27.6.2012 | Blogg

Pinnið á minnið

advania colors line
Nú stendur yfir verkefnið Pinnið á minnið en með því er notkun greiðslukorta með örgjörva innleidd á Íslandi. Tilgangurinn er að íslensk fyrirtæki, korthafar, útgefendur greiðslukorta og færsluhirðar uppfylli alþjóðlegar kröfur um öryggi í kortaviðskiptum. Innan skamms munu íslenskir korthafar því þurfa að leggja pinnið á minnið og staðfesta greiðslur með pinni (PIN-númeri) í stað undirskriftar, líkt og þekkist víða erlendis. Greiðsluveitan, dótturfyrirtæki Seðlabanka Íslands, hefur umsjón með verkefninu. 

Ávinningur verkefnisins

Ávinningur af breytingunni er aukið öryggi fyrir korthafa og fyrirtæki sem taka við kortum. Með þessari breytingu mætir íslenskt samfélag kröfum alþjóðlegu kortafyrirtækjanna um öryggi í kortaviðskiptum.  Þessar kröfur eru innleiddar um allan heim, til að sporna við fjársvikum skipulagðra glæpasamtaka.

Posinn snýr að viðskiptavininum

Fyrirtæki á Íslandi sem taka við kortagreiðslum setja nú upp posa sem snúa að viðskiptavinum, líkt og víða erlendis. Viðskiptavinurinn þarf þá ekki lengur að láta örgjörvakortið sitt af hendi þegar hann greiðir fyrir vörur og þjónustu. Starfsfólk á sölustöðum biður um staðfestingu með pinni í stað undirskriftar. Pinnið eru fjórir tölustafir sem korthafinn þarf að varðveita vel. Ef örgjörvakortinu er stolið er ekki hægt að nota það á sölustöðum sem krefst þess að viðskiptin séu staðfest með pinni.

Ábyrgð söluaðila

Eins og áður sagði hafa alþjóðleg glæpasamtök nýtt sér kortaupplýsingar til að framleiða fölsuð kort sem framvísað er um allan heim. Söluaðilar bera ekki ábyrgð á sviksamlegri færslu á örgjörvakorti sem tekið er á móti með örgjörvaposa, hafi hún verið staðfest á réttan hátt með pinni í stað undirskriftar.  Söluaðilar bera hins vegar ábyrgð á sviksamlegri færslu ef segulrönd er notuð og færsla er staðfest með undirskrift. Með því að nota örgjörva í stað segulrandar og með því að staðfesta viðskipti með innslætti á PIN númeri í stað undirskriftar eru kortaviðskipti gerð enn öruggari.

Hverju þurfa fyrirtækin að breyta?

Advania býður tengingu á milli kassa og örgjörvaposa í afgreiðslukerfum og oft þarf að aðlaga kassakerfi og annan búnað. Flestum dugar einn posi fyrir hverja útstöð. Örgjörvaposi sem bætist við útstöð afgreiðslukerfis er líklega nettengdur og því þarf að huga að netlögn að posanum ef hún er ekki fyrir hendi. Síðan þarf að finna hentuga staðsetningu fyrir posa sem snýr að viðskiptavini. Þjónustuaðilar örgjörvaposa eiga tilbúnar lausnir fyrir fyrirtæki með sjálfstæða posa, hvort sem hentar betur að setja upp tvo samtengda posa eða einn posa sem snúa má í báðar áttir. Annaðhvort þarf að uppfæra hugbúnað posans eða skipta yfir í örgjörvaposa.

Styttist í að innsláttur á PIN númeri verði skylda

Kortaútgefendur eru langt komnir með að skipta út segulrandarkortum fyrir kort með örgjörva. Skipta þarf út um 14.000 posum í verslunum og á þjónustustöðum um allt land. Til að breyting sem þessi geti gengið reynir á korthafana sem þurfa að leggja fjóra tölustafi á minnið. Enn er hægt að nota „gömlu aðferðina“ ef korthafinn man ekki pinnið. Þessi möguleiki er þó aðeins leyfilegur tímabundið á meðan korthafar aðlagast nýju aðferðinni. Fljótlega verða allir beðnir um að staðfesta viðskiptin með pinni í stað undirskriftar.
 
Í lokin má nefna það að hvorugkynsorðið pinn er nýyrði og fallbeygist eins og skinn.

Hafðu samband
Viltu vita meira um Pinnið á minnið verkefnið eða þarftu upplýsingar varðandi tengingar á milli kassa og örgjörvaposa í afgreiðslukerfnu? Hafðu samband við Baldur Örn með því að senda honum tölvupóst.  

 TIL BAKA Í EFNISVEITU