5.6.2012 | Blogg

Lokaverkefni í tölvunarfræði sem gæti stórbætt þjónustu við farþega Strætó

advania colors line

Nýverið kláruðum við B.S. lokaverkefni í tölvunarfræði við Háskólann í Reykjavík sem fól í sér hönnun, forritun og prófanir á appi fyrir Apple iOS stýrikerfið sem við köllum Vagnavaktina. Í allri okkar vinnu lögðum við áherslu á að auðvelt væri að færa appið yfir í önnur stýrikerfi fyrir snjallsíma og spjaldtölvur, til dæmis Android og Windows.  

Vildum vinna með GPS gögn


Við hófum störf í app teymi Advania síðast liðið haust en áður hafði Jökull unnið að þróun á Android appi fyrir Alþjóða vinnumálastofnunina (I.L.O.). Við höfðum unnið að rannsóknarverkefni á umferðarþunga í námi okkar í Háskólanum í Reykjavík þar sem við unnum með og nýttum við okkur GPS hnit úr bifreiðum. Okkur fannst því tilvalið að gera lokaverkefni sem fæli í sér meðhöndlun á GPS gögnum. Eftir að Strætó byrjaði að birta rauntímagögn sem sýna staðsetningu strætisvagna þá kviknaði áhuginnn á því að búa til app sem gæti bætt þjónustu við farþega Strætó.

Fjölbreytt virkni

Við hófum vinnu við Vagnavaktina í janúar síðast liðinn og unnum sleitulaust til loka aprílmánaðar þegar skýrslugerð vegna skila á lokaverkefni tók við. Uppbygging á verkefninu var hefðbundin, fyrst var byrjað á hönnunarvinnu, svo tók forritun við og endað var á prófunum.

Helsta virknin í appinu er eftirfarandi: 

Leit að vögnum og leiðum
Notandinn getur slegið inn staðsetningu sína og áfangastað og fengið leiðaráætlun um hæl
Vagnavaktin vistar staðsetningar sem notandinn hefur leitað að áður
Leit í Vagnavaktinni getur miðast við staðsetningu notandans – við leggjum áherslu að nýta GPS virkni viðkomandi tækis til að bæta notagildi appsins

Rauntímakort með staðsetningu vagna
Sýnir staðsetningu notandans og vagna
Allar biðstöðvar Strætó eru sýndar á kortinu 

Rauntímaáætlun sem sýnir áætlaðan komutíma næsta vagns
Appið áætlar fyrir notandann hvað er langt í næsta strætisvagn
Sýnir hvort vagn sé á áætlun og hvort vagninn sé á biðstöð

Áskorun lá í að vinna úr hrágögnum

Mesta áskorunin í verkefninu var að reikna út rauntímaáætlun sem sýnir notanda hvenær von er á næsta vagni. Allir strætisvagnar hafa GPS sendi sem sýnir staðsetningu þeirra. Þessum upplýsingum er miðlað með vefþjónustu. Þessi gögn innihalda ekki einkvæmt auðkenni fyrir hvern vagn. Þetta þýddi að þegar tveir vagnar á sömu leið mætast þá var ekki hægt að aðgreina þá. Við þurftum því að þróa aðferðir til að auðkenna vagnanna. 

Byggt á vefþjónustu

Við þróuðum vefþjónustu í C# .NETsem talar við vefþjónustur frá nokkrum þjónustuaðilum. Við leggjum mikla áherslu á það í okkar högun að vefþjónustan visti gögn frá þjónustuaðilum í flýtiminni (e. caching) eins og kostur er. Öll virkni og útreikningar eru í vefþjónustunni, appið er í raun einungis lítið viðmót til þess að birta og senda svokölluð JSON gögn til og frá vefþjónustunni. Vefþjónustan sér alfarið um samskipti við spjaldtölvu eða snjallsíma notandans. 

Þessi aðferðarfræði lágmarkar álagið á vefþjónusturnar sem við nýtum okkur í appinu. Þetta auðveldar að færa appið yfir á aðrar tegundir tækja. Menn reka sig oft á að öpp eru gjarnan þróuð þannig að mest af virkninni er í tækinu sjálfu. Það stóreykur flækjustig í að að þróa sama appið fyrir mörg stýrikerfi. 


Nýtum styrkleika Advania í hýsingu gagna, kerfa og þjónustu

Í framtíðinni horfum við til þess að nýta styrkleika heildarþjónustu Advania við app þróun. Þeir  felast í því að við getum boðið örugga hýsingu á kerfum og vefþjónustum sem liggja á bakvið öpp í snjallsímum og spjaldtölvum. Við höfum líka velt því fyrir okkur að svona app mætti nota til að safna upplýsingum um þær ferðir sem notendur eru að leita að og nýta sér. Þetta gæti aðstoðað aðila eins og til dæmis Strætó við að bæta þjónustu sína með því að laga hana að notkunarmynstri sem mælist í gegnum viðkomandi app. Þó þarf að huga mjög vel að persónuverndarsjónarmiðum við slíka upplýsingaöflun.

Að búa til app fyrir Strætó var afar lærdómsríkt ferli og við erum ánægðir með þá einkunn sem við fengum fyrir verkefnið. Advania hefur þegar gefið út og dreift appi sem hefur mikið notagildi fyrir almenning en það er Bensínvaktin.

Hafa samband

Ef þú hefur áhuga á því að fá að vita meira um app þróun og smíði sendu okku þá línu.

TIL BAKA Í EFNISVEITU