29.1.2014 | Blogg

Landakort fyrir spjaldtölvur og snjallsíma

advania colors line
Ískort er lítið sprotafyrirtæki sem hefur það að markmiðið að útbúa landakort úr stafrænum landupplýsingum. Kortin eru til notkunar í hugbúnaðinum PDF-Maps, sem er ókeypis hugbúnaður fyrir bæði Google Android og Apple iOS spjaldtölvur og síma. Kortin sjálf eru seld í gegnum vefkerfi PDF-Maps undir heitinu „Icelandic Maps.“ Á vefnum hjá Ískort er kortasjá, þar sem notendur geta skoðað kort í fullri upplausn.

Í hverju felst kortagerðin?

Kortagerðin felst í því að notaður er landfræðilegur gagnagrunnur Landmælinga Íslands  IS-50V. Í honum er meðal annars hæðarlíkan, hæðarlínur, mannvirki ,örnefni , samgöngur, strandlína, vatnafar og yfirborð. Í kortagerðinni er einnig notað mjög nákvæmt hæðarlíkan af jöklum landsins, en líkanið er unnið af Veðurstofu Íslands og Raunvísindastofnun Háskóla Íslands. Þess til viðbótar er mikið safn gönguleiða og upplýsinga um staðsetningu skýli og skála.

Þegar gögnin eru lesin inn úr gagnagrunni, þá opnast þau öll sem flöt línugögn. Öll gögn líta eins út og ómögulegt er að aðgreina alla þætti þeirra sem opnuð eru.

Útkoman, eftir að búið er að útbúa litakort og ákveða forgang og  framsetningu þeirra gagna sem er notað, er heildstætt landakort. Kortið er þá  með útliti og áferð sem auðvelt er að lesa  og skynja hvernig landið liggur. Einnig er auðvelt að sjá hvar vegir og aðrir manngerðir hlutir eru á kortinu.

Hæðarlíkan

Hæðarlíkanið er gríðarlega mikilvægur þáttur í því að landakortið, sem útbúið er, sé auðvelt til notkunar og notandinn skynji landslagið vel. 

Hæðarlíkan Landmælinga Íslands sem þekur allt landið í einni heild, er notað sem grunnur.

Hæðarlíkan frá Veðurstofu Íslands og Raunvísindastofnun HÍ, en í þeim gögnum er landlíkan unnið upp eftir Lidar (Laser) mælingum með upplausn upp á 2.5 metra, af jöklum landsins og þeirra næsta nágrenni.  Hæðarlíkaninu er bætt ofan á grunnlíkanið frá Landmælingum.

Vinnslan sjálf

Vinnslan við kortagerðina er margþætt og gagnamagn henni tengdri er mikil. Gögnum er raðað upp í ákveðinn forgang, úr þeim unnið lag, sem notað er áfram sem undirlag í næsta þrepi vinnslunnar. Þannig er kortið byggt upp koll af kolli, og á endanum er tilbúið landakort sem er útbúið fyrir vefkerfi PDF-Maps.

Litakort, unnið eftir upplýsingum um gróðurfar og yfirborð. Þar eru nokkrir tugir gerða yfirborðs raðað saman og leitast er við að litir séu að sama skapi endurspeglun á náttúrulegum litum, en einnig til nánari aðgreiningar á milli gróðurtegunda.

Náttúrulegt yfirborð og manngert yfirborð er unnið til með mismunandi hætti, þar sem aðgreining á hálendi, mosum og melum rennur meira saman en aðgreining á manngerðu gróðurfari svo sem skógrækt eða tún. Gögnum með vatnafari er einnig bætt ofan á þekjuna.

Grunnkortinu sem áður var útbúið, er varpað ofan á þrívíddarlíkan og við það koma fram skuggar í landslagið, en þeir auðvelda lestur á kortinu og gera notendanum kleift að sjá hvernig landið liggur.

 Að lokum er línugögnum  varpað yfir landlíkanið, en í þeim eru t.d upplýsingar um vegi, örnefni, býli og önnur mannvirki.

Útlitshönnun

Mesta vinnan fer í útlitshönnun sem hefur það að markmiði að kortið sé skýrt og auðvelt til notkunar við leiðsögn.
Helstu atriði sem þarf að hanna útlit á eru:

  • Litaþema á yfirborði
  • Hvaða gögn eru valin hverju sinni fyrir mismunandi kort
  • Forgangur gagna, ákveða hvort hæðarlínur séu ofan á vatnafari, eða undir vegaþekju
  • Stilla af breidd línugagna, aðgreint t.d á milli þjóðvegar og fjallvega
  • Framseting örnefna og texta, letur, liti, stærðir og forgangur örnefna eftir tegund 

Nákvæmni gagna

Í kortunum er gríðarlega nákvæmt hæðarlíkan af jöklum landsins. Gögnin koma að notkun við gerð sprungukorta og þau gefa einnig góða mynd af yfirborði jökla og nágrenni þeirra. Landlíkan unnið upp eftir Lidar (Laser) og litakorti er svo varpað yfir líkanið. Við það koma sprungur í jöklinum fram og hægt að sjá á kortinu sprungur og hættusvæði.

Með frekari úrvinnslu á hæðarlíkani, er hægt að kalla fram hættusvæði með sjálfvirkum hætti, þar sem yfirborðshalli ákveður styrk fyrst guls og svo rauðs litar.  Rauðu svæðin eru því mjög hættuleg, og þau gulu varasöm. Kort sem þetta auðveldar gríðarlega ákvörðun um leiðarval og mat á aðstæðum.

Gögnin á bakvið kortin.

Ískort eru kort sem eru unnin árið 2013-2014 upp úr stafrænum kortagrunni Landmælinga Íslands – IS-50V. Hæðargögn af jöklum eru frá Veðurstofu Íslands og Raunvísindastofnun HÍ og því unnin af mikilli nákvæmni.

Helstu verkefni Ískorts til þessa

Sérverkefni fyrir Slysavarnarfélagið Landsbjörg 
Kortagrunnur útbúinn til notkunar í hugbúnaðinum OziExplorer.  Kortadreifing var útbúin fyrir tæplega 100 björgunarsveitir um allt land.

Gögn frá Loftmyndum ehf – TK-50 , Veðurstofu Íslands og Raunvísindastofnun HÍ

Sérverkefni fyrir Þyrlusveit Landhelgisgæslu Íslands 
  • Kortagrunnur útbúinn til notkunar í hugbúnaðinum OziExplorer. Kortadreifing var útbúinn til notkunar í þyrlum LHG. Gögn frá Sjómælingum, Landmælingum Íslands, Rarik, Landsnet, Mílu, Vodafone, Veðurstofu Íslands, Raunvísindastofnun HÍ og fleiri aðilum. 
  • Kortagerð fyrir PDF-Maps hugbúnað í spjaldtölvum
  • Kortagrunnur  útbúinn til notkunar í spjaldtölvuhugbúnaði PDF-Maps en í hugbúnaðinum er hægt að velja ísland og kaupa kort af íslandi eða stökum landsdvæðum. Gögn frá Landmælingum Íslands, Veðurstofu Íslands og Raunvísindastofnun Háskóla Íslands

Sækja hugbúnaðinn fyrir snjalltæki

Sækja PDF Maps á Apple App Store og Google Play án endurgjalds.
Í hugbúnaðinum er hægt að setja niður vegpunkta, mæla vegalengdir og skoða kortin. Þín staðsetning er sýnileg og hægt er að sýna staðsetningu á myndum úr spjaldtölvunni. Nú í nýjustu útgáfunni af PDF-Maps er hægt að vista niður feril í .gpx og .kml skráargerðum, ásamt því að opna slíkar skrár.
TIL BAKA Í EFNISVEITU