10.5.2019 | Blogg

Rafstuð í Reykjavík

advania colors line

Hvað getur sagan kennt okkur um fjórðu iðnbyltinguna? Það skyldi þó aldrei vera að sagan endurtaki sig eða við gætum lært af henni? Að ný tækni taki ekki almennilega á sprett fyrr en hún hefur náð ákveðinni lágmarks viðspyrnu. Að þeir sem verða undirbúnir geti þá nýtt færið og skilið hina eftir í kolareyk og gufuskýi.

Brynjólfur Ægir Sævarsson, forstöðumaður ráðgjafateymisins Advania Advice, skrifar: 

Árið 1882 opnuðu fyrstu almenningsrafveiturnar í London og New York. Frá þeim tíma liðu sex ár þangað til fyrst var kveikt á ljósaperu á Íslandi (í Lærða skólanum auðvitað) og um sama bil felldu bæjarfulltrúar í Reykjavík tillögu um „rafvæðingu“ með 10 hestafla gufuvél. Ítrekað voru áform um virkjanir eða rafstöðvar sett úr af borði bæjarstjórnarinnar og það var ekki fyrr en árið 1910, þegar íbúar bæjarins voru ríflega 11 þúsund, að bæjarfélagið hóf notkun á rafmagni þegar gasstöð var nýtt til götulýsingar í stað steinolíulampa. Fyrsta vatnsaflsvirkjunin var reist í Hafnarfirði árið 1904, en þá höfðu liðið rúm 25 ár síðan ljósaperan var fundin upp. Með henni voru lýst upp heil 16 heimili í bænum.

Árið 1921 var Elliðaárvirkjun svo tekin í gagnið og náði til tæplega 800 heimtauga. Í kjölfarið voru mótorvirkjanir lagðar niður í Reykjavík, en þær voru þá um 20 talsins og þjónuðu flestar einu húsi. Um og upp úr 1940 fóru svo virkjanaframkvæmdir að taka verulega við sér í kjölfarið á innreið raftækja á borð við eldavélar, en fram að því hafði raforka einkum verið nýtt til lýsingar.

Hvað kemur þetta okkur við og hvers vegna tók þetta svona langan tíma?
Svarið er eitt og hið sama: Þetta snerist um forgangsröðun um nýtingu þess fjármags sem úr var að spila. Vatns- og fráveitumál voru ofar í forgangsröðinni, enda enn brýnni út frá heilsufarssjónarmiðum. Ég hef enn ekki hitt þann stjórnanda, sem þarf ekki að takast á við áskoranir við forgangsröðun verkefna og nýtingu fjármuna.

Um alla Evrópu og í Bandaríkjunum spurðu iðnrekendur þeirrar spurningar um þarsíðustu aldamót, hvort rétt væri að skipta út gufuvélum fyrir rafvélar. Þegar horft er til þessa tíma kemur í ljós að raforkan var lengi að skila aukinni framlegð. Í fyrsta lagi krafðist nýting raforku mikillar fjárfestingar og þegar menn höfðu gufuvélar sem virkuðu ágætlega - og áttu við alls kyns áskoranir í daglegum rekstri - var réttlæting hennar ekki augljós. Í öðru lagi þurfti allt annars konar sérþekkingu og vinnubrögð við rafvélar en gufuvélar. Þeir sem flýttu sér af stað við innleiðingu rafmagns náðu því ekkert endilega forskoti strax. Til að fullnýta færið varð að gera grundvallarbreytingar á hvernig hlutirnir voru hugsaðir. Árið 1900 átti rafmagn aðeins 5% hlutdeild í orku í bandarískum iðnaði.

Ég smellti ekki hérna til að lesa bara um einhverja forneskju!
„Easy róleg(ur)“, við snúum okkur þá til nútímans - en þó með millilendingu í þriðju iðnbyltingunni. Það kemur nefnilega í ljós að nákvæmlega sama mynstur kom fram við hagnýtingu einkatölvunnar. Mjög hæg byrjun, engin aukning í framleiðni og svo búmm! Hagfræðingurinn Robert Solow fékk Nóbelsverðlaun árið 1987 fyrir framsetningu sína á þversögn sem má súmmera ágætlega upp í tilvitnun í hann:

„You can see the computer age everywhere but in the productivity statistics.“
Hagfræðingarnir Erik Brynjolfsson og Lorin Hitt (1) skrifuðu um þetta tímabil nokkru seinna. Meðal þess sem þeir bentu á var að þau fyrirtæki sem fjárfestu meira í mannauði og voru valddreifðari, samhliða fjárfestingu í tækni, voru verðmætari:


Virði fyrirtækja m.t.t. strúktúrs og fjárfestingar í tækni við innleiðingu einkatölvunnar (1).
Nafni minn (svona næstum því), Erik Brynjolfsson, skrifaði ásamt fleirum (2) um tengingu þessara þátta við gervigreind og aðrar tækniframfarir, sem við erum að fá í fangið um þessar mundir. Þeir félagar benda þar á hve þéttni tækninnar skiptir miklu máli. Þ.e. hvort viðskiptavinir eða aðrir í virðiskeðjunni nota sömu tækni. Af því verða margföldunaráhrif. Það er til að mynda ekki líklegt til aukningar framleiðni að vera eini símaeigandinn í heiminum. Á sama hátt er takmarkað gagn í rafbíl, nema hægt sé að komast í hleðslustöð.

Í grein sinni bera þeir félagar saman þróun framleiðni á þessum tveimur innleiðingartímabilum: Raforkunnar og einkatölvunnar. Fyrstu 25 árin eða svo gerðist fremur lítið, en svo kom stökkið:Samanburður á þróun framleiðni í Bandaríkjunum á tveimur 50 ára tímabilum, þar sem 100 er á miðju tímabilinu (2).
Þó framleiðni sé ekki mælikvarði á rekstrarafkomu, er þetta áhugavert mynstur og vekur mann til umhugsunar. Framleiðni gefur okkur vísbendingu um hvað við sem samfélag fáum út úr framförum og hvernig mannauðurinn nýtist. Til að setja það í samhengi má hugsa til þess sem bandaríski verkalýðsforinginn Walter Reuther sagði í heimsókn í Ford-verksmiðju í byrjun 6. áratugarins. Þegar einn stjórnandi Ford spurði hann hvernig hann ætlaði að fá nýju róbótana í verksmiðjunni til að greiða í verkalýðsfélagið, svaraði hann:

„Hvernig ætlar þú að fá róbótana til að kaupa nýja Ford-bíla?“
Það má í öllu falli leiða líkur til þess að við séum sannarlega að ganga í gegn um iðnbyltingu. Við sjáum að þeir sem komu best undan iðnbyltingum númer tvö og þrjú þurftu að horfa til framtíðar og fjárfesta í þekkingu samhliða tækni. Aðlaga skipulag og starfsemina að nýjum tímum. Fyrir utan hina auðvitað, sem komu nýir inn og leystu úrelt fyrirtæki af hólmi. Gömlu bisnessmódelin virðast nefnilega þola misvel svona byltingar.

(1) Brynjolfsson, E. & Hitt, L. (2000). Beyond Computation: Information Technology, Organizational Transformation and Business Performance. Journal of Economic Perspectives - Volume 14, 23-48. http://ebusiness.mit.edu/erik/Beyond%20Computation%20-%20JEP.pdf

(2) Brynjolfsson, E., Rock, D. & Syverson, C. (2017). Artificial Intelligence and the Modern Productivity Paradox: A Clash of Expectations and Statistics. Working Paper 24001. National Bureu of Economic Research Working Paper Series. https://www.nber.org/papers/w24001.pdf

Sögulegar heimildir m.a. héðan: http://www.rafis.is/fir/um-fir/saga


TIL BAKA Í EFNISVEITU