31.8.2017 | Blogg

Maðurinn sem breytti heiminum

advania colors line

Um mitt síðasta ár störfuðu 30 manns við forsetaframboð Donalds Trump. Starfsmenn Hillary Clinton voru 800 talsins og forskot hennar á keppinautinn var mælt í tveggja stafa tölum. Ekkert virtist geta komið í veg fyrir sigur Hillary og heimurinn bjó sig undir söguleg kosningaúrslit.

Við þær aðstæður var ákveðið í herbúðum Trump að leita til manns að nafni Alexander Nix, forstjóra fyrirtækisins Cambridge Analytica sem hafði þróað byltingarkenndar aðferðir til að hafa áhrif á hegðun fólks. Ýmsir töldu aðferðafræði Cambridge Analytica þegar hafa sannað sig, enda höfðu Brexit-sinnar nýtt sér þjónustu fyrirtækisins í aðdraganda kosninganna um útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu, þar sem úrslitin komu flestum í opna skjöldu. Nú skyldi sömu aðferðum beitt til að ná hinu ómögulega markmiði: Að koma umdeildasta forsetaframbjóðanda sögunnar í Hvíta húsið. Árangurinn þekkja allir og Alexander Nix er orðinn heimsþekktur, ýmist sem galdra- eða glæframaður sem sumir telja jafnvel vera ógn við lýðræðið í heiminum. Sjálfur er maðurinn hinn viðkunnanlegasti, eins og Íslendingar geta séð í næstu viku þegar hann kemur til Íslands og kynnir okkur töfrabrögðin í eigin persónu. 

Í stuttu máli gengur aðferðafræði Cambridge Analytica út á markvissa söfnun og samkeyrslu gagna, í þeim tilgangi að klæðskerasníða skilaboð að persónuleika viðtakandans og hafa bein áhrif á hegðun hans. Umfang gagnanna er nánast stjarnfræðilegt, en með hjálp frá milljónum manna um allan heim hefur fyrirtækið þróað líkan sem veitir djúpan skilning á persónuleika fólks. Með því að keyra saman niðurstöður úr persónuleikaprófum, hefðbundnar lýðfræðilegar breytur og hundruð þúsunda gagnapunkta af ýmsu tagi getur Cambridge Analytica séð nákvæmlega hvernig ólík skilaboð - auglýsingar eða kosningaáróður - eru meðtekin í ólíkum hópum.  Þekkingin er svo notuð til að tala til fólks með gríðarlega áhrifaríkum hætti, um málefni sem skiptir viðtakandann miklu máli og á þann hátt sem virkar best á viðkomandi  persónuleika.

Á hverjum degi skilur nútímamaðurinn eftir sig óteljandi gagnaspor, ýmist meðvitað eða óafvitandi.  Neyslu- og lífstílsvenjur okkar eru skráðar og í gagnasöfnum liggja upplýsingar um skoðanir okkar, hvernig við verslum, hvert og hvernig við ferðumst, áhugamálin okkar, hvaða fjölmiðla og bækur við lesum, hvaða heilsutengdu málefni við skoðum á netinu o.s.frv. Á hverjum degi taka hundruð þúsunda manna persónuleikapróf á samfélagsmiðlunum, sem iðulega eru klædd í skemmtilegan búning! Líkar þér betur við hunda eða ketti? Ef þú værir bíll, hvaða bílategund værirðu þá? Hvaða kvikmyndastjörnu líkist þú mest? Hvenær og hvernig muntu deyja? Spurningalistarnir og prófin eru óteljandi og gögnin sem safnast endalaus, enda er hægt að keyra niðurstöðurnar saman við prófílinn sem við veitum aðgang að, „like-in" okkar, hverju við deilum á veggnum okkar o.s.frv. Það segir sig eiginlega sjálft, að með samkeyrslu á gögnunum er hægt að lesa hvert og eitt okkar eins og opna bók.

Einu sinni á ágústkvöldi, um 10 vikum fyrir kjördag í Bandaríkjunum, birtust 100 þúsund ólík afbrigði af sömu Trump-auglýsingunni á Facebook. Afbrigðin voru sniðin að ólíkum persónuleikum notenda og þeim var sannarlega ætlað að hafa áhrif á hegðun kjósenda. Sömu aðferðum var kerfisbundið beitt fram á kjördag og árangurinn var ótrúlegur. Á sama hátt og sjónvarp  gegndi lykilhlutverki í sigri John F. Kennedy árið 1960 skiptu samfélagsmiðlarnir sköpum árið 2016.  Annar frambjóðandinn hafði Alexander Nix og Cambridge Analytica í sínu horni á meðan hinn fór hefðbundnari leiðir ... og tapaði. 

Cambridge Analytica og Alexander Nix hafa byggt gríðarlega öflugt gagnagreiningartæki sem án efa mun vekja aukna athygli í framtíðinni.  Alexander Nix kynnir tækniundrið í fyrirlestri á Haustráðstefnu Advania í Hörpu, föstudaginn 8. september. Ítarlegar upplýsingar er að finna hér.

TIL BAKA Í EFNISVEITU