29.5.2018 | Fréttir

Advania á toppnum í Hjólað í vinnuna

advania colors line

Sjöunda árið í röð varð Advania hlutskarpast í vinnustaðakeppni Hjólað í vinnuna.

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands hefur frá árinu 2003 staðið að eflingu hreyfingar og starfsanda á vinnustöðum landsins með verkefninu „Hjólað í vinnuna“. Markmiðið er að vekja athygli á virkum ferðamáta sem heilsusamlegum, umhverfisvænum og hagkvæmum samgöngumáta. Þátttakendur eru hvattir til þess að hjóla, ganga, hlaupa eða nýta almenningssamgöngur til og frá vinnu í þrjár vikur í maí ár hvert. Þátttakan í átakinu hefur margfaldast síðan að verkefnið fór af stað og tóku rúmlega 450 vinnustaðir þátt í fyrra.

Advania varð hlutskarpast í keppni milli fyrirtækja með 400-799 starfsmenn eftir að hafa hjólað samtals við 9.877,47 km eða rúmlega sjö sinnum í kringum landið. Er það í sjöunda sinn sem Advania vinnur keppnina, eða allt frá stofnun fyrirtækisins árið 2012.

Fulltrúar hjólaklúbbs Advania mættu því í Fjölskyldu- og Húsdýragarðinn í dag þar sem þeir tóku á móti verðlaunum og heilsuðu upp á íbúa garðsins.Hjólaklúbburinn hefur staðið sig með prýði í því að hvetja samstarfsfólk áfram og efla starfsandann innan fyrirtækisins.


TIL BAKA Í EFNISVEITU