3.11.2015 | Blogg

Íslenskt hugvit í alþjóðlegum kappakstri

advania colors line
Team Spark er lið innan Háskóla Íslands sem hefur það að markmiði að taka þátt í hinni alþjóðlegu Formula Student mótaröð. Í henni keppa margir af fremstu verkfræði- og tækniskólar heimsins í hönnun og smíði kappakstursbíla sem eru sambærilegir við bílana sem keppa í Formula One kappakstrinum.   

Alþjóðleg keppni

Formula Student keppnirnar eru haldnar um allan heim, m.a. í Bandaríkjunum, Ástralíu og Japan og Evrópu. Team Spark tekur þátt í Formula Student UK sem er haldin á Silverstone í Englandi en þar mætast rúmlega 3.000 verkfræðinemar frá um 100 háskólum. Stig fást fyrir frammistöðu í hinum ýmsu greinum sem skiptast í kynningar á hinum ýmsu þáttum í hönnun bílsins og akstursgreinar. Aksturshluti keppninnar gefur 2/3 stigana sem eru í boði en til að fá að taka þátt í henni þarf að standast mjög strangar öryggisprófanir. Aðeins helmingur liðana stenst þær.

Hvað er Team Spark?

Team Spark var stofnað árið 2010 af nokkrum nemendum í vélaverkfræði í Háskóla Íslands. Þeim tókst að sannfæra skólayfirvöld um virði þessa verkefnis og fengu þau til veita 6 einingar fyrir þáttöku í verkefninu. Liðið hefur stækkað hratt síðan þá í dag eru liðsmenn um 50 talsins úr öllum verkfræðideildum HÍ og hefur liðið fest sig í sessi sem flaggskip verkfræðináms við HÍ. Strax frá upphafi hefur liðið lagt áherslu á umhverfisvæna stefnu en liðið keppir í flokki rafmagnsbíla og hefur verið meðal efstu liða í flokknum Sjálfbærni. Liðinu hefur ekki enn tekist að taka þátt í aksturshluta keppninnar enda hafa öryggisprófanirnar reynst því um megn.

Markmið Team Spark 

Markmið liðsins í ár eru þríþætt:

Árangur

  • Keyra bílinn a.m.k. 100 km fyrir keppni til að safna gögnum um frammistöðu, fínstilla bílinn og þjálfa ökumenn
  • Komast í gegnum öryggisprófanir, taka þátt í aksturshluta keppninnar og tvöfalda þar með stigafjölda liðsins

    Samfélag
  • Efla áhuga á verkfræði og tækni í samfélaginu
  • Efla hlut kvenna í verkfræði


Umhverfið

  • Vera áfram fremst í flokki í Sjálfbærni í Formula Student
  • Vekja áhuga á rafknúnum fararkostum

Í ár verður lagt meira upp úr prófunum á bíl síðasta árs sem kallast TS15, sem og bíl ársins í ár sem mun bera heitið TS16. Prófanir gefa mikilvægar upplýsingar varðandi framistöðu bílsins undir álagi, hvað þurfi að bæta eða jafnvel endurhanna frá grunni. Þá mun TS16 vera fyrsti bíll liðsins til að vera búinn vængjum en þeir stórbæta grip og snerpu bílsins.

Þeir sem vilja fylgjast með hvernig gengur að ná þessum markmiðum geta fylgst með á vef liðsins eða á Facebook síðu þess. 

Samstarfið við Advania

Þegar svo margir aðilar koma að sama verkefni skiptir höfuðmáli að upplýsingaflæði á milli liðsmanna og hópa innan liðsins sé gott og þar kemur tölvutæknin sér vel. Allar teikningar á íhlutum í bílnum eru hýstar á Advania Open Cloud tölvuskýinu og eru því aðgengilegar öllum liðsmönnum öllu stundum. Það lágmarkar líkur á misræmi í hönnun á milli mismunandi kerfa og er því gríðarlega mikilvægt. Þá hefur mikil endurnýjun á milli ára valdið erfiðleikum en á hverju ári eru um 80% liðsmanna á sínu fyrsta ári í liðinu. Því er varðveisla gagna mikilvæg og hefur liðið komið sér upp gagnabanka og Wiki-síðu sem verða geymd hjá Advania.

TIL BAKA Í EFNISVEITU