16.4.2014 | Blogg

Mýtan um umhverfisvæna upplýsingatækni

advania colors line

Gríðarleg bylting hefur átt sér stað í upplýsingatækni á undanförnum árum og áratugum sem bæði einstaklingar og fyrirtæki njóta góðs af. Upplýsingatækniiðnaðurinn á sér þó sínar dökku hliðar. Á fáeinum árum hefur hann náð því að menga meira en flugiðnaðurinn og búast má við að hann mengi meira en bíla- og flugiðnaðinum til samans árið 2020 (McKinsey.com). Góðu fréttirnar eru þær að við getum snúið þessari þróun við.

 

Tölvuskýin hefja innreið sína

Á síðustu áratugum hefur nánast öll meðhöndlun gagna færst yfir á stafrænt form. Samfara örum vexti og tæknilegum framförum internetsins hefur legið beint við að varsla og meðhöndlun gagna færist þangað. Hugtakið tölvuský er tiltölulega nýtt í almennri umræðu. Eftir því sem flutningsgeta, áreiðanleiki og gagnaöryggi á netinu hefur fleygt fram hafa augu manna opnast gagnvart möguleikum og hagkvæmni tölvuskýja.

Fyrirtæki og stofnanir flytja í auknum mæli tölvuvinnslu yfir í skýin til að ná rekstrarhagkvæmni og skilvirkni. Rekstur og viðhald stórra og flókinna tölvukerfa er bæði dýr hvað varðar mannafla og tölvubúnað. Vandinn liggur í hve tæknilega flókin tölvukerfi eru. Lausnir sem fela í sér ýtrasta gagnaöryggi eru í eðli sínu flóknar og krefjast reglulegs viðhalds og fjárfestinga. 

Ávinningur vegna tölvuskýja

Tölvuský gera það að verkum að auðlindir í upplýsingatækni verða mun aðgengilegri þegar þeirra er þarfnast. Gagnsæi verður í allri notkun sem leiðir af sér betri yfirsýn og betri stjórnun. Fyrirtæki geta skalað til það tölvuafl sem þau nýta hverju sinni sem dregur verulega úr þörfinni á fjárfestingu í búnaði.Með því að úthýsa sem stærstum hluta tölvukerfa sinna í tölvuský opnast fyrirtækjum aðgangur að miðlægum kerfum sem uppfylla ströngustu kröfur um öryggi og áreiðanleika. Tækjum og tækni er viðhaldið, öll gögn eru afrituð, þau vöktuð og gerð aðgengileg. Stjórnendur fá tölvuþjónustu án þess að hafa áhyggjur af því hvernig hún er veitt. Fyrirtæki geta nú nýtt krafta sérhæfðs starfsfólks í að skapa verðmæti fyrir fyrirtækið í stað þess að keyra vélbúnað innanhúss. Tölvuský geta sem sagt umbylt tölvurekstri fyrirtækja

Samhliða aukinni notkun upplýsingatækni hefur vaknað umræða um hversu umhverfisvæn hún sé. Prentun gagna hefur minnkað verulega sem þýðir minni ágang á skógarauðlindir sem er í sjálfu sér gott. Þarna er þó ekki öll sagan sögð. Þrátt fyrir að upplýsingatækni sé að stórum hluta veitt í tölvuskýjum eru þessi ský ekkert annað en netþjónar sem eru geymdir í gagnaverum út um allan heim. Og viti menn, þessir netþjónar eru knúnir orku og ekki alltaf mjög hreinni.

Kattarmyndböndin menga!

Það er ekki svo augljóst þegar við sitjum fyrir framan tölvuna að tölvunotkun okkar sé mengandi. Þó er það nú raunveruleikinn. Tölvupóstsendingar, flettingar í fésbókinni, Candy Crush leikir eða fyndin kattarmyndskeið, allt veldur þetta mengun. Það á líka við um tölvuvinnslu fyrirtækja sem nýta sér tölvuský. Skýjaþjónustur eru hýstar í einhverjum af þeim þremur milljónum gagnavera sem til eru um allan heim. Yfirgæfandi líkur eru á að þau byggi á ósjálfbærri orkunotkun. Gagnaver reiða sig á þá orku sem tiltæk er á hverjum stað fyrir sig sem er í langflestum tilfellum raforka framleidd með jarðefnaeldsneyti. Þau menga því eins og hver annar bíll eða flugvél. 

Mengun er stórt vandamál 

Upplýsingatækniiðnaðurinn veldur nú um 3% af allri útlosun gróðurhúsalofttegunda í heiminum en í nýútkominni skýrslu Greenpeace kemur fram að ef við berum tölvuskýjaiðnaðinn saman við lönd í orkunotkun yrði hann þar 6. mest mengandi landið, rétt á eftir Rússlandi og Indlandi!   

Allra hagur að minnka mengun

Það er líklega órauhæf krafa að tölvuskýjavæðingin verði umhverfisvæn á einni nóttu. Sagan hefur þó sýnt að þegar allir leggjast á eitt gerast ótrúlegustu hlutir. Nú stendur mönnum til boða að velja umhverfisvæn tölvuský fyrir sig og sitt fyrirtæki á samkeppnishæfu verði. Það er algengt viðhorf að græni kosturinn hljóti að vera dýrari en raunin er að umhverfisvæni þátturinn þarf alls ekki að vera það. 

Þrýstingurinn á að huga að umhverfisáhrifum í öllum rekstri kemur úr mörgum áttum. Stjórnvöld víða um heim knýja á um minnkandi kolefnafótspor (e. Carbon Footprint) með tilheyrandi reglugerðum, gjöldum, kvótum og sköttum.

Það er einnig sífellt útbreiddari og veigameiri skoðun að fyrirtæki beri ríka samfélagslega ábyrgð (e. CSR). Í því sambandi vega umhverfissjónarmið þungt og viðskiptavinir eru meðvitaðri um umhverfisvernd og kunna því að meta viðleitni fyrirtækja til að velja umhverfisvæna kosti í rekstri sínum.

Lánsemi Íslendinga

Við á Íslandi erum svo heppin að búa við afar hagstæð skilyrði til hýsingar og reksturs tölvuskýja. Miðlæg lega landsins, vel menntaðir íbúar og innviðir, nægt landrými, kalt lofti til kælingar á netþjónum og gnægð hreinnar og endurnýjanlegrar orku. 

Þrátt fyrir það að við Íslendingar getum keyrt tölvukerfi fyrirtækja á endurnýjanlegri orku vegna stöðu okkar á Íslandi eru tölvuský skilvirkarari og hagkæmari kostur. 

Með því að nota umhverfisvæn tölvuský getur fyrirtæki þitt dregið úr mengun og aukið skilvirkni í rekstri. Fyrirtækið og samfélagið allt nýtur ávinnings sem hlýst af ábyrgum rekstri sem er í sátt og samhljómi við umhverfið og í þökk viðskiptavina.
 

TIL BAKA Í EFNISVEITU