2.5.2012 | Blogg

App fyrir spjaldtölvur og snjallsíma

advania colors line
Mikill áhugi er í þjóðfélaginu fyrir nýjungum og nú eru allir að tala um öpp, snjallsíma og spjaldtölvur. Bensínvaktin er app fyrir Android sem var gefið út á dögunum af Advania í samstarfi við GSM bensín. Hér verður farið yfir ferlið hjá Advania við útfærslu á appinu.

Það vantar ekki tæki og stýrikerfi

Fjöldi tegunda af tækjum, skjástærðum og gerðum síma skapa ýmsar áskoranir við forritun á lausnum fyrir þau. Algengustu stýrikerfin eru Android og iOS. Windows Mobile er einnig að koma inn á markaðinn af fullum krafti. Hvert stýrikerfi hefur sitt eigið forritunarmál og er því full ástæða fyrir hugbúnaðarframleiðendur sem vilja markaðssetja vöru sína fyrir öll tæki að skoða tól þar sem hægt er að útfæra lausnir með einum kjarna-kóða sem er hægt að þýða fyrir fleiri en eitt stýrikerfi.

Byrjað á Android – iOS útgáfa er á leiðinni

Við ákváðum að byrja á að útfæra Bensínvaktina fyrir Android og er unnið nú að iOS útgáfu. Með gögnum og vefþjónustum frá GSM bensín var hægt að hefjast handa. Nú eru gögn sótt þangað með reglulegu millibili og geymd á gagnagrunni hjá Advania. Þetta var gert til að minnka álag hjá GSM bensín og til að hafa möguleika á að útfæra okkar eigin vefþjónustur fyrir app þróun. Snjalltækin nota vefþjónustur Advania til að sækja og uppfæra gögn. Hönnun Bensínvaktarinnar er þannig að sem minnst er sótt af gögnum og sér tæki endanotandans um að uppfæra gögn þegar þess þarf.  

Viðmót skiptir öllu

Með hjálp hönnuða Advania er útlit og viðmót skýrt, einfalt og stílhreint. Það er ótrúlega gaman að sjá hvað breytingar á minnstu hlutum geta skipt máli í útliti og viðmóti.

Útgáfa á Google Play er auðveld í framkvæmd

Android app eru gefin út á Google Play. Þar eru gerðar miklar kröfur um fjölda mynda og texta sem þarf að útvega þegar app er gefið út. Mikilvægt er að vanda vel til verks til að notendur sjái á auðveldan hátt hvað viðkomandi app gerir og til að útlit veki áhuga og forvitni fólks. Auðvelt er að gefa út nýjar útgáfur af appi á Google Play og höfum við gefið appið nokkrum sinnum út til að endurbæta ýmis atriði. Til dæmis voru textar og reiknivél löguð og svo fannst notendum fánar á korti ekki nógu skýrir. Þetta var lagað í nýjum útgáfum.


Um höfundinn
Gunnar Þórisson er verkfræðingur og starfar sem þróunarstjóri snjallsímalausna hjá Advania. Gunnar hefur einnig starfað mikið í samþættingu og verið starfsmaður hjá Advania síðan 2006.

Hafa samband

Advania útfærir lausnir fyrir Android, iOS og Windows Mobile. Ef þú villt vita meira, hafðu samband við Gunnar Þórisson með því að senda honum tölvupóst.

TIL BAKA Í EFNISVEITU