16.10.2024

Öryggisoktóber: Verndaðu þig gegn netglæpum

Október er kominn og það þýðir að Öryggisoktóber er í fullum gangi. Þetta er tækifæri til að huga að öryggi okkar á netinu, sérstaklega fyrir eldri borgara. Tæknin getur verið ógnvænleg fyrir þennan hóp, þar sem margir telja að þeir séu öruggir þegar þeir fá beiðnir frá bönkum eða öðrum stofnunum. En eins og við vitum, þá er ekki allt sem sýnist. Hér eru nokkur einföld ráð til að hjálpa þér að verja þig gegn netglæpum.

Bjarki Traustason
öryggisráðgjafi og sölustjóri Skjaldar hjá Advania

Mikilvægi rafrænna skilríkja

  1. Notaðu rafræn skilríki: Rafræn skilríki eru örugg leið til að staðfesta hver þú ert á netinu. Þau eru notuð í margvíslegum þjónustum, eins og aðgangi að opinberum vefjum og bankareikningum. Gakktu úr skugga um að þú notir rafræn skilríki þegar þú skráir þig inn á mikilvægar síður.
  2. Samþykktu aldrei auðkenningu nema þú hafir óskað eftir henni: Ef einhver biður um að auðkenna þig eða staðfesta rafræn skilríki án þess að þú hafir beðið um það, skaltu aldrei samþykkja það. Verðu þig gegn ógnunum með því að gefa ekki upplýsingar nema þú hafir sjálfur hafið samskipti við aðila með réttum boðleiðum.

Hvernig á að vera varkár

  1. Vera tortryggin: Ef þú færð tölvupóst eða SMS frá ókunnugum aðila sem biður um persónuupplýsingar, skaltu hafa varan á. Svindlarar nota oft lögmætar aðferðir til að fá upplýsingar.
  2. Bankar og lögmætir aðilar biðja aldrei um aðgangsorð: Mundu að bankar og aðrar löglegar stofnanir óska aldrei eftir því að þú gefir upp aðgangsorð í tölvupósti eða síma. Ef þú færð slíka beiðni, er það líklega svindl.
  3. Ræddu málin við aðra: Ef þú ert í vafa um lögmæti tölvupósts eða vefsíðu, hafðu samband við fjölskyldu, vini eða aðra trausta aðila. Þeir geta frekar hjálpað þér að ákveða hvort það sé öruggt að veita upplýsingar en aðilinn sem þú varst að kynnast á Facebook eða hringdi í þig án þess að hafa nokkur tíma áður talað við þig.
  4. Skoðaðu tenglana: Ef þú færð tengla í skeytum, skaltu ekki smella á þá beint. Opnaðu vefvafra og sláðu inn heimasíðuna beint. Þannig forðast þú að lenda á svindlvefsíðum.
  5. Frægir aðilar með fjárfestingatækifæri: Þjóðþekktir einstaklingar lenda mjög oft í því að myndir af þeim eru teknar af netinu og nýttar til þess að vekja eftirtekt og forvitni hjá fólki til þess að svíkja fé út úr þeim.
  6. Of gott til að vera satt: Ef hluturinn sem er verið að bjóða er alveg ótrúlega magnaður og í raun of góður til að vera sannur... þá er hann í flest öllum tilfellum svikastarfsemi.

Hvað á að gera ef þú telur þig hafa orðið fyrir netsvindli

  1. Leitaðu strax að aðstoð: Ef þú telur að þú hafir orðið fyrir netsvindli, leitaðu strax að aðstoð. Það er mikilvægt að gera slíkt hið fyrsta til að takmarka skaðann og koma í veg fyrir frekari vandamál. Hér skiptir tíminn miklu máli !
  2. Tilkynntu netsvindl: Taktu strax saman allar upplýsingar sem þú hefur um atvikið og hafðu samband við lögreglu í síma 444 1000.
  3. Hafðu samband við banka: Ef þú hefur gefið upp bankaupplýsingar eða aðgangsorð , hafðu samband við bankann þinn til að tilkynna atvikið og láttu þá vita að þú hafir orðið fyrir svindli. Þeir geta aðstoðað þig við að loka reikningum og vernda fjármálin þín.
    -Arion banki 444 7000 Sjá nánar: Öryggismál
    -Íslandsbanki 440 4000 Sjá nánar: Netöryggi
    -Landsbankinn 410 4000 / Neyðarnúmer VISA korta 525 2000 Sjá nánar: Netsvik
    -Indó 588 4636 Sjá nánar: Neyðarlokun indó | indó (indo.is)
    -Kvika 540 3200
    -Fossar 522 4000
  4. Verndaðu þig: Eftir að hafa tilkynnt málið skaltu breyta öllum aðgangsorðum fyrir reikninga þína og athuga yfirlit yfir fjármál til að tryggja að ekkert óheimilt hafi verið gert.

Samfélagsleg ábyrgð

Við þurfum að stíga upp sem samfélag og aðstoða eldri borgara við að fóta sig í þessum heimi sem er að þróast hraðar en þau geta fylgst með. Núna í október er góður tími til að aðstoða fólkið sem kenndi okkur að vara okkur á hættunum sem við sáum ekki á unga aldri. Hringjum í að minnsta kosti tvo ástvini og ræðum við þau um netöryggi. Hver veit nema að eitt símtal frá þér geti komið í veg fyrir að ástvinur tapi stórum fjárhæðum sem mun hafa varanleg áhrif á sálarró og fjárhagslegt frelsi þessara aðila.

Óöryggið sem fylgir því að lenda í því að verða fyrir netglæp er einnig þungbært. Oft á tíðum fylgir því mikil skömm að hafa látið glepjast af gylliboðum og enn verra ef um ástarsvindl er að ræða. Pössum því vel upp á aðstandendur okkar ef þeir verða fórnarlömb þessara glæpa, munum að þetta er í fyrsta sinn sem þau lenda í þessum aðstæðum en afbrotaaðilinn er hins vegar búin að svíkja tugi ef ekki hundruði aðila áður og hefur bakland samstarfsmanna sem aðstoða við að halda svikamyllunni gangandi. Þetta eru samviskulausir skúrkar sem munu ekki gefast upp ef fórnarlambið er komið í klærnar þeirra.

Öryggisoktóber er tækifæri til að auka meðvitund um netöryggi og ekki bara hjá fyrirtækjum. Með því að fylgja þessum einföldu ráðleggingum og ræða við aðra um öryggi á netinu getum við öll verndað okkur betur. Tökum þátt í öryggisoktóber, leggjum örlítið á vogarskálarnar og hjálpum þeim sem eru ekki eins netöruggir og við með að fóta sig í þessum nýja heimi.

Fleiri fréttir

Fréttir
21.01.2025
Liva er ný bókunarlausn frá Advania sem kynnt var til leiks í ferðaþjónustuvikunni 2025. Ágúst Elvarsson rekstarstjóri hjá Jökulsárlóni ehf hefur tekið þátt í þróuninni á Liva frá upphafi. Með því að taka Liva í notkun getur hann skipt út tveimur, ef ekki þremur, mun flóknari og þyngri kerfum.
Fréttir
15.01.2025
Í dag fer fram Mannamót Markaðsstofa landshlutanna í Kórnum í Kópavogi sem er mikilvægur hluti af Ferðaþjónustuvikunni á ári hverju.  Af þessu tilefni taka Advania á Íslandi og Markaðsstofur landshlutanna höndum saman og standa fyrir Advania LIVE beinni útsendingu frá Kórnum þar sem rætt verður við aðila innan ferðaþjónustunnar og fleiri góða gesti.
Fréttir
09.01.2025
NVIDIA kynnti nýlega Project DIGITS. Gervigreindar-ofurtölvu sem veitir rannsakendum, gagnavísindamönnum og nemendum um allan heim aðgang að gervigreindarlausninni NVIDIA Grace Blackwell. Þetta er í fyrsta sinn sem slíkt afl er beislað í boxi sem passar á ósköp venjulegt skrifborð.
Viltu vita meira?

Tölum saman

Viltu vita meira? Sendu okkur fyrirspurn.