15.8.2012 | Blogg

Haustráðstefnan 2012: Newsweek & landsleikur

advania colors line

Haustráðstefna Advania verður haldin föstudaginn 7. september á Hilton-hótelinu í Reykjavík. Haustráðstefnan er stærsti viðburðurinn í íslenskri upplýsingatækni ár hvert og nú er svo komið að ákveðinn greinir er að festast við hana...

Í ár verða um 40 fyrirlestrar í boði á ráðstefnunni á 4 mismunandi þemalínum sparnaðar, hagnýtingar, fróðleiks og virkni. Liðlega helmingur fyrirlesara er erlendir sérfræðingar. Hátt í eitt þúsund gestir eru væntanlegir.

LYKILRÆÐA: NEWSWEEK

Lykilræðu Haustráðstefnunnar að þessu sinni flytur Dan Lyons, tækniritstjóri alþjóðlega fréttatímaritsins Newsweek. Lyons mun fjalla um stefnur og strauma í upplýsingatækni. Hann gegndi áður stöðu tækniritstjóra hjá tímaritinu Forbes, verið blaðamaður í aldarfjórðung og hefur djúpa þekkingu á upplýsingatækni. Nýleg umfjöllunarefni Lyons hjá Newsweek hafa meðal annars verið Apple, Google, Facebook, Twitter, gervigreind og vélmenni.

RÁÐSTEFNA OG LANDSLEIKUR

Svo skemmtilega vill til að fyrsti landsleikur íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu í yfirvofandi undankeppni HM fer fram þetta sama kvöld niðri í Laugardal (skammt frá Hilton), kl. 18:45. Af því tilefni hefur Advania ákveðið að bjóða öllum ráðstefnugestum á leik Íslands og Noregs strax að loknu veglegu lokapartý. Það má fastlega gera ráð fyrir því að hinir eitt þúsund ráðstefnugestir verði dágott hlutfall vallargesta.

STEFNUMÓT UT OG ATVINNULÍFS

Haustráðstefnan 2012 er jafnan einstakt stefnumót upplýsingatækni og atvinnulífs og veitir gestum yfirgripsmikla sýn á stefnur og strauma. Þetta er átjánda árið í röð, sem hún er haldin – þegar sambærilegir viðburðir forvera Advania eru taldir með – og er gert ráð fyrir metaðsókn, enda mikil eftirspurn í samfélaginu fyrir gagnlega fræðslu um lausnir upplýsingatækni fyrir atvinnulífið.

DAGSKRÁ: 4 ÞEMALÍNUR

Þemalínur Haustráðstefnunnar að þessu sinni eru Sparnaður (hagkvæmar lausnir fyrir stjórnendur), Hagnýting (nýjungar í verslun og þjónustu), Fróðleikur (aðferðafræði og verkefnastjórnun við allra hæfi) og Virkni (bland í poka fyrir kerfisstjóra og forritara). Við skipulagningu Haustráðstefnunnar er ávallt lögð áhersla á fræðslu, þekkingarmiðlun og faglega fyrirlestra sérfræðinga í fremstu röð. Húsið opnar 7:30, setning verður 8:20 og formleg dagskrá klárast 16:30 þegar dagurinn verður toppaður með eiturhressu lokapartý og skemmtidagskrá.

STÆRSTI VIÐBURÐURINN

Advania hefur undanfarin ár verið að færa sig í aukana við margvíslega fræðslutengda viðburði. Þannig heldur fyrirtækið til dæmis um 15 morgunverðarfundi ár hvert og tekur einnig á móti fjölmennum hópum nemenda á öllum stigum íslenska menntakerfisins. Að öllu samanlögðu heimsækja Advania um 11 þúsund manns á ári í fróðleiksskyni, en enginn viðburður er þó stærri en haustráðstefnan sem laðar til sín hátt í þúsund manns á ári hverju.

SKÝR HUGMYNDAFRÆÐI

Að baki fræðsluviðburðum Advania er ákveðin og nokkuð afgerandi hugmyndafræði. Í fyrsta lagi hafa viðburðirnir reynst vel heppnuð leið til að færa virðisauka á samskipti fyrirtækisins við jafnt viðskiptavini sem aðra í samfélaginu. Í annan stað er góð aðsókn á viðburðina grundvölluð á því að þar á sér engin „sala“ stað. Áhersla er lögð á þekkingarmiðlun sérfræðinga utan Advania, reynslusögur fólks úr atvinnulífinu og nýjungar. Að haustráðstefnunni undanskilinni eru allir viðburðir Advania opnir öllu áhugasömu fólki, hvort heldur það er meðal viðskiptavina fyrirtækisins eða ekki.

TIL BAKA Í EFNISVEITU