26.2.2013 | Blogg

Vefnám felur í sér sveigjanleika og sparnað

advania colors line

Þjálfun og fræðsla eru mikilvægir þættir í starfsemi fyrirtækja og stofnana. Fræðimenn eru almennt á því að þekking starfsmanna sé lykilatriði í rekstri og það sem helst veitir samkeppnisforskot. Samt sem áður er þetta oft fyrsti hluti starfseminnar þar sem skorið er niður þegar kreppir að. Þess vegna er mikilvægt að finna leiðir til að halda kostnaði við fræðslu niðri án þess að það bitni á gæðum fræðslunnar. Ein leiðin til þess er að nýta vefnám í meira mæli.


Sveigjanleiki og betra aðgengi

Helsti kostur vefnáms er sveigjanleikinn sem það býður upp á. Með vefnámi má útvega fræðslu þegar og þar sem hennar er þörf. Allir eiga að geta fylgt sínum eigin hraða í náminu og valið hvaða námsbraut sem er. Þannig getur eitt og sama námskeiðið náð til margra á skömmum tíma og þekking getur því dreifst hratt. 

Sveigjanleiki er ekki síður mikilvægur fyrir nemendur. Þeir stjórna sjálfir hraðanum á yfirferðinni og geta sinnt náminu hvar og hvenær sem er. Þar sem námsefnið er oft til staðar áfram eftir að námskeiðinu lýkur getur það stutt við varðveislu þekkingarinnar. Vefnámskeið geta veitt mikilvægan stuðning við hefðbundnari námskeið, t.d. að nemendur taki undirbúningsnámskeið á vef áður en þeir sækja annað námskeið eða rifja upp námsefni.


Vefnám er hagkvæm lausn

Möguleiki á sparnaði er það sem mest áhrif hefur á þá ákvörðun að boðið er upp á vefnámskeið. Í vefnámi, einkum þegar um er að ræða sjálfsnám á vef, er ekki þörf á kennslusal eða leiðbeinanda þannig að kostnaður við þessa þætti fellur niður. Þar sem starfsmenn þurfa ekki að fara frá vinnustöðvum sínum á meðan á fræðslunni stendur og geta jafnvel sótt námskeiðin heima sparast kostnaður við ferðalög þeirra, gistingu og máltíðir.

Nokkur atriði stuðla að því að vefnámskeið verði hagkvæmari en ella og má þar einkum nefna þrennt; líftíma námskeiðsins, fjölda nemenda og styttri námstíma. 

  • Líftími námskeiðs. Líftími vefnámskeiðsins, eða sá tími sem hægt er að nota sama námskeiðið, hefur mikil áhrif á heildarkostnaðinn. Sá tími veltur á breytingum á innihaldi námskeiðsins, breytingum í tækni og breytingum í þörfum fyrirtækisins. Því lengur sem hægt er að nota sama námskeiðið því ódýrara verður það þegar á heildina er litið. 
  • Fjöldi nemenda. Kostnaður við þróun námsefnis fyrir vefnámskeið er alveg sá sami hvort sem námskeiðið er ætlað 10 manns eða 1000. Eftir því sem fleiri nýta sér námskeiðið því minni verður kostnaðurinn á hvern nemanda.
  • Styttri námstími. Rannsóknir hafa sýnt fram á að það tekur nemendur 40-60% skemmri tíma að tileinka sér námsefni í vefnámskeiði en í venjulegu námskeiði án þess að það bitni á gæðum kennslunnar.  Þetta leiðir til þess að starfsmenn missa minni tíma úr vinnu þegar þeir sækja vefnám miðað við þegar nám á hefðbundnu formi er sótt, auk þess sem vefnámskeiðin krefjast ekki fjarveru og ferðalaga af vinnustað.

Hvenær á vefnám við?

Þrátt fyrir marga kosti vefnáms vitum við alveg að tölvur koma aldrei í stað persónulegra samskipta fólks. Þess vegna skiptir máli að vita hvernig efni hentar til kennslu með vefnámskeiðum og hvað er betra að fara yfir augliti til auglitis. Það er til dæmis upplagt að nota vefnámskeið til að kenna viðskiptaferla eða notkun á hugbúnaði. Hópefli, samskiptafærni og annað sem krefst persónulegra samskipta er hins vegar betra að kenna augliti til auglitis. Það má þó vel nota vefinn til að styðja við slíkt nám.

TIL BAKA Í EFNISVEITU