12.9.2012 | Blogg

Upplýsingatækni á krossgötum

advania colors line

Við hjá Advania héldum okkar árlegu Haustráðstefnu 7. september þar sem rúmlega 800 manns komu saman til að kynna sér nýjustu strauma og stefnur í upplýsingatækni. Við setningu ráðstefnunnar fór Gestur G. Gestsson forstjóri Advania yfir þær ótrúlegu breytingar sem hafa átt sér stað í upplýsingatækni frá því að forveri Advania, EJS var stofnað árið 1939 og einbeitti sér meðal annars að viðgerðum á ritvélum. 

Mikil breidd í fyrirlestrum

Á ráðstefnunni voru fjórar þemalínur: 
 • Sparnaður - hagkvæmar lausnir fyrir stjórnendur
 • Hagnýting - nýjungar í verslun og þjónustu
 • Fróðleikur - aðferðafræði og verkefnastjórnun við allra hæfi
 • Virkni - bland í poka fyrir kerfisstjóra og forritara
Alls voru 40 fyrirlestrar í boði og þrír lykilfyrirlesarar stigu á stokk: 
 • Björn Zoëga, forstjóri Landspítala háskólasjúkrahúss, LSH
 • Janne Sigurðsson, forstjóri Fjarðaáls 
 • Dan Lyons, tækniritstjóri Newsweek 

Tækniundrið í Vatnsmýrinni

Björn Zoëga, forstjóri LSH sagði frá nýja spítalanum sem fyrirhugað er að reisa, þeim búnaði og tækni sem þar verður beitt til að efla heilsufar landsmanna og því merka vísindastarfi sem LSH stendur fyrir í samvinnu við marga aðila.

Þekkingarver í fremstu röð

Janne Sigurðsson
, forstjóri Fjarðaáls greindi frá því hvernig álverið á Reyðarfirði beitir upplýsingatækni á markvissan hátt til að skapa þekkingarver í fremstu röð. 
Í máli þeirra beggja kom skýrt fram hversu upplýsingatæknin er samofin daglegri starfsemi fyrirtækja, stofnana og félagasamtaka. Án hennar væri rekstur nútíma álvers eða sjúkrahúss ómögulegur. 

Framtíðin er skrifuð í tölvuskýin

Dan Lyons, tækniritstjóri Newsweek ræddi um byltingu snjallsíma og samfélagsmiðla og áhrif hennar á atvinnulífið. Fyrirlestur Dan Lyons var um margt mjög merkilegur en hann hefur fylgst með straumum og stefnum í upplýsingatækni og boðmiðlum í aldarfjórðung.

Dan Lyons lýsti þeirri skoðun sinni að við værum í raun og veru við upphafið á nýrri bylgju í upplýsingatækni sem fæli í sér mestu byltinguna í þessum efnum sem menn hafa séð. Þar á hann við framsókn skýþjónustu og mobile tækni. Hann benti á að árið 2013 mætti búast við því að einn af hverjum sjö jarðarbúum eða um 1 milljarður manna væri kominn með aðgang að snjallsíma. 
Hann setti fram þá framtíðarsýn að snjallsímar væru orðin almannaeign í náinni framtíð. Hann velti upp þeirri spurning hvaða áhrif það hefur þegar gjörvallt mannkyn er orðið tengt við Internetið í gegnum snjallsíma. Þessi miðill verður mun stærri og að hans mati betri en sjónvarp. Hann benti á að Apple hefði leitt þessa þróun og nú væri svo komið að áætlaðar tekjur Apple á árinu 2012 væru áætlaðar 155 milljarða dollara. Þrír fjórðu af þessum tekjum eru af snjallsímum og spjaldtölvum. Lyons gagnrýndi þó Apple harðlega fyrir að hafa ekki þróað sína farsíma nægilega vel og fyrirtækið ætti það á hættu að dragast aftur úr. 

Sjónvarpið er að deyja

Dan Lyons spáði dauða sjónvarpsins eins og við þekkjum það í dag. Ungt fólk hefði dregið úr sjónvarpsáhorfi sínu og snúið sér að Netinu og snjallsímum. Þar býr það sjálft til efni og deilir með öðrum. Sem dæmi um þetta er að meira efni er hlaðið inn á Youtube á mánuði en sýnt hefur verið af bandarísku sjónvarpskeðjunum í sex áratugi. 800 milljón notendur horfa fjórum milljörðum sinnum á myndskeið á Youtube á dag. Fimmtungur af þessari notkun á sér stað í gegnum snjallsíma. Í mánuði hverjum nota 955 milljón manna Facebook. Þar af nota 543 milljónir manna Facebook í gegnum snjallsíma. Notkun á Facebook í gegnum snjallsíma hefur aukist um 67% á undanförnum þremur mánuðum. Það er milljarður notendaaðganga á Twitter og þar er tístað 340 milljón sinnum á dag. 60% af notkun á Twitter fer fram í gegnum snjallsíma. 

Þetta var aðeins brot af því sem Lyons fór yfir en hann lagði áherslu á að staðan væri í raun svipuð og í árdaga sjónvarpsins. Það væri aðeins tímaspursmál þangað til það kæmu fram einstaklingar sem hefðu sömu tök á þessum miðli á sama hátt og frumkvöðlar sjónvarpsins sýndu á sínum tíma. 

Margir aðrir áhugaverðir hlutir komu fram á ráðstefnunni. Eins og gefur að skilja er aðeins hægt að stikla á stóru hér. 

Árangursrík breytingastjórnun

Elísabet Halldórsdóttir hjá Icelandair fjallaði um breytingastjórnun en Icelandair innleiddi Microsoft hugbúnað með árangursríkum hætti í samstarfi við Advania. Að hennar sögn eru lyklarnir að árangursríku innleiðingarverkefni eftirfarandi: 
 • Stuðningur yfirstjórnar 
 • Undirbúningur á verkefninu
 • Raunhæfar áætlanir
 • Áhersla á kynningu á verkefninu
 • Upplýsa notendur um framgang
 • Prófanir
 • Fagna áföngum
 • Loka verkefni

Ný og góð veröld rafrænna skilríkja 

Haraldur Agnar Bjarnason hjá Auðkenni fjallaði um veröld rafrænna skilríkja. Í máli hans  kom fram að hagnýtingu rafrænna skjala og ferla getur skilað aukinni sjálfvirkni, einfölduðum ferlum og bættri þjónustu. Sparnaður næst með minni notkun á pappír og lægri sendingarkostnaði, minni kostnaði við afgreiðslu og færri ferðalögum til að sinna erindum.

Gagnaskrímslið stækkar stöðugt

Steven Gibbs
hjá IBM fór yfir framþróun og hagnýtingu viðskiptagreindar. Aldrei hefur verið jafn brýnt að koma böndum á gögn og breyta þeim í gagnlegar upplýsingar og líkti Steven gögnum við sístækkandi risaskrímsli. Hann benti á að 90% af heildarmagni upplýsinga og gagna sem til er í veröldinni verið búið til á undanförnum tveimur árum. Það eru því miklar áskoranir sem bíða þeirra sem vilja breyta gögnum í upplýsingar sem geta varpað ljósi á rekstur fyrirtækja eða jafnvel haft forspárgildi.

Ísland sem heimili gagna

Trygve Jarholt
 hjá Opera Software sem nýtir gagnvaver Advania, Thor Data Center fjallaði meðal annars um hvers vegna fyrirtækið hefði valið Ísland og Thor Data Centre  til að hýsa sín gögn en um 60 milljón notendur Opera hugbúnaðar sækja gögn sín til Íslands. Þar taldi hann til neðangreinda þætti: 
 • Fyrirsjáanlegur orkukostnaður og gott orkuafhendingarkerfi
 • Græn orka
 • Mikil þekking á upplýsingatækni til staðar
Að hans sögn þurfa Íslendingar að huga að ýmsum þáttum: 
 • Enginn aðili sem miðlar bandvídd er með starfsemi hér á landi
 • Engin bein Fiber tenging er við Bandaríkin
 • Þörf á flóknum samningum ef hýsa á gögn á Íslandi
 • Íslensk stjórnvöld hafa ekki náð að einfalda og skýra nægilega vel skattareglur vegna innflutnings á búnaði
 • Vantar fleiri stóra aðila til að hýsa sín gögn á Íslandi

Þarfagreining og markmiðasetning er lykill að árangri

Gunnar Þórisson
hjá Advania fór yfir appþróun og lagði áherslu á að fyrirtæki þyrftu að huga mjög að þarfagreiningu og markmiðasetningu áður en þau legðu út í þróun fyrir snjalltíma og spjaldtölvur. Að hans sögn eru Android símar með rúmlega 60% markaðshlutdeild, iPhone er með um 30% hlutdeild og afgangurinn eru Blackberry símar.

Virði samfélagsmiðla fyrir fyrirtæki

Finnur Magnússon hjá Marorku spurði mjög áhugaverðrar spurningar í sínum fyrirlestri en hann velti fyrir sér hvers virði það væri fyrir fyrirtæki að vera virkt á samfélagsmiðlum. Hann bað þrjú lítil fyrirtæki sem hann hefur sérstakar mætur á og eru dugleg á samfélagsmiðlum að leggja mat á þetta. Um er að ræða KríuFrú Laugu og Borg Brugghús. Niðurstaðan var sú að fyrirtækin mátu það svo að arðsemi hvers klukkutíma sem varið var í að vera virkur á samfélagsmiðlum væri á bilinu 10–50 þúsund krónur.  

SharePoint sem innranet

Hildur Grétarsdóttir
rekstrar- og gæðastjóri hjá Verði fjallaði um SharePoint sem innranet. Að hennar sögn var SharePoint valið fyrir innranet fyrirtækisins að eftirtöldum ástæðum:
 • Margir þjónustuaðilar
 • Microsoft umhverfi
 • Mögulegar tengingar við annan Microsoft hugbúnað
 • Auðvelt að smíða lausnir með hjálp eininga sem fylgja svo sem viðburðadagatal, matseðill, korkur, afmælisdagatal, samfélagsmiðlar og fleira
 • Skjalakerfi, aðgangsstýring, útgáfustýring

Agi við skráningu upplýsinga skiptir öllu

Reynir B. Eiríksson framleiðslustjóri Norðlenska lagði áherslu á það í sínum fyrirlestri að „hámörkun árangurs með viðskiptalausn er einfalt mál og hefur ekkert með tækni að gera.“ Að hans sögn er gríðarlega mikilvægt að gæta vel að skráningu gagna, gömlu sannindin um „rusl inn, rusl út“ ætti mjög vel við í hagnýtingu viðskiptakerfa. Til að takast á við þetta væri mikilvægt að nýta sjálfvirkar skráningar til hins ýtrasta.

Windows 8 er gjörbylting

Jóhann Áki Björnsson hjá Advania fjallaði um Windows 8 sem kemur út fyrir almenning þann 26. október á þessu ári. Þessu mun fylgja mikið úrval af nýjum vélbúnaði og að sjálfsögðu ný virkni og viðmót fyrir notendur. Start hnappurinn sem er notendum að góðu kunnur verður ekki lengur fyrir hendi en aðdáendur hans þurfa ekki að örvænta, þeir munu víst geta sótt forrit á Netið sem kemur honum aftur fyrir á sínum gamla stað. 

Öryggið á oddinum

Tryggvi R. Jónsson
hjá Advania fjallaði um öryggi rafrænna viðskipta með rafrænum skilríkjum. Í fyrirlestri sínum fór hann yfir hvernig traust er skapað í rafrænum samskiptum:
 • Sannreynum hver sendir til okkar 
 • Sannreynum innihald samskipta
 • Staðfestum hver við erum

Jafnframt varaði hann við því að traust í rafrænum samskiptum og viðskiptum veikist ef aðilar stunda alla eða einhverja af neðangreindum ósiðum: 

 • Óhófleg söfnun persónuupplýsinga og misnotkun slíkra upplýsinga
 • Villur í meðferð og úrvinnslu
 • Heimil notkun annarra á upplýsingum okkar
 • Óviðkomandi aðgangur

Haustráðstefna Advania 2013

Hér var aðeins stiklað á stóru varðandi það helsta sem kom fram á ráðstefnunni. Greinilegt er að það eru mjög spennandi tímar framundan í upplýsingatækni og von á miklum sviptingum. Við hjá Advania hlökkum til þess að halda morgunverðarfundi og fleiri atburði í vetur og sjá aðsjálfsögðu endurtökum við leikinn með Haustráðstefnu Advania 2013.

Eftir

TIL BAKA Í EFNISVEITU