13.9.2016 | Blogg

Windows 7 Professional mun senn heyra sögunni til

advania colors line

Ef lagt væri af stað í ferðalag um að finna lýsandi setningu yfir heim tækninnar, gæti þessi sennilega þjónað hlutverkinu vel: einn dagur sem þúsund ár. Framfarir á ógnarhraða er staðreynd sem mótar daglegt líf með ótal þáttum, sem gjarnan tengjast hver á sinn hátt.

Fyrsta Windows stýrikerfið, Windows 1.0, kom út 20. nóvember árið 1985. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar. Í dag, eða um þrjátíu árum eftir fyrstu útgáfuna, er svo komið að Windows er aðgengilegt á 137 tungumálum og ber nýjasta útgáfan heitið Windows 10. Kom hún á markað um mitt árið 2015 og hefur verið í stöðugri þróun síðan. Þetta þýðir að Windows 10 hefur verið í keyrslu samhliða þremur útgáfum af forverum sínum frá því að það sleit barnsskónum. Hefur þessi tími reynst fyrirtækjum gott tækifæri til þess að innleiða nýja stýrikerfið og laga það að sínu umhverfi. Nú er hins vegar svo komið að Windows 7 og 8 eru að nálgast endalokin.

Microsoft hefur gefið það út að eftir 31. október árið 2017 muni framleiðendum ekki standa til boða sá kostur að útbúa tölvur sínar með Windows 7 Professional stýrikerfinu né 8.1 Professional. Hingað til hefur verið í boði að kaupa vélar með Windows 10 Professional, uppsettar með Windows 7 Professional – hér er um að ræða svokallaða niðurfærslu (e. factory downgrade). Þetta mun áfram standa til boða fram til 31. október á næsta ári, en verðhækkanir munu ganga yfir allar slíkar aðgerðir frá og með 1. nóvember 2016. Það líður því ekki að löngu þar til þetta fyrirkomulag fer að heyra sögunni til og er vert að hvetja þá sem vilja ríghalda í Windows 7 að hafa hraðar hendur. Advania hefur úrval af tölvum sem koma með slíkum skilmálum, bæði fartölvur og borðtölvur. Sá lager fer þó ört minnkandi með hverjum degi og er því ekki úr vegi að tryggja sér eintök í tíma, hér eru dæmi um slíkar vélar:

Dell Latitude E7470 fartölva með i5 Skylake 256GB SSD

Dell OptiPlex 7040 lítil borðtölva með i5 Skylake 256GB SSD

 

Fyrir þau fyrirtæki sem eru með Microsoft leyfasamninga verða málin ekki bundin sömu hnútum, þau geta í einhverjum tilfellum niðurfært sínar vélar í Windows 7 áfram. Þar hefur tími verið undanskilinn og ekkert gefið upp í því samhengi.

 

Helstu tímasetningar á núverandi stýrikerfum frá Microsoft eru því eftirfarandi:

Sala á tölvubúnaði með viðkomandi stýrikerfi hættir

 Windows 7 Professional                    hættir 31. október 2017

 Windows 8.1                                      hættir 31. október 2017

 Windows 10                                       Engin uppgefin dagsetning

 

Stuðningur við stýrikerfi, uppfærslur, lagfæringar og viðbætur

 Windows 7                                         hættir 14. janúar 2020

 Windows 8                                         hættir 10. janúar 2023

 Windows 10                                       hættir 14. október 2025

Nánari upplýsingar um líftíma Windows stýrikerfa og uppfærslupakka má finna á vef Microsoft.

 

Þeir aðilar sem hafa nú þegar fest kaup á vélum með Windows 7 eða 8 Professional, sem komu jafnframt með Windows 10 leyfum, geta náð í og sett upp Windows 10 Professional með því að fylgja þessari slóð: https://www.microsoft.com/en-us/software-download/windows10

Undirbúningur þessa breytinga hefur staðið yfir í að verða ár, líkt og dæmin að ofan bera vitni um. Það ætti því engum að koma á óvart að kveðjustund nálgast. Góðu fréttirnar fyrir Windows 7 notendur eru þó þær að ekki verður að fullu skrúfað fyrir súrefni þess, en notendur geta nálgast uppfærslur og stuðning til ársins 2023.

Þegar litið er til framtíðar hefur Microsoft gefið út tilkynningu þess efnis að Windows 10 stýrikerfið sé hið síðasta í röð Windows stýrikerfa. Með þessu er ekki verið að boða endalokin, síður en svo. Héðan í frá munu uppfærslur, nýjungar og viðbætur einkenna Windows – ekki nýtt Windows stýrikerfi.

Í upphafi var ritað: einn dagur sem þúsund ár. Erfitt getur reynst að fylgja samfélagi eftir sem gjarnan tekur breytingum dag frá degi. Ég vil því hvetja þig til að fylgjast með okkur hér á Advania blogginu, bregða undir þig betri fætinum og fá þér kaffibolla í verslun okkar eða hafa samband ef spurningar skildu hafa vaknað innra með þér eftir þessa lesningu.

TIL BAKA Í EFNISVEITU