrt góða hluti um Advania og starfaði áður hjá forvera þess EJS.
Hver eru skemmtilegustu verkefnin sem þú sinnir?
Mér finnst mjög erfitt að segja til um hvað er skemmtilegast þar sem ég hef almennt mjög gaman að vinnunni minni og flest öll verkefni sem ég fæ upp í hendurnar finnst mér gaman að leysa. Það eru nýjar krefjandi áskoranir á hverjum degi sem gaman er að takast á við og leysa.
Hver er bakgrunnur þinn?
Ég er menntuð tölvunarfræðingur og hef starfað við forritun í NAV og Business Central í 8 ár. Ég er einnig með B.Ed gráðu í grunnskólakennarafræði og starfaði sem grunnskólakennari í 5 ár. Ég hef verið virkur félagi í Hjálparsveit skáta í Garðabæ í 19 ár og hef starfað í skátastarfi í 25 ár.
Hvernig hefur námið nýst þér í vinnu?
Ég starfaði fyrst við forritun þar sem ég lærði mikið inn á fram- og bakenda kerfisins. Sú þekking nýtist mér mjög vel í starfi mínu í dag sem deildarstjóri, því þar með hef ég betri þekkingu og skilning á þeim verkefnum sem starfsmennirnir í deildinni minni eru að leysa. Einnig nýtist menntun mín sem kennari mér vel þegar kemur að framkomu, tjáningu og samskiptum við aðra.
Hvernig myndir þú lýsa vinnustaðnum Advania?
Advania er frábær vinnustaður. Ég hlakka til að mæta í vinnuna hvern einasta dag, enda einstaklega góður starfsandi hérna sem skapast af öllu því góða fólki sem vinnur hér. Starfsaðstaðan er til fyrirmyndar hvort sem er á skrifstofunum upp á hæðunum eða í ræktinni og starfsmannaaðstöðunni niðri í kjallara. Svo má ekki gleyma mötuneytinu okkar sem er það besta sem ég hef kynnst á vinnustöðum.
Vinnu þú oft í fjarvinnu? Og hvernig finnst þér að hafa möguleika á sveigjanleikanum?
Ég nýti mér það mjög reglulega að vinna heima, sérstaklega á dögum sem þessum þegar óveðurs viðvaranir eru á höfuðborgarsvæðinu, þá er óskaplega gott að þurfa ekki að fara út og get sinnt vinnunni heiman frá sér.
Hvernig er lífið á skrifstofunni?
Lífið á skrifstofunni er frábært, sérstaklega með öllu því skemmtilega fólki sem ég vinn með. Það er mikil stemning í deildinni minni og oftast mikið um hlátur og gleði. Það gefur mér því mikla gleði og orku að mæta á skrifstofuna, enda er ég mikil félagsvera og nærist á því að hitta fólk.
Hvernig leiðtogi ert þú?
Ég legg mig fram við að vera jákvæður og hvetjandi leiðtogi og kappkosta við að skapa skemmtilegt og hvetjandi starfsumhverfi, ásamt því að styrkja liðsheildina.