30.10.2013 | Blogg

Hvernig undirbýrðu vefi undir mikla umferð?

advania colors line
Með vaxandi notkun þjónustu- og söluvefja verður æ brýnna að þeir standist álagspunkta og mikla notkun. Það er martröð vefstjórans þegar vefurinn fer niður meðan þúsundir viðskiptavina eru að nýta sér þjónustuna – sennilega er ekki hægt að fá verri auglýsingu. Góðu fréttirnar eru hinsvegar þær að til eru margar leiðir til að lágmarka líkurnar á „niðritíma“ eða hægagangi. Hér fyrir neðan eru nokkur ráð sem vonandi nýtast þeim sem reka vinsæla vefi, þ.e. vefi sem eiga við það lúxusvandamál að glíma við álagstoppa.

Gerðu áætlun

Áætlunargerð skilar miklu. Skoðaðu það sem er á döfinni og búðu þig undir fyrirsjáanlega álagstoppa. Landsleikur eða stórir tónleikar geta valdið miklu álagi á miðasöluvef. Mánaðarmót og áramót eru dæmi um fyrirsjáanlega álagspunkta hjá netbönkum. Gott er að horfa á tæknilega hönnun vefsins heildstætt og huga að því hvernig hægt er að stækka og minnka kerfið með litlum fyrirvara, allt frá stýrikerfi og upp í veitta þjónustu.  Margir nýta svokallaða “devops” aðferðarfræði þar sem útgáfuferlið og uppsetningarferlið er samræmt áður en rekstur hefst. Þetta tryggir bæði sveigjanleika og afkastagetu vefsins.  
 

Nýttu þér skýjalausnir

Nú má leigja reikniafl í skýinu (sýndarvélar), bæði hjá íslenskum birgjum eins og Advania eða hjá aðilum út í heimi. Þar má til dæmis nefna Azure frá Microsoft eða AWS frá Amazon einhver dæmi séu tekin. Létt verk er að bæta við vefmiðlurum á þeim tíma sem álagið stendur yfir og fjarlægja þegar álagi lýkur. Þegar vefur nýtir margar vélar til að miðla efni eða þjónustu fer álagsjöfnuður að skipta miklu máli fyrir sveigjanleika í rekstri.  
 

Notaðu Netscaler

Netscaler er öflugt verkfæri til að dreifa og stýra álagi á vefsetur, gagnagrunna, vefþjónustur og nafnaþjóna (DNS) svo eitthvað sem sé nefnt.  Netscaler vélbúnaður er með háhraða SSL álagsjöfnum til að auka afköst.  Netscaler er nýttur til að tryggja aðgengi íslendinga að fjölsóttum vefútsendingum.  Advania er með fjögur Netscaler box sem margir af mest notuðu vefjum landsins nýta. Að auki býður Advania öflugar hýsingarlausnir fyrir vefi sem þurfa að þola mikið álag.
 

Farðu yfir forritun og gagnagrunna

Það er hægt að stórauka afkastagetu vefja með því að besta forritun og gagnagrunna. Til dæmis má nota svokallað caching (flýtiminni). Röng uppsetning eða forritun á gagnagrunnum og tengingum við þá geta falið í sér flöskuhálsa. Brýnt er að yfirfara svokallaða indexa á gagnagrunnum og lágmarka köll í gagnagrunna. Það er auðvelt að bæta við vefmiðlurum en snúnara að skala upp gagnagrunna þegar álagið dynur á.  
 

Gerðu prófanir og lagaðu það sem fer úrskeiðs þar

„Seint er að byrgja brunninn, þá barnið er dottið ofan í“ segir máltækið. Fyrirhyggja er lykilorðið hér. Það er kjörið að gera álagspróf og ráðstafanir áður en flóðbylgja notenda skellur á vefnum. Það má nýta hugbúnað eins og YSlow sem er viðbót fyrir Chrome og Firefox til að kanna ástand  og afkastagetu vefsetra. YSlow skoðar til dæmis atriði eins og Client Side Caching, HTTP Requests, þjöppun á skjölum svo eitthvað sé nefnt. Yslow gefur vefjum einnig einkunn fyrir hraða. 
 
Gangi ykkur vel að gera vefina ykkar álagsþolna!

 

 

TIL BAKA Í EFNISVEITU