30.1.2013 | Blogg

Skalanleg vefhönnun, Responsive Design

advania colors line

Afhverju skalanleg vefhönnun?

Í lok seinasta árs voru seldir yfir 500.000 iPhone símar á dag og 1.300.000 Android tæki voru virkjuð á dag. Til að setja þetta í samhengi eru Íslendingar um 320.000 og þetta eru því yfir fimm snjallsímar fyrir hvern Íslending. Á dag. Þó að þetta séu tölur fyrir allan heiminn má gera ráð fyrir að Íslendingar séu ekki eftirbátar annarra þjóða.

Sagan hingað til

Frá örófi alda höfum við mennirnir haft þörf fyrir að tjá okkur og setja mark okkar á umhverfið. Vefurinn hefur auðveldað þetta til muna og nú á dögum getur hver sem er komið hugmyndum sínum á framfæri fyrir alþjóð á örskots stundu. En hvernig er þetta efni yfirleitt sett fram? Á seinustu árum hafa lang flestir vefir verið settir upp miðað við minnstu breidd sem talið er að flestar borðtölvur ráði við en hvað gerist ef við horfum til snjallsíma- og spjaldtölvuvæðingarinnar, hvernig birta þau tæki efnið okkar? Vefurinn þinn er skoðaður í allskonar tækjum, hvernig upplifun er hann að bjóða upp á?

Ný hugsun

Skalanleg vefhönnun er leið til að hanna birtingu á efni sem aðlagar sig að umhverfi sínu. Hvort sem notaður er sími með litla skjástærð eða risa-sjónvarpsskjá, þá birtist efnið á hátt sem hentar því. Byggir þessi hönnun á þremur þáttum:

  • Sveigjanlegu umbroti, byggðu á grind. Þ.e.a.s. stærðir eru skilgreindar í hlutföllum, en ekki föstum stærðum
  • Sveigjanlegum myndum og miðlum
  • Media queries, virkni í CSS sem leyfir stjórn á stílum eftir skjástærð

Nánar er hægt að fræðast um skalanlega vefhönnun í greininni "Responsive Web Design" eða með því að prófa að minnka og stækka vafrann þinn, hérna á vef Advania. Að hanna vef út frá þessu krefst þess að maður líti á allt ferlið í nýju ljósi, forgangsraði hvaða efni er mikilvægast á hverri síðu. Sumir ganga svo langt að segja að besta leiðin til að hanna vef sé að byrja á því að hanna hann fyrir minnstu stærð og vinna sig síðan upp. Þá sé efnið í algjörum forgangi og eftir því sem skjástærðin eykst, þá fáum við tækifæri til að bæta upplifunina.

Framtíðin

Er skalanleg vefhönnun enn ein tískubóla í vefhönnun eða er hún komin til að vera? Þeirri spurningu verður svarað á næstu árum á meðan vefhönnuðir halda áfram að þróa þessa hugsun, vafrar taka upp nýja tækni og fjölbreytileiki vélbúnaðar eykst. Að lokum er gaman að lesa yfir þá punkta sem "Future friendly" hópurinn setti niður eftir að hafa spekúlerað um framtíðina:

  • Viðurkennum og fögnum hinu ófyrirsjáanlega
  • Hugsum og högum okkur með framtíðina í huga
  • Hjálpum öðrum að gera það sama
TIL BAKA Í EFNISVEITU