20.2.2013 | Blogg

Fimm góðar leiðir til að hugsa vel um fartölvuna þína

advania colors line

Flest erum við háð tölvunni okkar í leik og starfi og finnst afleitt ef hún bilar. Lágmarka má líkur á bilunum og vandræðum með nokkrum einföldum ráðum.

Passaðu að fartölvan ofhitni ekki

Ef þú ert með fartölvu er mikilvægt að það lofti vel um hana svo hún ofhitni ekki. Gættu þess að ekki sé lokað fyrir loftristar og best að vera ávallt með tölvuna á hörðu yfirborði.  Ef tölvan er notuð mikið í rykmettuðu umhverfi t.d. í svefnherbergjum er mikilvægt að láta rykhreinsa hana reglulega til dæmis einu sinni á ári. Ef loftristar stíflast vegna loftleysis eða ryks er hætta á að örgjörvinn og aðrir íhlutir geti ofhitnað og eyðilagst.

Passaðu gögnin þín

Taktu reglulega afrit af gögnunum þínum. Gögnin eru geymd á harða diskinum og það getur verið kostnaðarsamt að bjarga þeim af biluðum diski. Fjölbreyttar lausnir eru í boði varðandi gagnageymslu í skýinu. Dæmi um það eru lausnir eins og Sky Drive frá Microsoft, Google Drive og Dropbox. Auk þess býður verslun Advania fjölbreytt úrval flakkara og diskahýsinga af öllum stærðum og gerðum.

Gættu þín á óværu

Vertu með góða vírusvörn á tölvunni þinni og gættu þess að hún uppfæri sig reglulega. Windows stýrikerfi koma með innbyggðum eldvegg (Windows firewall) sem er mikilvægt að hafa alltaf í gangi og rétt stilltan.  Einnig er mikilvægt að stilla tölvuna þannig að hún sæki reglulega nýjustu uppfærslur fyrir stýrikerfið. Þó svo að maður geti aldrei verið 100% varinn gagnvart vírusum og netárásum þá ertu vel sett(ur) ef þessi þrjú atriði eru lagi.

Allur er varinn góður

Ef þú ert með fartölvu þá skaltu gæta þess að slökkva á henni eða setja hana í svefn (sleep/hibernate) þegar þú ert að ferðast með hana á milli staða. Mun minni líkur eru á að harði diskurinn verði fyrir tjóni vegna höggs eða hristings ef slökkt er á tölvunni.

Öryggið á oddinn

Læstu tölvunni þinni með lykilorði og gættu þess að vafrinn þinn sé stilltur þannig að hann geymi ekki lykilorð sjálfkrafa. Ef fleiri en einn eru að nota sömu tölvu er hægt að setja upp aðgang fyrir hvern og einn og stilla hann þannig að hver notandi hafi ekki aðgang að gögnum annarra notenda.

Við hjá verkstæði Advania erum boðin og búin að leysa úr vandræðum tölvueiganda hratt og vel. Ekki hika við að hafa samband eða koma í heimsókn til okkar að Grensásvegi 8 ef þú ert með bilaða tölvu eða vantar góð ráð við að halda vélinni þinni í fullkomnu lagi.

TIL BAKA Í EFNISVEITU